Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 11:31:37 (915)

1998-11-05 11:31:37# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[11:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Afstaða mín til Evrópusambandsins hefur alltaf legið skýr fyrir. Afstaða hæstv. utanrrh. hefur verið með öðrum hætti. Ég lagði hérna fram í ræðu, sem ég reyndi að hafa málefnalega, þróun sem ég þykist greina innan Evrópusambandsins. Ég tel að slík þróun geti leitt til þess að vægi Íslands minnki og ég leyfði mér í fullri vinsemd, hv. þm., að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann væri sammála mér um að þessi þróun væri í gangi, og ef svo væri, með hvaða hætti hann hygðist bregðast við til að tryggja hagsmuni Íslands.

Hvað varðar spurninguna um Vestur-Evrópusambandið þá er ekki tilefni til að varpa spurningunni fram vegna þess að Ísland getur ekki orðið fullgildur aðili að Vestur-Evrópusambandinu. Til þess að svo verði þarf Ísland áður að gerast hluti af Evrópusambandinu. Það er ekki á dagskrá.

Að því er varðar hins vegar það sem ég taldi að lægi í spurningunni hjá hv. þm., hvaða stefnu ég teldi að e.t.v. ætti að taka varðandi þessa öryggisþróun í Evrópu þá er ég alfarið þeirrar skoðunar að það eigi ekki að efla Vestur-Evrópusambandið í það að verða varnarstoð undir Evrópusambandinu, alls ekki. Og sú skoðun mín hefur margsinnis komið fram og liggur fyrir í fjölda ræðna sem ég hef haldið, m.a. sem fulltrúi þessa háa Alþingis og á þingum Vestur-Evrópusambandsins.