Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 13:31:43 (934)

1998-11-05 13:31:43# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SP
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[13:31]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu hans og ræðu um utanríkismál. Allítarleg skýrsla hæstv. ráðherra sýnir sífellt vaxandi umfang þessa mikilvæga málaflokks á tímum byltingarkenndra framfara í samskiptatækni og mótunar nýs skipulags í öryggismálum álfunnar.

Á þeim stutta tíma sem við höfum hér langar mig sem formaður Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins að koma aðeins inn á umræðuna um þróun Atlantshafsbandalagsins nú þegar 50 ára afmæli bandalagsins og söguleg stækkun þess til austurs nálgast.

Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í apríl á næsta ári verður þess minnst að 50 ár verða liðin frá undirritun Norður-Atlantshafssamningsins. Óhætt er að segja að árangurinn af starfi bandalagsins hafi verið glæsilegur, enda sækist fjöldi ríkja eftir aðild að því. Við sama tækifæri veitist leiðtogum bandalagsins einmitt sú ánægja að bjóða þrjú ný ríki velkomin. En leiðtogafundarins bíða fleiri verkefni en afmælisfagnaður og fjölgun aðildarríkja. Endurskoðun á öryggismálastefnu bandalagsins stendur nú yfir og er ætlunin að henni ljúki fyrir leiðtogafundinn.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. kemur fram sú skoðun íslenskra stjórnvalda að styrkur bandalagsins felist fyrst og fremst í sameiginlegum varnarskuldbindingum og Atlantshafstengslunum og er það vel. Á sama tíma liggur fyrir að kröfur samfélags þjóðanna til bandalagsins fara sífellt vaxandi.

Atlantshafsbandalagið hefur sem fyrr reynst eina fjölþjóðlega stofnunin sem stillt getur til friðar þar sem átök hafa brotist út á Balkanskaga. Aðrar stofnanir, einkum ÖSE og Evrópuráðið, hafa haft fyrirbyggjandi aðgerð og aðstoð við uppbyggingu á sinni könnu. Atlantshafsbandalagið hefur átt mjög gott samstarf við ÖSE á Balkanskaga þar sem ÖSE hefur m.a. haft umsjón með kosningaeftirliti. ÖSE fer nú með eftirlit með framkvæmd samkomulags sérlegs erindreka Bandaríkjastjórnar og forseta Júgóslavíu um brottflutning hers og öryggissveita Serba frá Kosovo. Ástæða er til að fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka þátt í þessu eftirliti. Þarna er á ferðinni æskilegt samstarf stofnana þar sem samfélag þjóðanna færir sér í nyt þá sérþekkingu sem er til staðar innan hverrar stofnunar. Grimmdarverk serbnesku öryggissveitanna urðu hins vegar ekki stöðvuð án trúverðugrar hótunar um beitingu hervalds af hálfu Atlantshafsbandalagsins.

Við endurskoðun öryggismálastefnu Atlantshafsbandalagsins er sem fyrr segir nauðsynlegt að ítreka grundvallarmikilvægi sameiginlegra varna og Atlantshafstengslanna. Jafnframt er hins vegar nauðsynlegt að bandalagið efli getu sína til þátttöku í friðargæslu og friðarframkvæmd líkt og segir í skýrslu hæstv. ráðherra. Ekki er þó síst mikilvægt að bandalagið móti sér stefnu um aðgerðir utan eigin landsvæðis.

Samstaða ríkti um það meðal flestra þjóða í Evrópu að þær gætu ekki horft aðgerðarlausar upp á grimmdarverk á borð við þau sem nýlega voru framin í Kosovo. Hins vegar eru ýmis nýleg dæmi um enn meiri hörmungar í öðrum heimshlutum sem Vesturlönd höfðu lítil bein afskipti af, t.d. í Rúanda og í Afganistan.

Þegar stækkun Atlantshafsbandalagsins var til umræðu fyrr á þessu ári í öldungadeild bandaríska þingsins urðu þar sumir til að halda því fram að bandalagið ætti ekki einungis að standa vörð um landsvæði heldur jafnframt um hagsmuni og gildi Vesturlanda. Aðrir urðu til að vara við svo ónákvæmum skilgreiningum á hlutverki bandalagsins. Að mínu mati er hér á ferðinni varhugaverð þróun, þ.e. kröfur jafnt innan bandalagsins sem utan um aukið hlutverk þess utan eigin landsvæðis. Í því sambandi tel ég mikilvægt að bandalagið geti áfram þegar vilji er fyrir hendi tekið að sér verkefni utan svæðis með umboði Sameinuðu þjóðanna eða ÖSE, en jafnframt að það færist ekki of mikið í fang með lítt ígrunduðum skuldbindingum út á við. Sameiginlegar varnir og öflug tengsl yfir Atlantshafið eru og verða megintilgangur og grundvöllurinn að velgengni bandalagsins. Standa ber vörð um þann einstaka árangur sem náðst hefur á þeim grundvelli.

