Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:58:31 (973)

1998-11-05 15:58:31# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið mjög gagnleg að mínu mati. Ég tek undir með hv. þingmönnum um að ekki hafi verið mikill tími til að sinna þessum stóra málaflokki en ég tel að umræðan sýni að utanríkismál skipta okkur vaxandi máli og að við þurfum að taka tíma í að ræða þessi mál á Alþingi og skiptast á skoðunum um það hvernig best verður haldið á málefnum Íslands á alþjóðavettvangi. Við verðum að sjálfsögðu aldrei alveg sammála en það er það mikil samstaða um megináherslur í utanríkismálum að það er mjög mikilvægt að staðfesta þessa samstöðu, ekki aðeins fyrir stjórnmálaflokkana heldur jafnframt út á við. Þannig geta þeir sem við eigum samskipti við vitað að við séum sammála um meginlínur í utanríkismálum og hægt sé að treysta Íslendingum í samskiptum á vettvangi þessara mála. Ég tel að þessi umræða hafi í öllum meginatriðum staðfest það.

[16:00]

Ég vil þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni sérstaklega fyrir viðurkenningarorð hans í garð starfsmanna utanríkisþjónustunnar og ég þakka reyndar þann skilning sem utanríkisþjónustan hefur á hv. Alþingi. Það hefur ekki alltaf verið til vinsælda fallið fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma að óska eftir auknum framlögum til utanríkismála. En ég tel að sá skilningur sé fyrir hendi og að við verðum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að sinna þeim málaflokki í vaxandi mæli og það mun þýða aukin útgjöld til hans. Alþjóðlegt samstarf er að aukast mjög mikið og verkefnin hellast yfir okkur. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar vinna hörðum höndum að því að reyna að sinna þessum málum eftir bestu getu. En það verður að viðurkennast að mjög mikið álag er á utanríkisþjónustunni og engin leið fyrir þá sem þar starfa að sinna öllu því sem kemur upp á borðið.

Hér hefur nokkuð verið kvartað yfir því að ekki sé rætt um mál sem skipta miklu eins og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Það liggur alveg ljóst fyrir að núverandi ríkisstjórn hafði aðild að Evrópusambandinu ekki á dagskrá í málefnasamningi sínum. Hins vegar stendur í málefnasamningnum að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að treysta samskiptin við Evrópusambandið og fylgjast mjög vel með hvað þar er að gerast. Þetta hefur verið gert. Með hvaða hætti höfum við reynt að styrkja þau samskipti? Við höfum t.d. gert það með því að reyna að auka pólitíska samstarfið. Við höfum gert það með því að taka vaxandi þátt í ýmsu nefndastarfi á vegum Evrópusambandsins eftir því sem við höfum getað. Við höfum gert það með því að auka samstarfið við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Við höfum gert það með samningnum um Schengen og síðan undirbúningi að samningaviðræðum um þau mál.

Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að sú mynd er að taka stöðugum breytingum og staða Íslands í því samhengi er að breytast og á eftir að breytast. Það getur skipt miklu máli hvað samstarfsþjóðir okkar í EFTA koma til með að gera. Munu t.d. Svisslendingar sækja um aðild eða gera alvöru úr þeirri aðildarumsókn? Ég geri mér líka grein fyrir því að í Noregi kemur umræðan um aðild upp á borðið á næstunni. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær, en það mun verða. Auðvitað þarf Ísland að meta stöðu sína í öllu þessu ferli og stækkun Evrópusambandsins.

Ég ætla ekki að gera það að frekara umtalsefni hér en ég tel að nauðsynlegt sé fyrir alla stjórnmálaflokka að fara vel yfir þessi mál og gera sér grein fyrir hvernig við komum til með að vinna að þeim á næsta kjörtímabili, hverjir svo sem fara með stjórn landsins á því kjörtímabili sem í hönd fer. Ég mun að sjálfsögðu ræða þau mál í mínum flokki og ræða þau á flokksþinginu sem verður hjá okkur eftir rúmar tvær vikur. Ég mun leitast við að ræða það opið og af fullri hreinskilni. Ég tel að við þurfum að horfa þarna til allra átta. Hins vegar eru mikil vandkvæði á því fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Evrópusambandinu. Það vitum við. Við vitum hver fiskveiðistefna sambandsins er og við vitum að ekki stendur til að breyta henni. Það er ekkert einfalt að komast fram hjá því. Það er því engin bein braut þarna fram undan. Hún er vandsöm og við þurfum að horfa þar til allra átta.

