Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:19:51 (940)

1998-11-05 14:19:51# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur fyrir það sem hún sagði um Evrópuráðið. Ég vil jafnframt þakka þingmannanefndinni fyrir mjög góð störf í Evrópuráðinu. Ég tel að framlag Íslendinga í Evrópuráðinu á undanförnum árum hafi skipt mjög miklu máli og hafi m.a. orðið til þess að við getum hugsað okkur að taka við formennsku í Evrópuráðinu. En það er alveg rétt sem hv. þm. sagði að því fylgja miklar skyldur. Því fylgir viðurkenning á að Íslendingar séu tilbúnir að taka þátt og hafa forustu um lausn ýmissa alþjóðlegra vandamála og það er mikil ábyrgð sem við erum að takast á hendur í þessum efnum. Við getum reiknað með því að koma að málum í Kosovo, í Bosníu, í Nagornó-Karabakh, sem tilheyrir nú Aserbaídsjan en Armenía hefur gert kröfu um.

Það eru ýmis slík vandamál sem uppi eru hjá Evrópuráðinu sem við getum reiknað með að koma að. Þetta krefst þess að við leggjum okkur fram, þetta krefst mannafla, en það sýnir jafnframt að við erum tilbúin til að vinna með alþjóðasamfélaginu að framgangi mannréttinda, að framgangi friðar og við berum ekki síður ábyrgð þar en aðrar þjóðir.

Ég er alveg sammála hv. þm. að hér er um mjög stóran atburð að ræða. Hann er e.t.v. ekki jafnstór nú og þegar við tökum við formennsku. Það vill svo óheppilega til að við tökum við formennskunni á kosningadegi, sem er nú ekki mjög heppilegt. En því miður verður ekki við það ráðið, en það er hinn 7. eða 8. maí sem Ísland tekur við formennsku í ráðinu sem kemur í veg fyrir að ráðherra geti verið viðstaddur þann mikilvæga atburð.