Fræðsla fyrir erlenda ferðamenn

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:28:43 (898)

1998-11-04 16:28:43# 123. lþ. 20.7 fundur 154. mál: #A fræðsla fyrir erlenda ferðamenn# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:28]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það má vera að það sé rétt að reyna að setja einhverjar ákveðnar reglur um hvaða upplýsingum nauðsynlegt sé að koma til ferðamanna og er sjálfsagt að athuga það.

Á hinn bóginn skulum við ekki gera of lítið úr því að mjög örðugt er að koma í veg fyrir slys og margir menn sem eru mjög kunnugir íslenskri náttúru hafa því miður brennt sig á því, látið lífið eða slasast stórkostlega. Náttúra Íslands getur verið mjög grimm og veður óvægin, svo ekki sé meira sagt.

Ég vil minna á að nú er völ á fullkominni miðunartækni í gegnum Flugbjörgunarsveitina þar sem ferðamenn sem fara inn á óbyggðir geta gert ferðaáætlun fyrir fram og eru síðan með búnað á sér sem veldur því að hægt er að fylgjast með ferðamanninum og ferðum hans hvar sem hann fer, sem veldur því að auðvelt er að átta sig á ef eitthvað óhapp hefur hent eða ferðamaðurinn er kominn í ógöngur. Þannig er stöðugt verið að reyna að vinna að öryggi ferðamanna, hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir. En auðvitað er það rétt hjá hv. þingmönnum að lengi er hægt að gera betur í þeim efnum.