Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:49:53 (967)

1998-11-05 15:49:53# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:49]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög gott að hlutirnir liggi skýrt fyrir eins og endurspeglaðist í svari formanns Alþfl. áðan. Það er akkúrat það sem verið er að lýsa eftir hér við umræðuna, að það sé bara alveg skýrt hver sé stefna hvers og eins. Við skiljum það alveg að með orðalaginu í samfylkingarplagginu er verið að gera tilraun til að brúa djúpstæðan ágreining í málum. Það liggur fyrir og það hefði verið mikið vænlegra til árangurs að hafa það sem útgangsforsendu í málinu en vera ekki að vandræðast með það eins og mér finnst gert í tilraunum til að lesa í þetta út og suður.

Ég var reyndar ekki beinn þátttakandi í stjórnarsáttmálagerð við ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens. Ég var raunar leigjandi í kjallaranum hjá honum á þeim árum en telst tæplega bera ábyrgð á stjórnarsamstarfinu fyrir það. Ég studdi hins vegar þátttöku í þeirri ríkisstjórn í flokki mínum á þeim tíma. Það er grundvallarmunur á því, hv. þm., hvort málamiðlanir eru gerðar eftir kosningar og ráðast af styrkleikahlutföllum sem flokkarnir fengu í þeim kosningum, sem að sjálfsögðu hefur áhrif á það hvar málamiðlunin liggur í málefnalegu tilliti, eða hvort samið er um þetta allt saman fyrir fram í fámennum hópi og kjósendurnir hafa ekki tækifæri til að láta álit sitt í ljós með því að styrkja eina stefnu en síður aðra. Það er þessi grundvallareðlismunur sem menn þurfa að skilja í lýðræðislegum stjórnmálum.