Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:08:02 (939)

1998-11-05 14:08:02# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), LMR
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:08]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir yfirgripsmikla og fróðlega ræðu sem ég tel að hafi endurspeglað gjörla hve mikilvægt er að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Og framlag okkar til alþjóðlegs samstarfs tel ég hafa skilað sér margfaldlega.

Ég vil því segja örfa orð um það sem ég tel vera mikilvæg áhersluatriði, ekki síst um mikilvægi þessa málaflokks, en byrja kannski á því að eins og kom fram hér í morgun þá minnumst við ýmissa tímamóta í friðar- og mannréttindaferli í heiminum. Það kom fram í ræðu utanrrh. í morgun að á næsta ári verða 50 ár liðin frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt, 50 ár verða frá stofnun NATO og 50 ár verða frá stofnun Evrópuráðsins. Á þessum tímum metum við árangur af alþjóðlegu samstarfi. Við höfum einnig upplifað hraðari breytingar á undanförnum árum en okkur hafði órað fyrir. Því er okkur nauðsynlegt að fylgjast vel með og búa okkur undir aðlögun að því framtíðarumhverfi sem næstu kynslóðir eiga að taka við.

Nýir tímar krefjast breyttrar áherslu. Staða okkar í utanríkismálum miðast ekki eingöngu við þrengstu hagsmuni okkar, eins og við oft viljum leggja áherslu á, heldur verðum við að tryggja framtíðarhagsmuni okkar og tengjast hvers kyns starfi á sviði öryggis-, friðar- og mannréttindamála, neyðaraðstoðar, flóttamannahjálpar, baráttu gegn hungursneyð, glæpastarfsemi og eiturlyfjasölu, og ekki síst auðlinda og umhverfismála, eins og við höfum svo glögglega fundið á hinu háa Alþingi á undanförnum árum.

Segja má að allir þessi þættir hafi meiri eða minni áhrif á daglegt líf okkar. Íslendingar eru ekki aðeins virkir heldur hafa tækifæri til mikilla áhrifa á þróun mála í dag. Við erum smá en við höfum bæði reynslu og við höfum tækifærin. Stefna á setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna verður tímamótatækifæri fyrir okkur. Við höfum sýnt ábyrgð með þátttöku okkar í þeim verkefnum sem við höfum tekið að okkur fyrir Sameinuðu þjóðirnar eða á vegum Sameinuðu þjóðanna og við erum virt fyrir framlög okkar, ekki eingöngu í friðargæslu og uppbyggingu í Bosníu, eins og tíðkast nú að ræða mest um og nú á næstunni í Kosovo, heldur einnig á öðrum sviðum. Skemmst er að minnast smærri verkefna okkar eins og t.d. hins nýja sjávarútvegsskóla og jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hérna.

Eindreginn stuðningur Norðurlandaþjóðanna til þessa framboðs okkar gefur okkur sterka stöðu og í ljósi þátttöku okkar innan Sameinuðu þjóðanna á undanförnum áratugum tel ég okkur þess fullbúin að takast á við þá ábyrgð sem setu í öryggisráðinu fylgir.

Með aukaaðild okkar að Vestur-Evrópusambandinu, VES, höfum við haldið á lofti mikilvægi þess að VES tryggi umræðu friðar- og öryggismála meðal allra Evrópuþjóða en einskorðist ekki við ríki Evrópusambandsins. Leggja verður áherslu á að Evrópa geti sjálfstætt tekist á við þær hörmungar í álfunni sem við höfum horft upp á á undanförnum árum, og að styrkja VES.

Við höfum hins vegar notið góðs af samstarfi við Norður-Ameríku innan NATO og við megum ekki veikja það samstarf samhliða eflingu Evrópuþjóða til að takast á við eigin vandamál. Ég vil í þessu sambandi fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka þátt í eftirliti á vegum ÖSE með framkvæmd Serba á samningi sérlegs erindreka Bandaríkjaforseta um Kosovo.

Ég hef á undanförnum árum átt þess kost að taka þátt í samstarfi Vestur-Evrópusambandsins og ég tel að mikilvægi þess að þau ríki sem þegar taka þátt í því starfi sem þar fer fram, hvort sem er með fullri aðild, aukaaðild eða lausari aðild að sambandinu, gefi okkur þann samstarfsanda sem við þurfum á Evrópuvettvangi og minnki þá spennu sem hugsanlega gæti hafa orðið með því að útiloka ný ríki, nýfrjáls ríki, Austur-Evrópuríki almennt og jafnvel önnur ríki sem okkur tengjast svo sem Tyrkland, frá umræðu um friðar- og öryggismál á þessu svæði.

