Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 11:27:42 (913)

1998-11-05 11:27:42# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[11:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um öryggisráðið og eins og það stendur nú þá er gert ráð fyrir því að Noregur verði í framboði fyrir hönd Norðurlandanna á næsta ári. Síðan er gert ráð fyrir að Danmörk komi næst að öllu óbreyttu og síðan Ísland. Það yrði þá ekki fyrr en 2008 og Ísland sæti þá í öryggisráðinu árin 2009--2010. Það er langt þangað til þetta verður en hins vegar gat ég þess að það eru umræður um breytingar á öryggisráðinu sem leiða væntanlega til fjölgunar ríkja sem eiga þar sæti og þá er ljóst að það gæti komið mun fyrr að Íslandi. Þegar hefur eitt ríki haft samband við okkur og sagst styðja heils hugar aðild Íslands að öryggisráðinu og það ríki er Þýskaland. Við erum þakklátir fyrir þann stuðning þó að það sé langt fram í tímann og ég er ekki í nokkrum vafa um það að Íslendingar muni eiga þess kost að komast þarna inn. Að því er varðar kostnaðinn höfum við ekki tekið hann saman. Við höfum hins vegar kynnt okkur það hvernig aðrar þjóðir hafa farið í þetta. Við teljum að þarna sé um allmikinn kostnað að ræða. Einnig er það staðreynd að framboð til öryggisráðsins er líka dýrt og það þarf að hafa allmikið fyrir því en við höfum ekki tekið saman endanlegan kostnað enda er nokkur tími til stefnu. En þó að tíminn sé allmikill þurfum við nú þegar að fara að huga að því að búa okkur undir þetta.