Virðulegi forseti. Draugar fortíðarinnar, sagði Morgunblaðið í leiðara sínum þann 18. september sl. í umfjöllun um málefnaskrá samfylkingarinnar. Í umræddri málefnaskrá er lagt til að teknar verði upp viðræður við Bandaríkjastjórn um varnarsamninginn og raunar var því upphaflega haldið fram að sá samningur væri um það bil að renna út eins og frægt er orðið. Um er að ræða undarlegt en jafnframt forneskjulegt bergmál af málflutningi stuðningsmanna Sovétríkjanna sálugu á dögum kalda stríðsins. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í ræðu sinni áðan að ágreiningur hefði verið um utanríkismál í öðrum flokkum en Alþb. og það er vitanlega rétt en það er bara svo langt síðan. Það er ekki fyrr en núna í haust sem þessi ágreiningur kristallast aftur í íslensku samfélagi og ég tel þessa umræðu afar óheppilega svo ekki sé sterkar tekið til orða, en svo mikið er víst að hún mun skerpa hin pólitísku skil í alþingiskosningunum sem fara fram í vor.

Það ríkir líka ótrúlegt skilningsleysi á hlutverki Atlantshafsbandalagsins hjá þeim stjórnmálamönnum sem hér hafa tjáð sig um það. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur auðvitað haft þá skoðun eins og menn þekkja að hann vilji Ísland úr NATO og hann hefur undirstrikað þá skoðun sína hér. En hvað vill þessi svokallaða samfylking sem er kosningabandalag Alþfl., Alþb., Þjóðvaka og Kvennalista? Með leyfi virðulegs forseta langar mig til þess að rifja upp ummæli úr Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins frá 20. september sl. en þar segir:

,,Eftir lok kalda stríðsins og fall Varsjárbandalagsins hefur Atlantshafsbandalagið verið að breytast í eins konar öryggiskerfi allra Evrópuríkja. Nánast öll ríki í Evrópu leita nú inngöngu í Atlantshafsbandalagið utan Rússland. En jafnframt er samstarf bandalagsins og Rússlands orðið ótrúlega náið. Í Brussel starfar nú stór hópur rússneskra embættismanna og varla er hægt að ganga um ganga í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins án þess að heyra rússnesku talaða. Það er eins og forustumenn kosningabandalagsins geri sér enga grein fyrir þessari grundvallarbreytingu á hlutverki og stöðu Atlantshafsbandalagsins. Til þess er nú horft til að leysa alvarleg vandamál, sem upp koma í einstökum ríkjum Evrópu eða þeirra í milli eins og t.d. í fyrrum lýðveldum Júgóslavíu. Það á að vísu eftir að koma í ljós, hvernig Atlantshafsbandalaginu gengur að rækja þetta nýja hlutverk en það er gersamlega út í hött að tala um það eins og gert er í málefnaskrá vinstra bandalagsins að ,,framtíðarmarkmiðið hlýtur samt að vera að Ísland geti staðið utan hernaðarbandalaga``.``

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur ekki séð sér fært að taka þátt í samfylkingu á vinstri væng og hefur ásamt fleirum viljað staðsetja sig vinstra megin við sameiginlegt vinstra framboð. Það kemur því kannski ekki á óvart að hann skuli vilja binda enda á veru bandaríska varnarliðsins í Keflavík. En athyglisvert er að sameiginlegt vinstra framboð annars vegar og væntanlegt framboð vinstra megin við það hins vegar virðast a.m.k. eiga það sameiginlegt að vilja varnarliðið burt.

Það er nauðsynlegt, virðulegi forseti, að undirstrika þetta atriði líka með tilliti til þeirra þingmála sem eru á dagskrá þingsins hér í dag. Þannig er rétt að ítreka að líkt og fram kom í umræðunni um skýrslu hæstv. utanrrh. þá er í vaxandi mæli horft til NATO til tryggingar friðar og stöðugleika í Evrópu og jafnvel þótt víðar væri leitað. Þá hafa Bandaríkin t.d. haft um það forustu að reyna að hefta útbreiðslu gereyðingarvopna m.a. með því að hóta hernaðaraðgerðum gegn Írak brjóti þarlend stjórnvöld gegn ákvæðum ályktana Sameinuðu þjóðanna um vopnaeftirlit. Til þess hafa m.a. borist óskir um afnot af Keflavíkurflugvelli vegna liðs-, gagna- og birgðaflutninga yfir Atlantshafið.

Áframhaldandi vera varnarliðsins í Keflavík er hluti af þessu nýja öryggiskerfi sem við nú búum við. Þegar hefur verulega verið dregið úr viðbúnaði varnarliðsins í Keflavík frá því sem mest var, enda ekki jafnskýr öryggisógn sem vofir yfir. En skjótt skipast veður í lofti og því eðlilegt að lágmarksvörnum sé viðhaldið til að tryggja öryggi lands og þjóðar.

Að sama skapi er eðlilegt að varnarbandalag vestrænna lýðræðisríkja sem í vaxandi mæli er að taka á sig mynd öryggisbandalags fyrir álfuna alla hafi hér aðstöðu sem m.a. má nýta við flutninga yfir Atlantshafið.

