Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:43:28 (929)

1998-11-05 12:43:28# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:43]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa ítarlegu ræðu. Umsvif utanríkisþjónustunnar eru mikil og það er vel að mínu mati. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að mikilvægi utanríkismála er mjög mikið og mörkin á milli utanríkismála og innanríkismála verða sífellt óljósari. Það er bæði vegna tæknilegrar þróunar eins og t.d. alnetsins þar sem fjöldi notenda mun tífaldast og fara í 1.000 millj. eftir nokkur ár. Hins vegar er löngu orðið ljóst að heimurinn er ein heild hvort sem litið er til umhverfismála, stjórnmála eða verslunar.

Því miður er þessari tækni og gæðum heimsins misskipt eins og kemur reyndar fram í ræðu hæstv. ráðherra og það hlýtur að vera öllum Íslendingum æ betur ljóst að við verðum að leggja meira af mörkum til þróunaraðstoðar. Þetta er nefnt yfirleitt á hverju einasta ári í ræðu hæstv. utanrrh. en mér finnst ganga allt of hægt að hækka framlög til þróunaraðstoðar.

Ég mun stikla á nokkrum atriðum sem ég vil vekja sérstaklega athygli á en í stórum dráttum geri ég ekki mjög miklar athugasemdir við þessa ræðu.

[12:45]

Það er mikið fagnaðarefni að það skuli koma í hlut Íslendinga að hafa formennsku í Evrópuráðinu á næsta ári á 50 ára afmæli þess. Ég tel Evrópuráðið vera mjög mikilvægan vettvang fyrir mannréttindi í Evrópu þó að ég hafi sjálf ekki haft möguleika á að kynnast því af eigin raun.

Ég vil og láta í ljós ánægju mína með starfsemi ÖSE sem ég hef haft betri möguleika á að fylgjast með. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er eini vettvangurinn sem öll ríki Evrópu eiga aðild að ásamt Bandaríkjunum og Kanada. Mér er það mjög mikið fagnaðarefni að komist skyldi hjá hernaðaraðgerðum NATO vegna Kosovo og að ÖSE standi þar vaktina með 2.000 manns til að fylgjast með samkomulaginu sem náðist á milli forseta Júgóslavíu og sérlegs sendimanns Bandaríkjastjórnar. Ég tel að þetta sýni að það beri að efla samskipti ÖSE og NATO og að þessi stofnun hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna.

Ég er mjög hlynnt því að Ísland sæki um aðild að Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þó að alls ekki sé ljóst af ræðu hæstv. utanrrh. hvenær af því geti orðið og hve miklar líkur séu á að aðildarríkjunum verði fjölgað. Mér finnst það ekki nógu skýrt þarna og vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær mun það skýrast og hvað er ráðgert að kostnaður við framboð og aðild að öryggisráðinu verði mikill, ef til kemur?

Í ræðu hæstv. ráðherra er komið inn á mikilvægi alþjóðlegs samstarfs vegna glæpastarfsemi og eiturlyfja. Þar er hins vegar fátt haldbært og ég sé ekki alveg við hvað er átt. Reyndar er vísað til mikilvægis þess að fylgja eftir aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í sumar um fíkniefnavandann. Það væri mjög fróðlegt að heyra nánar hvað átt er við í þessum efnum, í sambandi við alþjóðlega glæpa\-starfsemi og fíknivarnir. Um leið mætti fjalla um hvernig það tengist fyrirhuguðu samstarfi í tengslum við Schengen-samninginn. Fyrst Schengen er hér nefnt vil ég spyrja nánar um það mál. Er það skoðun hæstv. utanrrh. að takast muni að semja um Schengen eins og um sé að ræða venjulegan þjóðréttarsamning, þ.e. að þarna verði valdið ekki framselt til yfirþjóðlegra stofnana? Mér finnst það mjög óljóst og ekki nægilega skýrt tekið á því í ræðunni. Greint er frá því að samningsferlið sé í gangi en samanber umræðuna sem áðan átti sér stað milli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Sivjar Friðleifsdóttur er það auðvitað álitamál hvort aðildin að Schengen geti forðað okkur frá því að fara inn í Evrópusambandið eða hvort við séum komin inn með aðildinni. Mér finnst þetta alls ekki nógu skýrt. Ég hef verið tiltölulega opin fyrir Schengen og hlynnt því sambandi en ég er ekki opin fyrir aðild að Evrópusambandinu og vildi því gjarnan að þetta yrði rætt aðeins nánar.

Ég fagna því að utanrrh. fjallar um auðlinda- og umhverfismál í ræðu sinni þar sem þessi mál eru svo sannarlega málefni alþjóðasamfélagsins. Vissulega er rétt að sjónarmið okkar um sjálfbæra nýtingu eiga að heyrast á alþjóðavettvangi. Það er þó allt annað en að vera að blessa kvótakerfið á alþjóðavettvangi með tilheyrandi brottkasti, sóun og félagslegu misrétti sem því fylgir. Því væri fróðlegt að heyra nánar um orsakir ofnýtingar fiskstofna. Samkvæmt málflutningi hans mætti ætla að þær séu fyrst og fremst ríkisstyrkir en að mínu mati eru þar miklu flóknari ástæður og ein þeirra er einmitt kvótakerfið. Það er mjög mikil sóun í kvótakerfinu t.d. vegna brottkastsins. Það er alveg ástæðulaust að draga fjöður yfir það.

