Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 13:01:47 (932)

1998-11-05 13:01:47# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[13:01]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get því miður ekki svarað öllum spurningum í stuttum andsvörum en mun koma að því síðar. En samningaviðræðurnar í Buenos Aires skipta okkur afar miklu máli. Niðurstaðan í þessu máli getur skipt sköpum fyrir framtíðarhagsmuni Íslendinga. Ég heyri það að þessi nýja samfylking vill semja þannig á alþjóðavettvangi í þessum efnum að það útiloki jafnvel frekari hagvöxt hér á næstu árum. Það er afstaða út af fyrir sig. En þá er mjög undarlegt að leggja fram áætlanir um að setja fjármagn í hina og þessa málaflokka, t.d. á sviði velferðarmála, og ætla að auka kaupmátt o.s.frv. Það stenst engan veginn. Hér er um mjög stórt mál að ræða og við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir þá stöðu sem við Íslendingar erum í. Við vorum búnir að leggja afar mikið af mörkum. Og það sem við erum að fara fram á skiptir máli fyrir mengunina í heiminum. Það skiptir máli að geta nýtt hreinar og endurnýjanlegar orkulindir. En ég heyri að hv. þm. finnst allt í lagi að aðrar þjóðir geti haldið áfram að menga mörgum sinnum meira. Við erum að leita eftir einhverju jafnvægi í þessu og halda þar á hagsmunum Íslands. Því miður næ ég því ekki hvernig stjórnarandstaðan talar um þessi mál. Ég tel að stjórnarandstaðan sé að tala gegn hagsmunum Íslands og sé ekki aldeilis að hjálpa til við að ná ásættanlegri niðurstöðu í þessi mál sem ég tel mjög alvarlegt. Því hvet ég þessa nýju samfylkingu til að kynna sér þessi mál almennilega sem ég held að hún hafi alls ekki gert.