Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:37:46 (942)

1998-11-05 14:37:46# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek mjög undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. um samband milli umhverfisverndar og nýtingarstefnu og mér finnst gæta nokkurs misskilnings í orðum þingmanna, sérstaklega hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem varar við því að hafa uppi þann málflutning sem við höfum haft á alþjóðavettvangi.

Ég held að það sé alveg ljóst að við Íslendingar og þeir sem mæla fyrir þessum orðum, bæði ég sem stend hér og hv. þm. Tómas Ingi Olrich, erum ekki á móti umhverfisvernd. En við viljum leggja áherslu á að við Íslendingar erum nýtingarþjóð. Við viljum nýta auðlindir okkar skynsamlega. Við viljum ekki friða fiskstofnana og það er mjög hætt við því að ef við höldum ekki uppi þessum málflutningi muni áhrif þeirra sem vilja friða, hætta öllum veiðum, ná undirtökum. Ég bendi m.a. á nýlegt rit sem heitir Hafið --- framtíð okkar, sem kom út fyrir tiltölulega stuttu þar sem þessi sjónarmið fá nokkurt fylgi. Ef við Íslendingar tökum ekki þátt í umræðunni og höldum því á lofti að við verðum að geta nýtt auðlindir okkar skynsamlega þá getur komið að því að við verðum að draga mjög úr fiskveiðum okkar og annarri nýtingu náttúruauðlinda. Þetta er einu sinni grundvöllur lífs í þessu landi þannig að ég bið menn um að misskilja ekki það sem við erum að segja heldur að taka það gilt í ljósi þess að við viljum halda áfram að nýta sjávarauðlindir okkar skynsamlega.