Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 14:47:30 (947)

1998-11-05 14:47:30# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði svo sem ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu um utanríkismálin, skýrslu utanrrh. um þau efni. Væri þó auðvitað full ástæða til vegna ýmissa atriða sem fram koma í ræðu hæstv. ráðherra og vekja athygli. Margt af því sem þar er sagt og unnið er að er þannig farið að ég geri þar engar athugasemdir við og styð heils hugar. En við einstaka orðaleppa og kafla í skýrslu hans hlýt ég að staldra, einkanlega þegar vikið er að, eins og hann nefnir það, nýjum og breyttum áherslum Alþfl. eða samfylkingarinnar í utanríkismálum. Hann hefur í ræðu sinni og þessari umræðu og raunar fjölmiðlum á síðustu vikum kvartað yfir því að hinar meintu breyttu áherslur samfylkingarinnar í afstöðu til NATO og hersins og fleiri þátta hafi gert honum erfitt fyrir í vinnunni. Hann hefur haldið því fram að einhverjir menn hafi talað við hann í útlöndum um hvað væri eiginlega á seyði á Íslandi. Að vísu hefur hann ekki greint frá því hvaða menn þetta voru, við hvaða tækifæri hann hafi rætt við þá, undir hvaða formerkjum, hvort það hafi verið að frumkvæði hæstv. ráðherra sjálfs eða hvernig hann hafi yfirleitt lagt upp og túlkað þessar meintu breyttu áherslur samfylkingarinnar, Alþfl., Alþb. og Kvennalista, í þessum efnum.

Ég hef átt orðræður við kollega okkar þingmanna á þingum á Norðurlöndum og í Evrópu um þessi sömu efni. Við höfum rætt alþjóðamál og varnarmál og m.a. hefur þessa samfylkingu borið á góma, þau stórpólitísku tíðindi að þessir flokkar, félagshyggjuflokkar, ætli að taka höndum saman í íslenskri pólitík. Það eitt mun gjörbreyta landslaginu. Þessir kollegar mínar hafa nákvæmlega engar áhyggjur af því hvað hér er á ferð og finnst þessi umræða, þessi opnun, þessi hreinskipta nálgun á þeim viðfangsefnum stjórnvalda og utanríkisyfirvalda hverju sinni vera ósköp eðlileg og sjálfsögð þannig að ég veit ekki hvaða menn þetta eru sem eru að trufla hæstv. utanrrh. svona í vinnunni á ferðum hans í útlöndum.

Auðvitað er kjarni málsins sá, virðulegi forseti, að þessi harkalegu viðbrögð, gamalkunnu viðbrögð kaldastríðsáranna sem maður verður núna var við hjá fulltrúum stjórnarliða --- einkanlega er það af hálfu Sjálfstfl. en stundum og annað slagið skreppur hæstv. utanrrh. einnig í þann flokk --- bera þess merki og það er kjarni málsins, að þessir flokkar eru skíthræddir, ,,nervösir``, við það nýja pólitíska afl sem er að hasla sér völl í íslenskri pólitík og mun láta til sín taka svo eftir verður tekið og munað verður eftir í næstu þingkosningum. Það er auðvitað kjarni þessa máls.

Oddvitum ríkisstjórnarinnar brá auðvitað í brún þegar það varð að veruleika að þessir flokkar náðu saman í meginatriðum um þau málefni sem skipta máli í íslenskri pólitík. Með öðrum orðum verður kosningabandalag þessara þriggja flokka og samtaka að veruleika. Það var stóra sjokkið og ber að líta á það sem í framhaldinu fór algerlega í því ljósi. Og þessi pirringur og þessi útúrsnúningur og þessi leiðindi sem runnið hafa af stjórnarliðinu í þessum ræðustóli birtast í skefjalausum árásum á Alþfl. fyrir að hafa svikið lit í öryggis- og varnarmálum. Það er alveg nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hafa þessa forsögu í huga þegar maður ræðir efnislega og málefnalega um það sem þeir eru að segja, stjórnarliðar á borð við hæstv. utanrrh., hv. formann utanrmn. og hér áður og fyrr í þessari umræðu hv. 5. þm. Reykv., Sólveigu Pétursdóttur, sem er formaður þingmannasamtaka NATO. Þessar árásir eiga sér rætur í pólitík. Það er verið að reyna af veikum mætti að gera Alþfl. tortryggilegan. Það er verið að búa til einhverja grýlu úr þessum flokki og gefa til kynna að hann ætli að svíkja lit í öryggis- og varnarmálum, að hann sé ótraustur í þessum efnum, að ekkert sé á hann að treysta í utanríkismálum. Þess vegna, virðulegi forseti, þótti mér algerlega nauðsynlegt að rifja upp þó ekki væri nema í örfáum orðum sögu þessa flokks á lýðveldistímanum samanborið við stöðu og viðhorf núverandi stjórnarflokka í þessum efnum og spyrja um og vekja á því athygli öllu heldur hvaða flokkur hefur oftar en ekki dregið vagninn, hefur opnað nýjar dyr inn í samfélag þjóðanna í viðskiptalegu tilliti, í efnahagslegu tilliti, menningarlegu tilliti og í öryggismálatilliti. Að þessir hv. þingmenn skuli leyfa sér að koma í þennan ræðustól og bera Alþfl. það á brýn að hann sé ótraustur og ekki á vetur setjandi í utanríkismálum, þvílík öfugmæli.

