Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:36:14 (958)

1998-11-05 15:36:14# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin, en bendi aðeins á að reynslan hefur sýnt að þegar skarast hafa annars vegar norrænir hagsmunir þjóða utan ESB og hins vegar hagsmunir ESB-ríkja þá hafa Norðurlandaþjóðirnar innan ESB ávallt staðið með Evrópusambandinu.

Í öðru lagi ítreka ég spurningu mína til hæstv. utanrrh.: Ber ekki að skilja orð hans í ræðunni sem svo að hann sé að opna á þann möguleika að Ísland haldi áfram með einum eða öðrum hætti að greiða einhverja fjármuni til stuðnings hinum fátækari ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins? Við vitum um hvað deilan snýst. Við vitum hverjar kröfur Spánverja hafa verið. Ber ekki að skilja þessi orð ráðherra svo að hann sé að opna á þá möguleika að hugsanlega geti einhverjar greiðslur farið fram af Íslands hálfu til þessara verkefna þó svo að sjóður sá sem sérstaklega var stofnaður með EES-samningnum verði lagður niður?