Áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:34:51 (901)

1998-11-04 16:34:51# 123. lþ. 20.8 fundur 155. mál: #A áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:34]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu þarfa máli. Satt best að segja vekur undrun að það skuli ekki fyrir löngu hafa verið gert að umfjöllunarefni hér á þinginu. Enn dæmalausari eru náttúrlega svörin, að engin úttekt hafi farið fram á áhrifum Schengen-aðildar á þá íslensku atvinnugrein sem væntanlega verður fyrir langmestum áhrifum til góðs eða ills af Schengen-aðild, ferðaþjónustuna. Það þýðir náttúrlega lítið að vitna í kannanir í Noregi í þeim efnum. Aðstæður Íslands eru að mörgu leyti algjörlega sérstakar hér þar sem umferðin hingað fer ekki yfir landamæri á landi. Allir vita hvað veldur mestum þrýstingi á þetta í Noregi, það eru hin löngu, sameiginlegu landamæri í Skandinavíu með Svíþjóð.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við Íslendingar eigum ekkert erindi inn í Schengen nema við ætlum að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þá er eins gott að segja það. En hægfara innlimun í Evrópusambandið eins og sú sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir, m.a. með aðild að Schengen, er fremur ógeðfelld. Menn koma ekki hreint til dyranna. Ég held að það vanti allt of miklar upplýsingar um það, t.d. hvaða áhrif Schengen-fyrirkomulagið kemur til með að hafa í Keflavík og í flugstöðinni þar og getur valdið miklum erfiðleikum, ekki síst Flugleiðum.

Að lokum er það misskilningur hjá hæstv. samgrh. að hægt sé að afgreiða málin með því að segja: Ferðaþjónustan ætlar ekki að borga þennan kostnað. Hún mun verða látin borga hann í formi aukinna gjalda og kostnaðar sem á hana leggst, hvað sem samgrh. segir.