Flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:31:30 (997)

1998-11-05 17:31:30# 123. lþ. 21.92 fundur 96#B flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:31]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Mér fannst koma fram í máli hæstv. ráðherra að honum finnst honum ekkert koma við hvað verði um fólkið hjá veðdeildinni. Málið er þannig vaxið, ef ég skil málið rétt, að forsvarsmenn Landsbankans vissu ekki að viðræðunum hefði verið slitið og búið væri að semja við Sauðárkrók um þetta mál. Hvernig áttu þeir þá að geta tilkynnt starfsfólkinu um að þeir mundu ekki ná samningi varðandi áframhaldandi starfsemi veðdeildarinnar?

Vissulega ber ráðherrann ábyrgð á því að starfsfólkið hefur þurft að hlusta á það í fréttum að það væri búið að missa vinnuna. Ég ítreka ósk mína um að hér fari fram utandagskrárumræða við fyrsta tækifæri, þar sem bæði viðskrh., ráðherra bankamála, og ráðherra og atvinnumála hér í landinu verði viðstaddir. Þörf er á ítarlegri umræðu um það hvernig ráðherra getur leyft sér, af mikilli óskammfeilni, að fara með starfsfólk sem um áratuga skeið hefur unnið hjá veðdeildinni. Þetta eru manneskjur sem eiga rétt á því að eðlilega verði að þessum málum staðið.

Ég vil ítreka, herra forseti, að þó ráðherrann sé að tala um sparnað í þessu efni þá fullyrði ég að þó ríkið kunni að spara á þessu er kostnaði í formi aukinna þjónsutugjalda velt yfir á skuldara íbúðalána. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar í þessu máli. Málið hlýtur að verða tekið upp aftur á hv. Alþingi og eftir því hefur verið leitað.