Auðvitað vita þessir hv. þm. miklu betur. Ég rifjaði það upp örstutt í andsvari hvernig núverandi stjórnarflokkar höfðu hrakist fram og aftur blindgötuna þegar blés um EES-samninginn. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu 1988--1991 vissi ekki hvert hann var að fara eða hvert hann var að koma en lagaðist svo strax í ríkisstjórn með Alþfl. 1991 og var heils hugar í stuðningi sínum.

Framsfl. er náttúrlega sérkapítuli og efni í heilan fyrirlestur í þessum efnum. Þó að hæstv. utanrrh. og núverandi formaður flokksins hafi staðið fast í báðar fætur í þessum efnum þá var hann í miklum minni hluta í sínum eigin flokki þegar kom að þessari afstöðu. Framsfl. var þó nokkuð heill í undirbúningi málsins í vinstri stjórninni 1988--1991. Stór hluti þingflokksins og flokksins í heild snarsnerist hins vegar þegar hann fór í stjórnarandstöðu 1991 og þá greiddu, ef ég man rétt, þrír eða fjórir þingmenn og þar með talinn hæstv. utanrrh. samningnum atkvæði sitt þannig að hann var þverklofinn í þessum málum. Nú kemur hins vegar hver skýrslan á fætur annarri --- það þarf auðvitað ekki skýrslna við í þeim efnum --- sem gerir okkur ljóst að aðild okkar að EES var lífsspursmál og hefur gjörbreytt stöðu þjóðmála á Íslandi og stöðu einstaklinga í þessu samfélagi til mikilla muna. Vinnumarkaðurinn hefur tekið breytingum til hins betra. Réttarbætur handa launafólki hafa til komið fyrst og síðast vegna EES-samningsins, svo að ég tali ekki um hina viðskiptalegu sýn og viðskiptalegu möguleika Íslands gagnvart þessum stóra markaði. Neytendur standa öðruvísi. Við erum einnig að tala um réttindi almennings gagnvart ýmsum öðrum þáttum. Þetta getum við tíundað daglangt og enginn deilir um það lengur. Ég ætla satt að segja að vona það, virðulegi forseti, að menn muni þó það langt aftur að þeir geti staðið uppi í þessum ræðustóli og viðurkennt það sem satt er og rétt, að það var Alþfl., forusta hans og þingflokkur sem dró þennan vagn, kom honum í heila höfn þrátt fyrir ágjöf frá hægri og vinstri allan þann tíma.

Ég gæti líka rifjað upp EFTA, virðulegi forseti, sérstaklega fyrir hæstv. utanrrh. og afstöðu Framsfl. í þeim efnum og hvernig Framsfl. hefur látið í utanríkismálum svona eftir því hvernig hentað hefur hverju sinni.