Vera má að sá tími eigi eftir að koma þar sem varnir og varnarbandalög verði óþörf og auðvitað vonum við öll að svo verði. En veruleikinn er annar. Óstöðugleika er víða að finna jafnt innan ríkja sem í samskiptum þeirra á milli. Þar við bætist að útbreiðsla gereyðingarvopna er verulegt áhyggjuefni sem enn fremur gefur tilefni til áframhaldandi samstarfs í öryggis- og varnarmálum.

Hið sama má segja um hryðjuverkastarfsemi. Samstarf um viðbrögð vegna náttúruhamfara lofar góðu og þannig mætti lengi telja. Brottför bandaríska varnarliðsins frá Íslandi er því engan veginn tímabær, hvorki nú né í fyrirsjáanlegri framtíð.

Virðulegi forseti. Ég nefndi í upphafi að ég væri formaður hinnar íslensku sendinefndar hjá Norður-Atlantshafsþinginu og vildi fá að koma að starfsemi þess. Það er athyglisvert að taka eftir því að Alþb. og Samtök um kvennalista hafa aldrei óskað eftir að eiga fulltrúa í Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins. Íslandsdeildin hefur hingað til verið skipuð þingmönnum Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl.

Með tilliti til þeirra breytinga sem nú eiga sér stað á vinstri væng stjórnmálanna má þó kannski eiga von á því að breyting verði á aðild þessara flokka að þessu starfi. Það verður fróðlegt að fylgjast með því. Kommúnistaflokkar ýmissa landa hafa í gegnum tíðina átt aðild að Norður-Atlantshafsþinginu. Má þar nefna ítalska, gríska, franska og portúgalska kommúnistaflokka. Fulltrúar þeirra hafa jafnvel beinlínis verið yfirlýstir andstæðingar Atlantshafsbandalagsins en hafa samt kosið að taka þátt í starfi þess til að fræðast um öryggis- og varnarmál, og til að geta haft áhrif á störf þingsins, kynna sínar skoðanir á sviði öryggis- og varnarmála o.s.frv. Þá má einnig benda á að í þýsku sendinefndinni er að finna þingmenn frá PDS eða fyrrum kommúnistaflokki Austur-Þýskalands. Norður-Atlantshafsþingið hefur þannig ávallt staðið öllum þingmönnum aðildarríkjanna opið og látið þjóðþingin að sjálfsögðu um að skipa sínar sendinefndir á þingið hvort sem um væri að ræða íhaldsmenn, frjálslynda jafnaðarmenn, kommúnista, fasista eða einhverja aðra.

Aðild að Norður-Atlantshafsþinginu eiga þjóðþing hinna 16 núverandi aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins auk þess sem þjóðþing 16 ríkja Mið- og Austur-Evrópu sem hafa hlotið aukaaðild að þinginu, þar á meðal rússneska þingið. Auk stjórnarnefndar sem skipuð er formönnum landsdeilda, forseta og varaforsetum, fer starf Norður-Atlantshafsþingsins í megindráttum fram í fimm málefnanefndum. Þess má geta sérstaklega að í stjórnarnefndinni hefur Ísland eitt atkvæði af sextán og getur því haft talsverð áhrif. Meginhlutverk þingsins hefur ávallt verið að sjá þingmönnum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og í seinni tíð jafnframt 16 Mið- og Austur-Evrópuríkjum fyrir vettvangi þar sem þau geta fræðst um öryggis- og varnarmál og borið saman bækur sínar um ýmis málefni í samskiptum ríkjanna. Helstu umfjöllunarefni síðustu ára hafa verið hið nýja hlutverk Atlantshafsbandalagsins, stækkun bandalagsins, stöðugleiki og friður á nágrannasvæðum, samskipti Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku á sviðum stjórnmála og efnahagsmála, mannréttindamál og margt fleira. Með hinu nýja hlutverki bandalagsins er vísað til þess að Atlantshafsbandalagið er sá aðili í evrópskum öryggismálum sem nær ávallt er horft til hvað varðar tryggingu friðar og stöðugleika í álfunni. Fjöldi Mið- og Austur-Evrópuríkja sækist nú eftir aðild að bandalaginu og önnur ríki leita til bandalagsins til að stilla til friðar og standa vörð um hann.

[13:45]

Virðulegi forseti. Stundum hefur verið bent á að vegna smæðar þjóðarinnar eigi hún að vera hlutlaus í alþjóðamálum. En spyrja má: Til hvers er sjálfstæði og erum við raunverulega sjálfstæð ef við, vegna smæðar okkar, þorum ekki að fylgja sannfæringu okkar, vera vinir vina okkar og standa vörð um sameiginlega hagsmuni með skoðanabræðrum okkar?

Með hliðsjón af þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað og þeim breytingum sem nú eiga sér stað á vinstri væng stjórnmálanna vil ég undirstrika þá skoðun mína að vera okkar í NATO hefur verið og mun verða hornsteinn íslenskrar utanríkisstefnu.