Flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:20:43 (993)

1998-11-05 17:20:43# 123. lþ. 21.92 fundur 96#B flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:20]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka þetta mál til umræðu. Þegar samþykkt voru á Alþingi í vor, illu heilli, ný húsnæðislög þar sem kveðið var á um að leggja Húsnæðisstofnun ríkisins niður og reisa á rústunum Íbúðalánasjóð fór fram mikil umræða um framtíð starfsfólks. Og það var tekist á um það hér í þingsal hvort festa ætti í lög að starfsfólki Húsnæðisstofnunar yrðu tryggð störf í Íbúðalánasjóði.

Hæstv. félmrh. kvað ekki vera þörf á þessu, hins vegar yrði kappkostað að sjá til þess að allir fengju störf í hinni nýju stofnun. Ég efast ekki um að reynt sé að gera það. En gagnvart þessum starfsmönnum, starfsmönnum Landsbankans, þá blikka menn varla auga á meðan þeir grípa til ráðstafana sem svipta 25 einstaklinga atvinnu sinni. Að vísu segir að reynt verði að finna þessum einstaklingum vinnu, en engar tryggingar eru fyrir því.

Ég kem upp, hæstv. forseti, til að mótmæla þessum vinnubrögðum og hvetja til þess að ákvörðunin verði endurskoðuð og ekki endanlega frá henni gengið fyrr en öllum þessum einstaklingum hefur verið tryggð atvinna.

Ég er ekki andvígur því að flytja starfsemi af þessu tagi út á landsbyggðina. Ég er ekki andvígur því. En ég er andvígur þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð. Og ég er andvígur því að draga fólk í dilka eins og ríkisstjórnin gerir, ekki aðeins í þessu máli heldur í öllum kerfisbreytingum sem hún ræðst í.

Hér í salnum stendur ágætur ráðherra, hæstv. umhv.- og landbrh. (Forseti hringir.) Hann verður yfirmaður í nýjum Íbúðalánasjóði. Það er tekið tillit til hans aðstæðna. Það er spurt hvenær honum henti að taka við nýju starfi jafnvel þótt að það stríði gegn hagsmunum viðkomandi stofnunar. (Gripið fram í.) En gagnvart þessum óbreyttu ... (Gripið fram í: Hann vildi nú hafa þetta öðruvísi.) Hann vildi hafa það öðruvísi sjálfur og menn hafa þetta náttúrlega í flimtingum, vegna þess að það er hægt að grínast með það þegar 25 manns eru að missa atvinnu sína.

Ég hvet hæstv. félmrh. til þess að endurskoða þessa ákvörðun þar til öllum þeim sem hér eru að missa atvinnu vegna ákvörðunar hæstv. félmrh. er tryggð vinna til frambúðar.