Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:26:38 (979)

1998-11-05 16:26:38# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:26]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að orðlengja það hvaða nafn er best að gefa þessum bókunum. En það gefur auga leið að þær skipta eins og sakir standa mestu máli um það hvers kyns starfsemi fer fram þarna og í hversu miklum mæli hún er þótt að varnarsamningurinn frá 1951 sé auðvitað ákveðið grundvallarplagg í þessu sambandi. Hann segir ekki til um umfang starfseminnar þannig að hér er um að ræða lykilatriðið í því samhengi sem við ræðum.

Ég vil rifja upp í þessu sambandi að það var ekkert mikill aðdragandi að fyrirætlun bandarískra yfirvalda á árinu 1994 þegar um það bárust fréttir með tiltölulega skömmum fyrirvara að bandarísk yfirvöld hygðust draga mjög úr starfsemi suður á velli. Viðunandi lausn náðist í þeim efnum eftir viðræður aðila og það var vegna þess tilefnis sem ég leitaði eftir því hjá hæstv. utanrrh. hvort eitthvað svipað væri í farvatninu eftir því sem hann vissi best. En hann segir það ekki vera.

Hæstv. ráðherra segir að þessar viðræður séu ekki farnar í gang því að nú séu menn að vinna sína heimavinnu og endurmeta varnarþörfina, væntanlega á okkar forsendum. Ég vil því spyrja: Hvaða aðilar eru það sem þessa vinnu inna af hendi? Ég teldi eðlilegt að a.m.k. væri hinu háa Alþingi gert kleift að fylgjast með þeirri grundvallarvinnu. Jafnframt væri eðlilegra að hið háa Alþingi kæmi einhvern veginn að þeirri vinnu í gegnum utanríkismál eða aðra ,,instansa``, því að hér er um grundvallaratriði að ræða.

Margs er að gæta í þessu sambandi og ég hef sagt það áður við þessa umræðu og raunar oft og einatt í mínu kjördæmi að bandaríska varnarliðið og umsvif þess hafa haft mikil áhrif á efnahagslíf hér á landi, atvinnulíf hér á landi, einkum og sér í lagi í Reykjaneskjördæmi. Það er því ekki ráð nema í tíma sé tekið og að menn átti sig á því hvað geti legið í framtíðinni á allra næstu árum.