Áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 04. nóvember 1998, kl. 16:41:52 (905)

1998-11-04 16:41:52# 123. lþ. 20.8 fundur 155. mál: #A áhrif af Schengen-aðild á ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 123. lþ.

[16:41]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil minna á, ég hélt raunar að það tengdist ekki í þessari spurningu, að heilmiklar athuganir og rannsóknir hafa átt sér stað á því hvernig best verði fyrir komið í flugstöðinni í Keflavík að hafa þar skipt salarkynni, annars vegar innan og hins vegar utan Schengen. Miklar viðræður fóru fram um hvernig því yrði fyrir komið milli Flugleiða og utanrrn. en flugstöðin í Keflavík heyrir undir utanrrn. Samgrn. fylgdist með gangi mála og hefur auðvitað haft möguleika á að koma fram með athugasemdir. Miklar athuganir og rannsóknir fóru fram og farið í strangan undirbúning áður en niðurstaða var fundin. Hún var á þá leið að Flugleiðir féllust að lokum á Schengen-aðild okkar Íslendinga og gerðu ekki athugasemdir við undirbúninginn sem þar hefur verið ákveðinn varðandi byggingarframkvæmdir og fyrirkomulag í Leifsstöð.

Ég er alveg sammála þeirri ábendingu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að rétt sé að úttekt eins og hann talaði um hér fari fram og vil við þetta tækifæri lýsa því yfir að ég mun sjá til að hún fari fram.