Skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 16:50:28 (985)

1998-11-05 16:50:28# 123. lþ. 21.91 fundur 95#B skýrsla Ríkisendurskoðunar um jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[16:50]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni fyrir að vekja máls á því sem hér er til umræðu. Skýrsla Ríkisendurskoðunar er að sönnu áfellisdómur á þessa deild í landbrn. Vissulega er hún enginn endanlegur stóridómur. Ríkisendurskoðun er ekki dómstóll en þær athugasemdir sem rökstuddar eru í skýrslu stofnunarinnar gera það að verkum að ekki er unnt annað en að fjalla um þær og reyna að komast að niðurstöðu.

Þegar vélað er um upphæðir á borð við 1,8 milljarða kr., sem er bókfært verð þeirra 549 jarða sem hér um ræðir, þarf að standa kórrétt að verki, hvað þá þegar menn geta skotið á hugsanlegt markaðsvirði jarðanna og fengið út tölur á bilinu 4--5 milljarða kr. Ég held að hver maður sjái að það er ekki gert í jarðadeild landbrn. Það stendur upp úr. Í því sambandi breytir engu, virðulegi forseti, hvort hér er um að ræða umsýslu sem lýtur að félagslegum þáttum, búsetu eða atvinnustarfsemi á þessum jörðum, þ.e. að tryggja byggð í landinu, eða hvort einber markaðssjónarmið ráða ríkjum. Sömu grundvallarsjónarmið eiga auðvitað að ráða ríkjum, að pappírar séu sýnilegir og stjórnsýsla sé öll til fyrirmyndar. Ég tel það ekki skýringar hjá hæstv. ráðherra, eins og hann vildi gefa hér til kynna fyrr, að þessi deild í ráðuneytinu lyti allt öðrum lögmálum þar sem hér væri um félagslega aðstoð að ræða. Það er bara ekki þannig.

Hæstv. ráðherra gaf til kynna að ráðuneytið væri þegar farið að kanna hvernig hægt væri að mæta ýmsum ábendingum. Að lyktum vil ég því spyrja hæstv. ráðherra.: Hvað er það nákvæmlega sem ráðuneytið er að gera og hvað sér ráðherra mikilvægast í því að breyta og betrumbæta vegna þessarar skýrslu?