Breyting á stjórnsýslu lögreglustjóraembættisins

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 13:33:24 (1009)

1998-11-11 13:33:24# 123. lþ. 22.91 fundur 100#B breyting á stjórnsýslu lögreglustjóraembættisins# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[13:33]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Í fyrirspurnatíma í síðustu viku spurði ég hæstv. forsrh. hvort hann eða ríkisstjórnin hygðist taka fram fyrir hendur á hæstv. dómsmrh. ef fram færi sem horfði að framkvæmdar yrðu umfangsmiklar skipulagsbreytingar í stjórnsýslu lögreglunnar í trássi við lög.

Í svari hæstv. forsrh. kom tvennt fram. Í fyrsta lagi að þessar skipulagsbreytingar í stjórnsýslu lögreglunnar hefðu ekki verið ræddar í ríkisstjórn. Og í öðru lagi að ef skipurit og lög stönguðust á giltu lögin.

Ég hef sýnt fram á að þær skipulagsbreytingar sem VSÓ-verkfræðistofan hefur lagt til varðandi stjórnsýslu lögreglunnar stangast á við lög, 6. gr. lögreglulaga. Nú hefur komið á daginn að verið er að framkvæma skipulagsbreytingar í samræmi við ráðleggingar VSÓ-verkfræðistofunnar.

Ég vil vekja athygli Alþingis á þessum vinnubrögðum og leyfi mér hér með að fara fram á að í næstu viku fari fram umræður í þinginu vegna þessara vafasömu vinnubragða. Ég beini því til hæstv. forseta að athygli ríkisstjórnarinnar og forsrh. verði vakin á þessu máli.