Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:39:16 (961)

1998-11-05 15:39:16# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:39]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði það að sérstöku umræðuefni að forsrh. og formaður Sjálfstfl. sæi ekki við ystu sjónarrönd inngöngu í ESB. Því er nauðsynlegt að spyrja hv. þm., sem stendur nú í að undirbúa samfylkingu og raunar samruna Alþb., Alþfl. og Kvennalistans, hver sé ysta sjónarrönd samfylkingarinnar í þessum málum?

Það hefur komið fram í þessari umræðu að ysta sjónarrönd samfylkingarinnar í þessum málum er fyrst og fremst næsta kjörtímabil. Hver er yfirlýsingin í þeim málum? Í stefnuyfirlýsingu samfylkingarinnar stendur, með leyfi forseta:

,,Þó er ekki áformað að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu.``

Þarna er sem sagt ysti sjóndeildarhringur samfylkingarinnar í þessum málum.

Þess ber þó að geta að í varnarmálunum tókst Alþb. að búa til einhverja draumsýn, sem var sú að staðið yrði utan við Atlantshafsbandalagið í varnarmálum. Því spyr ég: Tókst þá Alþfl. ekki einu sinni að koma inn í þetta plagg þeirri draumsýn sinni að í fyllingu tímans yrði gengið í ESB?

Ef það reynist rétt hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að við fáum verri kjör með því að bíða með að ganga í ESB, hvers vegna í ósköpunum sættir hann sig þá við að ekki einu sinni þessu framtíðarmarkmiði væri haldið til haga í stefnuyfirlýsingu samfylkingarinnar?