Náttúrufræðistofnun Íslands

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:52:56 (1004)

1998-11-05 17:52:56# 123. lþ. 21.8 fundur 205. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands# frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:52]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, ásamt síðari breytingum sem flutt er á þskj. 223 og er 205. mál þingsins.

Frv. þetta er unnið í umhvrn. í náinni samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands. Frv. sama efnis var lagt fram á Alþingi á 122. löggjafarþingi sl. vor til kynningar en ekki náðist að mæla fyrir því á því þingi. Frv. það sem hér er lagt fram er í megindráttum samhljóða því frv. sem lagt var fram á liðnu þingi en þær breytingar sem orðið hafa á frv. frá þeim tíma lúta að því að leggja niður stjórn stofnunarinnar sbr 2. gr. frv. og skilgreiningu á því hver séu aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar sbr. 3. gr. frv.

Megintilgangur með framlagningu frv. þessa er að gera breytingar á stjórn Náttúrufræðistofnunar þannig að stofnunin verði gerð sjálfstæðari en nú er og að ábyrgð forstjóra stofnunarinnar verði aukin. Þessar breytingar eru í samræmi við breytta stefnu í rekstrarmálum ríkisstofnana og um aukna ábyrgð forstjóra á innri málum stofnana ríkisins sem mótaðar eru í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Gerðar hafa verið breytingar á stjórnarfyrirkomulagi nokkurra stofnana sem heyra undir umhvrn. í samræmi við ofangreint. Sem dæmi má nefna að með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, kom forstjóri í stað stjórnar sem var yfir Hollustuvernd ríkisins samkvæmt eldri lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988.

Ég mun nú gera grein fyrir efnisatriðum frv. Þar er fyrst að nefna að lagt er til að stjórn Náttúrufræðistofnunar verði lögð niður og að forstjóri stofnunarinnar komi í hennar stað og beri þær skyldur sem stjórnin hefur haft. Stjórn Náttúrufræðistofnunar hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar samkvæmt gildandi lögum. Hún hefur m.a. það hlutverk að fjalla um starfs- og fjárhagsáætlun stofnunarinnar og fara yfir fjárhagsáætlanir setra og fylgjast með fjárhag þeirra og ráðstöfun fjár. Hér er því lagt til að forstjóri stofnunarinnar beri alla ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og fjárreiðum hennar. Jafnframt er lagt til að gerðar verði kröfur til menntunar og starfsreynslu forstjóra stofnunarinnar en hann skal samkvæmt frv. þessu hafa háskólamenntun og þekkingu á verksviði stofnunarinnar. Engar kröfur eru gerðar til menntunar eða þekkingar forstjóra í gildandi lögum, sem hlýtur að teljast óeðlilegt þegar í hlut á stofnun sem byggir starfsemi sína á sérþekkingu á sviði náttúrufræði og um er að ræða fræðistofnun.

Einnig er lögð til sú breyting að forstjóri stofnunarinnar skipi forstöðumenn setra í stað ráðherra, eins og nú er. Þar sem forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands er eini embættismaður stofnunarinnar í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er hér lagt til, í samræmi við þau lög, að hann verði einn skipaður af ráðherra til fimm ára eins og samkvæmt gildandi lögum, en aðrir starfsmenn stofnunarinnar skulu ráðnir af forstjóra. Þessir formenn setra eru tveir. Setrin eru í Reykjavík og á Akureyri.

Lögð er til breyting á 4. gr. gildandi laga varðandi aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands þannig að mælt sé fyrir um það í lögum að stofnunin skuli hafa það hlutverk að skrá berg- og jarðgrunna landsins með kerfisbundnum hætti og vinna að flokkun námasvæða eftir efni, magni, aðgengi, gæðum og verndargildi og skapa þannig grunn fyrir áætlun til langs tíma um nýtingu og verndun jarðefna á einstökum landsvæðum.

Sú breyting sem hér er gerð tillaga um er í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, sem staðfest var af ríkisstjórninni í febrúar 1997.

Að lokum er lögð til breyting á 15. gr. gildandi laga þannig að örverur, sem uppruna sinn eiga á jarðhitasvæðum, og erfðaefni þeirra megi ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni.

Í samningnum um líffræðilega fjölbreytni, sem Ísland fullgilti 4. nóvember 1994 og tók gildi 11. desember sama ár er viðurkennt að þau verðmæti sem finna má í lífríki einstakra landa tilheyri upprunalandinu og að utanaðkomandi sé óheimilt að hagnýta sér slík verðmæti án samþykkis og eftirlits viðkomandi lands. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er verið að tryggja markmið samningsins að þessu leyti.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir þær breytingar sem koma fram í frv. og ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um þessi efni, enda mun hv. umhvn. taka málið til ítarlegrar umfjöllunar. Eins og komið hefur fram var frv. sama efnis lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi sem ekki gafst tími til að mæla fyrir þá. Ég legg því áherslu á að frv. nái fram að ganga fyrir áramót, ef nokkur kostur er, enda nauðsynlegt að gera þær breytingar sem frv. mælir fyrir um hið fyrsta. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.