Þá kemur hæstv. ráðherra inn á ráðstefnuna sem nú stendur yfir í Buenos Aires. Hann segir að ekki verði skrifað undir Kyoto-bókunina nema heimild fáist fyrir Íslendinga til þess að menga meira, fá meiri kvóta til þess að blása út CO2 og öðrum lofttegundum. Þessu er ég algjörlega ósammála og allt að því skammast mín fyrir þessu stefnu ríkisstjórnarinnar frá sjónarmiði alþjóðasamfélagsins og ekki síst okkar Íslendinga.

Vegna ókunnugleika míns vil ég spyrja nánar um umfang samstarfsins við OECD. Tekið er fram að flest ráðuneyti, Þjóðhagsstofnun, Seðlabanki og Hagstofan eigi þarna samskipti. Ég vil spyrja hvort þessi samskipti séu skráð á einum stað, hvort skráð sé í hverju þau felast og hver kostnaðurinn er eða hvort eingöngu sé hægt að fá upplýsingarnar í gegnum einstök ráðuneyti.

Ég vil þá, herra forseti, fagna því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita Rússum neyðaraðstoð upp á 14 milljónir og að Rauði krossinn hefur einnig komið þar til. Ég vil þó spyrja nánar um þessar 14 milljónir: Í hverju þær eru fólgnar, er um peningaaðstoð eða annað að ræða?

Hvað NATO varðar vil ég sérstaklega taka fram að ég átta mig alls ekki á athugasemd ráðherra í ræðunni vegna fyrirhugaðs samstarfs A-flokkanna og Kvennalistans. Samkvæmt málefnaskrá samfylkingarinnar er ekki gert ráð fyrir því að gengið verði úr NATO, að nokkur breyting verði á stefnunni gagnvart NATO. Ég skil þess vegna ekki þessar dylgjur í ræðunni.

Mér finnst það fagnaðarefni að Bandaríkjamenn skuli hafa lækkað útgjöld sín til varnarmála um 40% á tæpum áratug. Það er vonandi merki um friðsælli veröld, að gildismat þessa hernaðarveldis sé eitthvað að breytast og það sjái betri not fyrir fjármuni almennings. Jafnframt því var fróðlegt að sjá á prenti að hér á landi hafi verið framkvæmt fyrir 40 milljónir bandaríkjadala árlega sl. sex ár. Þetta er mjög há tala, 40 milljónir bandaríkjadala á ári. Þótt nú sé aðallega talað um hagræðingu, þ.e. að yfirvofandi sé að Bandaríkin dragi saman seglin, þá má öllum vera ljóst að frekari samdráttur á framlögum Bandaríkjahers hlýtur að koma við atvinnulíf á Suðurnesjum. Því vil ég spyrja hvort ríkisstjórnin hafi ráðgert að horfast í augu við frekari samdrátt í þessum efnum eða hvort hæstv. utanrrh. telji að ekki verði frekari samdráttur.

Herra forseti. Að lokum lýsi ég ánægju minni með mikla grósku í utanríkissamskiptum okkar. Ég tel að taka beri alvarlega ábendingar um að rétt væri að stofna ný sendiráð í Ottawa og Tókíó, eins og lagt hefur verið til í nefnd um framtíð utanríkisþjónustunnar. Í stórum dráttum er þessi ræða þó fyrst og fremst ítarleg umfjöllun um óbreytta meginstefnu og starfsemi einstakra stofnana. Hún er fróðleg en bendir ekki til stefnubreytingar hjá þessari ríkisstjórn. Algjörlega er forðast að ræða um Evrópusambandið og um það hvort aðildin að Schengen gengur upp miðað við óbreytt tengsl við Evrópusambandið. Málið er því, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, nokkuð í lausu lofti og þyrfti að ræða nánar. Hvers vegna er þetta svona óljóst? Er það vegna ágreinings innan stjórnarflokkanna og hvenær má búast við því að Schengen verði klárað? Ég ítreka þá spurningu.

Í framhaldi af því er rétt að spyrja: Á að fara í fyrirhugaðar breytingar á flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli? Þær eru að verulegu leyti hannaðar með tilliti til Schengen-aðildar. Á að fara út í þær framkvæmdir áður en hitt málið kemst á hreint?

Í grófum dráttum er ég sátt við ríkjandi utanríkisstefnu og tel mikilvægt að fylgjast mjög vel með í utanríkismálum okkar. Mér finnst mikill bjartsýnistónn í þessari ræðu, og einnig hjá forsrh. við setningu Alþingis, varðandi kreppuna í Asíu. Ég vona svo sannarlega að áhrifin verði ekki meiri en hér er búist við. Sjálf er ég þó hrædd um að svo verði.

Að lokum langar mig að spyrja hvort ríkisstjórnin hefur í hyggju að bregðast við vegna náttúruhamfaranna í Mið-Ameríku, í Hondúras og víðar. Við Íslendingar erum aflögufærir á ýmsum sviðum og getum ekki horft upp á svona hörmungar án þess að bregðast við. Við höfum hlotið stuðning frá alþjóðasamfélaginu þegar á hefur bjátað og ég tel að við verðum að standa okkur betur á sviði þróunaraðstoðar og neyðaraðstoðar af því tagi sem nú er þörf fyrir í Hondúras.