Flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:24:05 (994)

1998-11-05 17:24:05# 123. lþ. 21.92 fundur 96#B flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:24]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Þetta er dálítið merkileg umræða utan dagskrár. Nefnd, starfsnefnd, undirbjó hið nýja kerfi og ég þykist vita að vinnubrögðin hafi verið afar eðlileg og eins og vænta mátti. Þeir stóðu sig vel á Króknum að fá þetta verkefni og eru fullfærir um að sinna því. Þar bætast við átta til tíu störf en ekki 25 þó að talað sé um að 25 fari héðan.

Það er merkilegt með hv. þm. Stór-Reykjavíkursvæðisins að það kemur heldur betur við kaunin á þeim þegar störf fara héðan, þegar eitthvað leggst niður hér. Kannski geta þeir sett sig í spor okkar landsbyggðarþingmanna þegar við heyrum úr okkar kjördæmum oft og einatt að verið sé að flytja störf í burtu. Ekki tóku margir þingmenn af þessu landsvæði hér þátt í umræðum um brottflutning nokkurra starfa frá Siglufirði, sem eru við loftskeytastöð þar. Mönnum þótti ekki ástæða til að hugsa um það. Verði það að veruleika sem boðað er að loftskeytastöðinn á Siglufirði verði lögð niður, þá tapast þaðan fimm störf og það jafngildir því að 350 störf fari héðan. Ég hugsa að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir mundi þá berja fastar í ræðupúltið en hún gerði áðan.