Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:09:11 (952)

1998-11-05 15:09:11# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:09]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hér fari fram mjög mikilvæg umræða því að það er afar mikilvægt að það sé skýrt hvað menn eiga við í svo stóru máli sem þessu. Ég hef lesið þennan texta og það er mikilvægt að fleiri forustumenn Alþfl. skýri þetta betur út fyrir okkur, þ.e. að samfylkingin ætli sér ekki að segja sig úr NATO ef hún fær til þess vald á næstu fjórum árum en framtíðarmarkmiðið sé samt það að Ísland geti staðið utan hernaðarbandalaga.

Nú vil ég taka það fram að ég lít ekki á NATO sem hernaðarbandalag. Ég veit að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerir það. (Gripið fram í: Friðarbandalag.) Ef Alþfl. á við það að NATO sé hernaðarbandalag, þá les ég þetta þannig, ef það stæði þarna NATO, að þá sé það framtíðarmarkmið að segja sig úr NATO. Ef þetta er ekki svona þá er mjög mikilvægt að fá það fram. Það hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir forustumenn Alþfl. að fá tækifæri á Alþingi til þess að eyða allri óvissu í þessu máli því að við hljótum að lesa þennan texta og fleiri lesa þennan texta. Það hefur ekki truflað mig í starfi mínu erlendis. Ég get fullvissað hv. þm. um það. Það hafa hins vegar ýmsir verið að spyrja um það hvað mennirnir séu að fara og skilja ekkert í því að á sama tíma og aðrar þjóðir eru að keppast við að fá inngöngu í NATO þá skuli vera til þjóð sem hefur þá framtíðarsýn að losa sig út úr þeirri aðild. Það er þetta sem þarf að vera skýrt. En ég tel það sem hv. þm. sagði vera mjög mikilvægt, að það hafi ekki orðið nein stefnubreyting hjá Alþfl. og ég tek það gilt. En hefur Alþfl. þá samið um eitthvað annað við samfylkinguna og er Alþfl. þeirrar skoðunar að NATO sé hernaðarbandalag? (SJS: Spyrja þá bara hvort þeir séu sammála því.)