Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:25:00 (921)

1998-11-05 12:25:00# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því fyrir hvað hv. þm. stendur. Hann vill ekki vinna með Atlantshafsbandalaginu, mér heyrðist hann ekki vilja vinna með Evrópusambandinu, hann vill ekki frjálsan markaðsbúskap sem alls staðar er verið að taka upp í heiminum. Ég spyr því: Vill þingmaðurinn ganga til baka til sósíalisma og kommúnisma? Er það það sem þessi nýi flokkur hans stendur fyrir?

Gerir hv. þm. sér ekki grein fyrir því að frjáls markaðsbúskapur er það sem hefur skapað hvað mestan hagvöxt í heiminum? Og það er mikilvægt fyrir öll lönd að taka hann upp. Gerir hann sér ekki grein fyrir því að t.d. ríki Mið-Evrópu og Austur-Evrópu eru öll að taka upp frjálsan markaðsbúskap? Heldur hann að það muni bæta ástandið í Rússlandi að ganga til baka, svo dæmi sé tekið? Heldur hann að það muni laga þá neyð sem sum ríki eru í að hætta frjálsum markaðsbúskap?

En það segir líka í ræðunni, sem hv. þm. hafði ekki fyrir að lesa, að stjórnlaus markaðsbúskapur gangi heldur ekki upp. Auðvitað verður að hafa ákveðna stjórn á hlutunum. Og það er það sem menn eru að reyna að koma sér saman um í heimsviðskiptunum.

En sá útúrsnúningur sem hv. þm. er með í minn garð er alveg furðulegur. Hv. þm. væri nær að reyna að skýra það út hvers konar viðskipti hann vill stunda og við hverja hann vill versla í heiminum. Eða vill hv. þm. bara loka sig inni í klæðaskáp, sem mér heyrist vera aðalmarkmiðið í málflutningi hans?