Ég vil einnig leyfa mér nú í dag að ávarpa utanrrh. og óska honum allra heilla í tilefni af varaformennsku í Evrópuráðinu sem hann tók við í gær og síðar formennsku sem hann mun gegna frá maímánuði nk. Ég hef tekið þátt í starfi Evrópuráðsins á undanförnum árum og fylgst vel með hversu mikil áhrif Evrópuráðið hefur haft á mannréttindaþróun í Evrópu, ekki síst á undanförnum árum með þátttöku nýfrjálsra ríkja. Segja má að Evrópuráðið hafi verið hliðið sem þessi ríki hafa gengið í gegnum til að taka þátt í því samstarfi sem önnur Evrópuríki hafa átt á undanförnum áratugum meðan mikið bil var á milli Austur- og Vestur-Evrópu. Ég fagna því líka hversu vel hefur tekist til í því samstarfi sem ég tel að hvorki hafi verið lögð nægilega mikil áhersla á hérlendis né erlendis, þ.e. á mikilvægi þess starfs sem Evrópuráðið hefur haft og hlutverk Evrópuráðsins í þessu sambandi.

Því tel ég að formennska í Evrópuráðinu sé stórviðburður. Aðildarríkin eru 40 og mig minnir að um 700 milljónir manna tengist þessu ráði. Það er ekki lítið. Þess vegna er þetta einstakt tækifæri fyrir okkur til að komast í lykilstöðu, fyrst um sex mánaða skeið í varaformennsku og aðra sex mánuði í formennsku. Það er ljóst að langur tími líður þangað til við fáum annað tækifæri.

[14:15]

Einstök ríki hafa reynt að nýta sér formennskutímann til að koma hagsmunum sínum og hugmyndum á framfæri og vinna þeim brautargengi. Þannig lögðu finnsk stjórnvöld fram tillögu um embætti umboðsmanns Evrópu í formennskutíð sinni. Eins stóð ríkisstjórn Frakklands fyrir leiðtogafundi Evrópuráðsins á sl. ári og Frakkland var því í forustu fyrir að marka Evrópuráðinu stefnu á nýrri öld.

Ísland hefur einnig haldið hagsmunum sínum á lofti á þessum vettvangi sem annars staðar og höfum við haft áhrif á umræðu, ekki síst í umhverfis- og sjávarútvegsmálum, enn fremur í almennum umræðum um öryggis- og friðarmál í Evrópu. Ég tel að þau trúnaðarstörf sem okkur hafa verið falin hafi gefið okkur aukna möguleika til að tala máli okkar.

Þátttaka okkar innan EES hefur verið afar virk undanfarið og formennska okkar innan EFTA á þessu ári hefur skilað okkur áhrifum sem okkur eru nauðsynleg. Ég vil minna á gott dæmi sem nefnt var hér í morgun um samræmdar reglur um eftirlit með innflutningi sjávarafurða innan EES. Það að eftirlit með innflutningi sjávarafurða á EES-svæðinu sé í höndum Íslendinga hlýtur að auðvelda okkur leiðir inn á evrópska markaði og styrkja stöðu okkar.

Stækkun Evrópusambandsins mun hafa mikil áhrif á atvinnulíf og aðstöðu Íslands, enda verða ný lönd um leið aðilar að samningi okkar um Evrópska efnahagssvæðið. Á næstu sjö árum, til ársins 2006, verður unnið að því að fjölga ríkjum innan Evrópusambandsins um sex ríki. Þarna munu okkur opnast nýir markaðir og ný tækifæri. En samhliða þessu verðum við að standa vörð um þann góða markaðsaðgang með sjávarafurðir sem við nú njótum við umrædd ríki á grundvelli fríverslunarsamninga á vegum EFTA.

Með samstarfi okkar við ESB fáum við einnig tækifæri til að tengjast samningum við markaði utan Evrópu, svo sem í löndum sunnan Miðjarðarhafsins, Suðaustur-Asíu og annars staðar. Ég tel augljóst að ESB muni taka breytingum með útvíkkun og áherslum innan þess og tel þess vegna afar mikilvægt að fylgjast með þeirri þróun sem fram undan er, bæði á viðskiptalegu sviði og pólitísku, því augljóst er að Evrópusambandið mun verða fjármálalegur risi í heiminum í framtíðinni. Sem fjármálalegur risi verður sambandið að sjálfsögðu einnig stórpólitískur risi sem okkur er nauðsynlegt að tengjast --- hvort sem væri við núverandi ríki eða framtíðarríki --- og fylgjast vel með.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra. Ég sagði í upphafi að framlag okkar í alþjóðlegu samstarfi skilaði sér margfaldlega. Þátttaka okkar á flestum sviðum er ekki eingöngu siðferðileg ábyrgð heldur skilar hún sér margfaldlega í þjóðarbúið með nýjum störfum og viðskiptamöguleikum. Nærvera okkar með fastafulltrúum í fjölþjóðastofnunum hefur verið bætt og aukin. Að sjálfsögðu má ætíð ræða um mismunandi forgangsröðun á slíkum ráðstöfunum og fjármagni til slíkrar starfsemi. Reynsla mín af stofnun fastanefndar í Evrópuráðinu er dæmi um vel heppnaða ráðstöfun að mínu mati, sem svarar kröfum tímans. Rödd okkar heyrist vel á þeim vettvangi og við fáum tækifæri til að hafa gríðarleg áhrif þar. Og ég er fullviss um að slík störf sem við tökum að okkur þar muni skila nýrri kynslóð nýjum tækifærum í framtíðinni.