Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:45:15 (965)

1998-11-05 15:45:15# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það leyndi sér ekki í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar áðan sami söknuðurinn eftir því að ríkisstjórnin skuli ekki vera að bollaleggja aðild að Evrópusambandinu og kom fram fyrr í umræðunni í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Í raun er niðurstaðan af þessari umræðu alveg skýr. Talsmenn Alþfl. í umræðunni, fleiri en einn, eru aðildarmegin við ríkisstjórnina og stefnu hennar, jafnvel Framsfl. sem hefur þó gerst mjög Evrópusinnaður á síðustu missirum undir forustu hæstv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar. Sú þróun innan þess flokks hefur auðvitað ekki leynt sér. Alþfl. er aðildarmegin við ríkisstjórnarflokkana og stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég ætla í sjálfu sér ekki að blanda mér í þrætur framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, að hluta til sögulegs eðlis, um það hvort Alþfl. sé að bila í stuðningi við NATO og herinn. Það er á mannamáli það sem hér er verið að ræða. Talsmenn Framsfl. og Sjálfstfl. gera hér hríð að Alþfl. og saka hann um að vera að bila í stuðningnum við NATO og herinn. Kratar sverja hins vegar ákaft af sér og tíunda m.a. ágæti sitt og framlag til þessarar stefnu á umliðnum árum svo ég segi nú ekki öldum.

Ég held hins vegar að talsmaður Sjálfstfl., hv. þm. Tómas Ingi Olrich, og einnig hæstv. utanrrh. fái ekki botn í málin með því að sarga bara á Alþfl. Það sem skiptir máli hér er: Túlka allir talsmenn sem að samstarfinu standa þetta orðalag eins? Ekki bara hvernig Alþfl. túlkar það. Það er auðvitað athyglisvert að þeir þingmenn annarra flokka sem að samstarfinu ætla að standa, sem hér eru til staðar, hafa látið Alþfl. einum eftir að útskýra þessi orð. Ber að skilja það svo að þeir séu sammála túlkun Alþfl. á innihaldi þessara orða?