Að því er varðar Vestur-Evrópusambandið og sameiginlegt varnarsamstarf fyrir Evrópusambandið sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði að umtalsefni, þá fylgjumst við mjög vel með því sem þar er að gerast. Það sem stendur upp úr í því sambandi er Amsterdam-sáttmálinn. Deildar meiningar voru innan Evrópusambandsins um hvaða breytingar ætti að gera á varnarsamstarfinu en niðurstaða náðist og unnið hefur verið á þeim grundvelli. Ýmsar hugleiðingar eru uppi um breytingar en þær hugleiðingar hafa í sjálfu sér ekki náð lengra. Það liggur alveg ljóst fyrir að það samstarf getur ekki komist lengra nema í samstarfi við Atlantshafsbandalagið. Þar munum við Íslendingar hafa okkar að segja, Norðmenn jafnframt og Tyrkir enn fremur. Tyrkir hafa að undanförnu verið með tillögur um endurmat á því samstarfi og viljað gera sig meira gildandi í því. Það er vissulega rétt að uppi hafa verið ýmsar hugmyndir um breyttar áherslur í Bretlandi en þær hafa ekki orðið að veruleika og við sjáum mjög vel að Evrópulöndin eiga erfitt með að koma sér saman í þessum málaflokki. Ef við tökum Bosníu og núna Kosovo þá hafa Evrópusambandslöndin ekki ráðið við að komast þar að sameiginlegri niðurstöðu. Það var ekki hægt án þátttöku Kanada og Bandaríkjanna. Það hefur því hvað eftir annað sannast að samstarfið yfir hafið skiptir grundvallarmáli og Íslendingar jafnt sem Bretar, Danir og flestar aðrar þjóðir vilja alls ekki fórna því. Ég á því ekki von á að þarna verði mikil breyting án þess að það verði niðurstaða sem fengist þá í góðri samvinnu við Bandaríkin.

Hæstv. forseti. Ég er hér að mestu leyti til að svara spurningum sem til mín hefur verið beint, sumir viðkomandi þingmenn eru reyndar ekki hér, en ég ætla samt að reyna að svara þeim. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði mig um endurmat á öryggisstefnu og spurði hvort fulltrúar stjórnarandstöðunnar kæmu ekki að því máli. Ég svara því játandi að fulltrúar stjórnarandstöðunnar munu að sjálfsögðu koma að því máli á einn eða annan veg. Það eru kosningar fram undan og ég tel ekki ástæðu til þess samráðs nema þá í einhverjum tiltölulega litlum mæli fyrr en að loknum kosningum. Það verður þá verkefni nýrrar ríkisstjórnar að spila úr því en okkur ber skylda til að bera slík mál undir utanríkismálanefnd og hafa samráð og samstarf við nefndina um öll mikilvæg utanríkismál og það á að sjálfsögðu við í þessu máli. Hvort mönnum þyki ástæða til að setja upp sérstaka nefnd í þessu sambandi skal ósagt látið en ég er tilbúinn til að ræða það við aðra flokka hvort ekki sé ráðlegt að fara í málið með þeim hætti.

