Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 11:08:11 (909)

1998-11-05 11:08:11# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[11:08]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Á einum stað í ræðu sinni segir hæstv. utanrrh. svo orðrétt, með leyfi forseta:

,,Grimmileg ofbeldisstefna Milosevics Júgóslavíuforseta gagnvart Albönum í Kosovo varð til þess að Atlantshafsbandalagið setti forsetanum skýra afarkosti ...``

Þetta finnst mér afskaplega óheppilegt orðalag, herra forseti. Ég bendi á að í Orðabók Sigfúsar Blöndals eru afarkostir útskýrðir sem mjög ósanngjarnir kostir eða ,,ugunstige vilkår`` og í íslensk-enskri orðabók er þetta orðalag útskýrt þannig að það beri að þýða sem ,,unfair terms``. Nú veit ég mætavel að það er ekki þessi skilningur sem vakir fyrir hæstv. utanrrh. en ég vil engu að síður vekja athygli á þessu afar óheppilega orðalagi og spyrjast fyrir um hvort hæstv. ráðherra eigi ekki við að Milosevic hafi verið sett afdráttarlaus skilyrði eða skýr skilyrði því að það væri ekki heppilegt, virðulegi forseti, ef sá skilningur kæmist upp að utanrríkisráðherra NATO-ríkis teldi að með skilyrðum sem Atlantshafsbandalagið setti Júgóslavíuforseta hafi menn verið að setja honum afarkosti í þessum skilningi orðsins eins og það er útskýrt í íslenskum orðabókum.