Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:33:58 (957)

1998-11-05 15:33:58# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:33]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er varðar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þá eru ekki neinar líkur á því, a.m.k. sem stendur, að Evrópusambandið nái samkomulagi um framboð til öryggisráðsins. Það hefur ekki gert það fram að þessu. Þar hafa ríkin boðið sig fram hvert á móti öðru. Evrópusambandið hefur heldur ekki getað komið sér saman um breytingar á öryggisráðinu, þ.e. stækkun þess. Norðurlöndin hafa hins vegar haft mjög gott samstarf um þessi mál og ætla sér að hafa þetta samstarf áfram, bæði að því er varðar stækkun öryggisráðsins þar sem þau hafa verið með ákveðnar tillögur og að því er varðar framboð til þess. Hvað gerist í lengri framtíð er ekki gott að segja og ég get ekkert fullyrt um.

Að því er varðar orðalag í ræðu minni sem lýtur að skertum hlut nokkurra þjóða, þ.e. Írlands, Spánar, Portúgals og Grikklands, þá á ég hreinlega við það að við erum tilbúnir til viðræðna um þessar þjóðir um þá spurningu hvort þeir hafi borið skertan hlut í viðskiptum við okkur. Ég tel að svo sé alls ekki. Ég tel að þeir búi við meiri fríverslun með sínar vörur inn á okkar markað en við með vörur okkar inn á þeirra markað því að við búum ekki algjörlega við fríverslun með fisk. Það eru þessar viðræður sem við erum fyrir okkar leyti tilbúnir að fara í og viljum gjarnan eiga við þessar þjóðir. Ég tel að í þessu sambandi búi Íslendingar við nokkra sérstöðu að því leyti að við höfum ekki algjöra fríverslun með fiskafurðir okkar. Við höfum ekki algjöra fríverslun við Evrópusambandið með mikilvægustu útflutningsafurð okkar. Þess vegna tel ég að við höfum þarna meiri sérstöðu en ýmsar aðrar þjóðir.