Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:42:38 (944)

1998-11-05 14:42:38# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson lýsti Alþfl. fyrr og nú sem forustuafli í utanríkismálum. Það er að nokkru leyti hægt að taka undir það með hv. þm. að fyrrum var Alþfl. forustuafl í utanríkismálum og það er einmitt þess þá heldur sem hin nýja stefnuskrá samfylkingarinnar vekur athygli vegna þess að þar er kveðið við annan tón og óhjákvæmilegt er að fá skýringar á því hjá alþýðuflokksmönnum hvernig stendur á þeirri kúvendingu sem nú hefur komið fram í þessu merkilega plaggi, Ísland og umheimurinn --- ný heimsmynd. Það er alveg ljóst mál að þar er beinlínis tekið upp merki Alþb. í utanríkismálum frá fyrri tíð og Alþfl. er með þessu að bregðast hlutverki sínu í utanríkismálum sem hann hefur gegnt með sóma fram til þessa dags.

Ef hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson heldur að það sé eitthvað utan við áhugasvið mitt sem formanns utanrmn. að ræða þessi mál er það alger misskilningur. Þetta er eitt af undirstöðuatriðunum í utanríkisstefnu þjóðarinnar.

En það er bara óhjákvæmilegt, herra forseti, að fá svar við þeim spurningum sem þessi stefnumörkun vekur.