Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:06:54 (919)

1998-11-05 12:06:54# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að nægilegur tími mun ekki gefast til þess að fjalla um þessi yfirgripsmiklu mál. Að því er varðar samstarfið í norðurskautsráðinu er ýmislegt jákvætt að gerast. Bandaríkjamenn hafa forustu í samstarfinu í norðurskautsráðinu á næstunni sem ég tel skipta afar miklu máli. Það mun verða til þess að þeir sinni því betur en áður var og þeir hafa sýnt vaxandi áhuga á þessu samstarfi. Þeir hafa sent menn á fundi Barentsráðsins svo að eitthvað sé nefnt og Kanadamenn hafa líka sýnt því vaxandi áhuga. Utanrrh. hefur m.a. mætt á slíka fundi. Bandaríkjamenn hafa aukið mjög samstarfið varðandi Eystrasaltsríkin og telja að Norðurlöndin skipti mjög miklu máli í því samhengi. Það er ekki mjög langt síðan haldinn var fundur Eystrasaltsríkjanna, Norðurlandanna og Bandaríkjanna um þau mál. Þessi bönd hafa því verið að styrkjast og ég tel að orðið hafi mikil stefnubreyting í Bandaríkjunum að því er það varðar.

Ég er sammála hv. þm. Svavari Gestssyni um að við Íslendingar þurfum að sinna þessu máli mjög vel í formennskutíð okkar í Norðurlandaráði. Þarna er einstakt tækifæri til að auka samvinnu Norðurlandanna, ekki bara við Rússland heldur líka við Bandaríkin og Kanada. Norðurlöndin hafa einstakt tækifæri til að leiða þessa fornu fjendur, sem nú eru bandamenn og starfa saman, til að vinna góð verk í heimsmálum. Ég tel að þetta sé tækifæri sem Norðurlöndin í heild sinni megi alls ekki glata.