Af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er hér og gagnrýndi þau tök sem ég hafði í máli mínu um samblandið milli umhverfismála og nýtingarmála, þá sagði ég í andsvari að ég vildi ekki að ég væri skilinn þannig að ég sé alfarið andvígur því að umhverfismálum og nýtingarmálum sé blandað saman, langt í frá. Ég er hins vegar andvígur því að þessi mál séu rekin þannig að ekkert annað sé til en friðun. Við þekkjum þetta í hvalamálinu. Ég veit að hv. þm. er mér sammála í því og ég bið hann um að skilja mál mitt með þeim hætti. Ég er að vara við því að umhverfisverndarsamtök nái þarna yfirhöndinni og ráðist að öllu sem heitir nýting. Við þekkjum þessar hættur. Þetta hefur gerst í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þetta hefur því miður gerst í ýmsu öðru samhengi. Þessi tilhneiging á sér stað enn þann dag í dag hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við Íslendingar höfum ekki fram að þessu litið á nýtingu sjávarfangs fyrst og fremst sem umhverfismál. Við höfum litið á það sem sjávarútvegsmál, það heyrir undir sjávarútvegsráðuneytið en ekki undir umhverfisráðuneytið. Við höfum nýtt fiskstofna okkar almennt séð skynsamlega og ávallt er verið að reyna að bæta þar úr. Það á að vera það fordæmi sem við eigum að geta sýnt gagnvart öðrum þjóðum. Það er okkar besta vopn gegn þeirri tilhneigingu margra að friða ýmsa fiskstofna og banna veiðar úr þeim. Síðast var fulltrúi íslenskra stjórnvalda, fulltrúi sjútvrn., að berjast fyrir því á vettvangi FAO og koma því á framfæri að þorskstofnar í Norður-Atlantshafi væru ekki allir ofveiddir eins og þar var haldið fram. Við þurfum að berjast fyrir rétti okkar og sjónarmiðum í öllum þessum stofnunum og það er alltaf verið að sækja á okkur í þeim efnum. Það er þetta sem býr að baki og ég bendi hv. þm. á að lesa nýútkomna bók sem heitir Hafið --- okkar framtíð, sem er margt gott um að segja. Það er margt gott og rétt sem þar kemur fram. Hins vegar gætir þeirrar tilhneigingar að alhæfa og því haldið fram að þetta sé allt í voða og að beita þurfi verndunaraðgerðum mjög harkalega. Eitt af því sem þar er lagt til, sem ég veit að hv. þm. líkar nú ekki sérstaklega vel, er að verðleggja alla þessa nýtingu og láta alla sem hana stunda borga fyrir hana. Ég veit að ég og hv. þm. erum þó a.m.k. sammála um að menn vilja margir hverjir fara offari í þeim efnum. Ef á að borga fyrir nýtingu auðlindarinnar þannig að enginn hafi efni á að nýta hana og friða hana með þeim hætti þá yrði a.m.k. lítið úr þjóðarbúskap okkar Íslendinga.

Herra forseti. Ég held að hér hafi ekki neitt sérstakt komið fram sem ég hef ekki haft tækifæri til að svara. Ég vil aðeins segja um varnarsamninginn að lokum að ég bið hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson um að skilja á milli varnarsamningsins og þeirrar bókunar sem við höfum undirritað. Varnarsamningurinn er ótímabundinn. Það er mikilvægt að það sé ljóst og því sé haldið mjög á lofti í öllum umræðum. Varnarsamningnum er ekki hægt að breyta nema báðir aðilar komi sér saman um það. Hér er því um mjög óvenjulegan alþjóðasamning að ræða sem er okkur mikils virði en bókunin er allt annars eðlis. Þar er verið að útfæra þann sameiginlega skilning sem menn hafa á varnarsamningnum og þann viðbúnað sem þarf til að uppfylla hann, en varnarsamningurinn stendur sem slíkur. Hann er algjörlega ótímabundinn og óvenjuleg smíð sem sýnir framsýni þeirra manna sem að honum stóðu hvort sem þeir voru í Alþfl., Framsfl. eða Sjálfstfl. og mikilvægt er að við stöndum vörð um þá framsýni. Ég vænti þess að með sama hætti og hv. þm. er stoltur af fortíð Alþfl. verði hægt að segja að þeir sem standa í hans sporum eftir 20 ár verði jafnstoltir af fortíð hans. Ég held að það sé ekki að ástæðulausu að ýmsir hafi nokkrar áhyggjur af því að menn geti ekki verið jafnstoltir miðað við þann málflutning sem hér hefur verið hafður uppi, en vonandi er það ekki rétt hjá mér. Ég óska hv. þm. alls góðs í því ætlunarverki hans að standa vörð um þá mikilvægu hagsmuni Íslands og vona að honum takist að telja félögum sínum betur trú um það en mér hefur fundist hann getað gert fram að þessu.