En við ræðum utanríkismál og menn eru að reyna að snúa á hvolf og reyna að hafa endaskipti á texta sem er fyrir framan þá. Hvað er það sem þessi samfylking hefur komist að samkomulagi um? Jú, á þeim fjórum árum sem um er að ræða vill samfylkingin, Alþb., Alþfl. og Kvennalisti, standa við skuldbindingar sínar í NATO. En hv. þm. Tómas Ingi Olrich gagnályktar og segir: Fyrst það er bara talað um fjögur ár þá gefur það auga leið að þið ætlið að fara úr NATO eftir fjögur ár. (Gripið fram í.) Hvers konar þvæla og vitleysa er þetta? Hvers konar dómadags endaleysa er þetta? Það má með sömu röksemdafærslu segja að vegna þess að Tómas Ingi Olrich ætlar að starfa áfram með ríkisstjórn Davíðs Oddssonar á morgun, þá megi reikna með að hann ætli að hætta því þar næsta dag. (TIO: Lestu plaggið.) En þetta er auðvitað bara kjarni málsins og hann ber að skoða líka í því ljósi að samfylkingin hefur tekið ákvörðun um að hún ætli sér að standa við það að vera áfram í NATO og að standa við þær skuldbindingar. Ég vil árétta það, virðulegi forseti, að ég er að fara á mikilvægan fund í þingmannasamtökum NATO eftir helgina ásamt tveimur stjórnarliðum. Ég fylgist með því innan frá og hef fylgst með því utan frá fram að þeim tíma að ég varð aðili að þeim þingmannasamtökum að það er að verða gjörbreyting á starfsemi NATO. Það er ekkert launungarmál. Miklar breytingar hafa þar átt sér stað og munu eiga sér stað enn frekar í náinni framtíð. Þar hafa ný viðfangsefni komið upp, t.d. öryggisgæsla, við getum kallað það ,,lögreglustörf`` NATO. Ég er þar í mannréttindanefnd sem hefur látið sig varða mannréttindamál í smáum og stórum stíl, sum hver sem ekki alltaf koma fyrir sjónir almennings og eru ekki á síðum dagblaða eða á öldum ljósvakans, og lætur sig varða mannréttindamál í ýmsum NATO-ríkjum. Ég fór til að mynda í gagnlega ferð til Tyrklands ekki fyrir margt löngu þar sem menn ræddu þessi mál mjög hreinskiptið við tyrknesk yfirvöld og tyrkneska þingmenn þannig NATO lætur sig ýmis mál varða og ég sé það í framtíðinni að þannig verður það. Þegar menn ætla síðan að hengja sig í það sem neðst kemur í þessum kafla og hv. formaður utanrmn., Tómas Ingi Olrich, tengir beint saman við það að markmið samfylkingarinnar sé að Ísland geti staðið utan hernaðarbandalaga, þá ætla ég að spyrja, virðulegi forseti: Er það markmið íslensku ríkisstjórnarinnar að Ísland verði innan hernaðarbandalaga? Ber að skilja það svo að það sé sérstakt markmið hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar að Ísland verði innan hernaðarbandalaga um aldur og ævi? Ef svo er þá væri fróðlegt að heyra það því að það hefur aldrei verið markmið mitt í pólitík eða mitt innlegg að einhver sérstök framtíðarsýn sé í því fyrir íslenskt samfélag að vera í hernaðarbandalögum hvaða nafni sem þau nefnast. Það er a.m.k. ekki í mínum kokkabókum. En það væri fróðlegt að heyra það ef það er sérstakt markmið Framsfl. að vera aðili að hernaðarbandalögum burt séð frá öllu öðru, að það sé sérstakur draumur hv. þm. Tómasar Inga Olrichs að vera innan hernaðarbandalaga um aldur og ævi. Það er þá alveg ný lína í íslenskum stjórnmálum.

Víkur nú sögunni að varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og þeim ódýru og ómerkilegu útúrsnúningum sem andstæðingar samfylkingar hafa reynt að viðhafa í þeim efnum. Þar er það eitt sagt að samfylkingin vilji taka upp viðræður við Bandaríkjastjórn í ljósi þess að hinn nýi varnarsamningur --- þetta vil ég árétta, virðulegi forseti --- hinn nýi varnarsamningur, sem er auðvitað síðasti viðaukasamningur utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, rennur út árið 2001 og að ákvæði eru um það að komi annar aðilinn til með að vilja gera á honum breytingar þá þurfi að ræða það á árinu 2000. Ég heyrði í fréttum um daginn að hæstv. utanrrh. ætlar að fara að alveg eins og samfylkingin hefur lagt til. Hann ætlar ekki að bíða þess tíma. Nei, hann ætlar að hefja þessar viðræður strax og hann er raunar byrjaður á því. Því er kannski rétt að nota tækifærið til þess að spyrja og leita eftir því hjá hæstv. utanrrh. hvaða viðræður eru farnar í gang. Hverjir taka þátt í þeim? Um hvað er verið að ræða? Hvaða markmið hafa íslensk stjórnvöld, íslensk ríkisstjórn, í þeim viðræðum? Það er algerlega nauðsynlegt því að ég árétta, virðulegi forseti, að samfylkingin og Alþfl. og ég sem þingmaður Reykn. ætla ekki að fljóta sofandi að feigðarósi og bíða þess að sá dagur renni upp árið 2000 að tilkynning komi frá bandarískum stjórnvöldum, eins og raunar gerðist sumpart 1994 þar sem þau ætluðu sér að draga mjög verulega og alvarlega úr umfangi á Keflavíkurflugvelli sem hefði þýtt umtalsverða breytingu á högum og kjörum starfsmanna þar syðra, 1.600 manna. Það tókst að ná samkomulagi 1994 og ég var aðili að þeirri ríkisstjórn. Hæstv. utanrrh. tókst að ná samkomulagi 1996 og þess vegna er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Menn eiga að hefja þessar viðræður nú þegar. (Forseti hringir.) Hæstv. utanrrh. hefur farið að ráðum samfylkingar og er byrjaður að ræða þessi mál. Um hvað er verið að tala?

Virðulegi forseti. Hér er bara mjög hönduglega tekið á öllum málum og horft á þetta mál með sjálfstæði (Forseti hringir.) hugans, ekki undirlægjuhætti heldur með augum fulltrúa íslenskrar þjóðar og með það að markmiði að við stöndum við okkar alþjóðlegu skuldbindingar eins og ætíð en, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, berum höfuðið hátt. Það er kjarni þessa máls.