Flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:17:48 (992)

1998-11-05 17:17:48# 123. lþ. 21.92 fundur 96#B flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:17]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda að ræða hér vinnubrögð hæstv. ráðherra við flutning á verkefnum veðdeildar í kjördæmi ráðherrans, sem vissulega ber með sér að hér er á ferðinni pólitískur hráskinnaleikur og af málinu öllu er pólitískur óþefur. Ég get nefnt dæmi þar um, herra forseti.

Ég spyr: Er það tilviljun að varamaður í bankaráði Búnaðarbankans, banka sem fær verkefnið, er í undirbúningsstjórn sem gerir tillögu um hvert verkefnið fer? Eru þetta ekki hagsmunaárekstrar, herra forseti? Ég beini líka athyglinni að því að aðstoðarmaður ráðherra, sem orðaður er við framboð í Norðurl. v., er í undirbúningsstjórninni sem ákveður eða gerir þessa tillögu. Það væri auðvitað hægt að nefna fleiri atriði.

Það á vissulega rétt á sér að flytja störf út á land, en vinnubrögð ráðherrans, einkum gagnvart starfsfólki veðdeildar Landsbankans er fyrir neðan allar hellur og ráðherranum til skammar. Málið snýst ekki bara um það hvort flytja eigi þessi verkefni á Sauðárkrók eða Húsavík eða eitthvað annað út á land, það snýst líka um það að verið er að leggja niður 25 störf í Reykjavík þar sem atvinnuleysið hefur verið hvað mest, 25 manns eru hér að missa vinnuna. Og þessum 25 einstaklingum sem eru að missa vinnuna er boðið upp á það, og það er óskammfeilni og niðurlægjandi fyrir þetta fólk og lítilsvirðing, að þurfa að frétta af því í útvarpinu og fjölmiðlum að það sé búið að missa vinnuna.

Málið á sér fleiri hliðar en ræddar eru hér í dag. Það er nauðsynlegt að fram fari ítarlegri umræða en hér gefst kostur á um þessi fáheyrðu og siðlausu vinnubrögð gagnvart starfsfólki veðdeildar. Fullyrðing ráðherrans um sparnað af þessari skipan mála stenst ekki og sýnist mér að verið sé að auka kostnað íbúðarkaupenda, með öðrum orðum að velta kostnaði ríkisins yfir á fólkið með auknum þjónustugjöldum. Mér sýnist að það geti orðið niðurstaðan í þessu máli.

Þennan meinta sparnað sem ráðherra talar um þarf að ræða. Ég hef óskað eftir því við hæstv. forseta og tel að fullt tilefni sé til þess að hér fari fram önnur utandagskrárumræða um þetta mál þar sem tekið verði á vinnubrögðum hæstv. ráðherra gagnvart starfsfólki veðdeildar. Það er full ástæða til að ræða það, herra forseti, og líka að fara nánar ofan í saumana á því sem ráðherra kallar sparnað, sem ég held að sé bara tekinn upp úr hatti vegna þess að það er verið að velta þessu yfir á fólkið.