Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:40:05 (943)

1998-11-05 14:40:05# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:40]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég batt við það ákveðnar vonir þegar kjörinn var nýr formaður utanrmn., hv. þm. Tómas Ingi Olrich, að þar færi forustumaður í öðrum stjórnarflokknum sem vildi ganga málefnalega um dyr og ræða utanríkismál með víðsýni og staðreyndir að leiðarljósi. Þess vegna olli dómadagsræða hans í ræðustólnum mér miklum vonbrigðum og árásir hans á Alþfl. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst hv. þm. færast mikið í fang þegar hann úr þessum ræðustóli vænir Alþfl. fyrr og nú um einhvers konar tepruskap eða óljósa stefnu í utanríkismálum. Sá flokkur sem hefur öllum öðrum flokkum framar á hinu háa Alþingi og á lýðveldistímanum farið fyrir ríkisstjórnum og íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að því að marka og móta stefnu í utanríkismálum hinnar ungu íslensku þjóðar og það er ekki eingöngu í öryggismálum sem það á við. Það er í viðskiptamálum. Það er almennt í samskiptum við samfélag þjóðanna á sama tíma og núverandi stjórnarflokkar hafa oft og einatt hikað, tvístigið og jafnvel lagst í andóf gegn framfaramálum sem allir vilja kannast við og vera með í nú á tímum.

Virðulegi forseti. Á ég að nefna nýlegt dæmi sem öllum er ofarlega í huga og hæstv. utanrrh. alveg sérstaklega? EES-samningurinn þar sem flokkur hans gekk þverklofinn til leiks. Á ég að kalla Sjálfstfl. til vitnis um það mál hvernig hann lét í stjórnarandstöðu í lok síðasta áratugar, sló úr og í? Það er engin tilviljun að þessi flokkur ber nafnið Sjálfstfl. Hann hefur nefnilega verið tvístígandi og verið einangrunarflokkur í tíma og ótíma þannig að mér finnst hv. þm. Tómas Ingi Olrich, formaður utanrmn., færast mikið í fang að ætla að leggjast í þessa umræðu og samjöfnuð milli flokka og ég er til í þann samjöfnuð.