Náttúrufræðistofnun Íslands

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 18:04:07 (1007)

1998-11-05 18:04:07# 123. lþ. 21.8 fundur 205. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[18:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi finnst mér ánægjulegt og gott að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess sem ég hef kallað menntahroka og misskildar kröfur sem menn eru að setja fram til ráðningar í forstjórastörf í opinberum stofnunum. En staðreyndin er sú að þetta er ekki einskorðað við þessa tilteknu stofnun heldur á þetta almennt við um stofnanir ríkisins, að þar hefur þetta lagaákvæði verið sett inn og án nokkurra skilgreininga eða takmarkana. Ég hef áður gagnrýnt þetta og lýst yfir andstöðu við það.

Það er rétt að það er í anda laganna um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem voru samþykkt á sínum tíma, að auka forstjóraræðið, forstjóraveldið, og draga úr lýðræðislegri stjórnun. Hins vegar er ekkert í þessum lögum, að því ég man best eftir, sem bannar að í stofnunum séu stjórnir og að þessar stofnanir lúti lýðræðislegu valdi slíkra stjórna. Það er því ekki af neinni lagalegri nauðsyn sem stjórnir stofnana á borð við þessa, Náttúrufræðistofnun ríkisins, eru settar af. Því vil ég mótmæla.