Bann við kynferðislegri áreitni

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 13:36:12 (1011)

1998-11-11 13:36:12# 123. lþ. 22.3 fundur 24. mál: #A bann við kynferðislegri áreitni# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[13:36]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um bann við kynferðislegri áreitni þriðja þingið í röð. Um er að ræða breytingu á tveimur lagabálkum, þ.e. breytingu á jafnréttislögum og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Áður en ég kem að þingskjalinu sjálfu langar mig, herra forseti, að vekja athygli á því hve andrúmsloftið og viðhorfin til kynferðislegrar áreitni hafa breyst gífurlega mikið frá því ég fjallaði um kynferðislega áreitni í sölum Alþingis utan dagskrár árið 1995, um það leyti sem svokallað biskupsmál var í algleymingi. Þá heyrðust þær raddir að óviðeigandi væri að fjalla um kynferðislega áreitni úr stól Alþingis.

Síðan hefur mikið gerst á þessu sviði þó að Alþingi hafi ekki enn séð ástæðu til að samþykkja breytt lög eða tillögur um aðgerðir á þessu sviði. Fljótlega eftir utandagskrárumræðuna sem ég nefndi áðan lagði ég fram till. til þál. um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni. Sú tillaga var ekki samþykkt en hefur verið töluvert rædd í þjóðfélaginu og notuð til leiðbeininga fyrir þær stofnanir sem eru af alvöru að taka á þessum málum. Full þörf er á að endurflytja þá tillögu jafnvel þótt það frv. sem nú er til umræðu verði samþykkt því stofnanir skortir hvatningu til fræðslu og til að koma sér upp skýrum farvegi fyrir mál af þessu tagi. Þó má benda á að í nýútkominni bók um kynferðislega áreitni á vinnustöðum sem kom út í þessari viku á vegum skrifstofu jafnréttismála og Vinnueftirlits ríkisins er að finna mjög góðar leiðbeiningar bæði fyrir fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga til að taka á áreitni á vinnustöðum og mun ég koma nánar að því síðar í máli mínu.

Þau fyrirtæki og stofnanir sem þegar hafa tekið af festu á þessum málum eru t.d. Íslandsbanki, þjóðkirkjan og biskupsstofa en þau hafa nú skipað bæði jafnréttisnefnd og sérstaka áætlun sem snertir kynferðislega áreitni og er það vel og til eftirbreytni. Þá má nefna samtök verslunarinnar og Verslunarmannafélag Reykjavíkur sem hafa fjallað um þessi mál sérstaklega í starfshópi og gefið út veggspjald og bækling þar sem gerð er grein fyrir hvernig kynferðisleg áreitni birtist, hvaða afleiðingar hún kann að hafa og mögulegar ráðstafanir innan fyrirtækja. Þessi bæklingur er mjög aðgengilegur og mjög til fyrirmyndar að hann skuli hafa verið gerður. Sérstaklega er líka áhugavert að samtök verslunarinnar taki sig saman því þetta er oft mjög erfitt mál á litlum vinnustöðum þar sem kannski er aðeins einn eða tveir starfsmenn auk atvinnurekenda ef um það er að ræða. Ég tel að þetta átak þeirra hjá samtökum verslunarinnar sýni vel hve verkalýðsfélögin gegna miklu hlutverki og trúnaðarmenn á vinnustöðum ættu að vera alveg lykilaðilar á þessu sviði.

Háskóli Ísland hefur þurft að glíma við vandamál af þessum toga eins og flestir háskólar í heiminum. Hann hefur núna skipað fastanefnd um jafnréttismál sem m.a. vinnur að því að kvartanir um kynferðislega áreitni fái skýra og viðunandi málsmeðferð innan skólans. Mér finnst þó að nokkuð vanti á innan háskólans að málin séu komin í jafnskýran farveg og t.d. hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og vonast ég til að sjá bækling eða annað af þeim toga þar.

Ég sé fyrir mér að allir skólar, ekki bara Háskóli Íslands, þyrftu í raun að gera hið sama og aðrir vinnustaðir og því væri mjög eðlilegt að kennarasamtökin brygðust við eins og önnur verkalýðsfélög. Kynferðisleg áreitni getur átt sér stað á milli nema og kennara víðar en í háskólum. Og fjölmargar erlendar rannsóknir eru til um slík vandamál á milli kennara eins og milli starfsmanna í öðrum fyrirtækjum og stofnunum yfirleitt.

Fljótlega eftir að þessi þáltill. var lögð fram lagði ég fram fyrstu útgáfuna af því frv. sem nú er til umræðu, þ.e. á þinginu 1995--1996. Það frv. var síðan lagt aftur fram á síðasta þingi eftir ítarlega umsögn fjölmargra stofnana og nefnda í þjóðfélaginu sem almennt voru mjög fylgjandi því að samþykkja þetta frv. um bann við kynferðislegri áreitni. Sama vil ég segja um fjölmarga einstaklinga sem hafa haft samband við mig út af þessum málum og það er alveg ljóst að það sem við heyrum er bara toppurinn á ísjakanum.

Þrátt fyrir þessar góðu undirtektir flestra stofnana úti í bæ hefur stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ekki verið því sammála að samþykkja frv. Því hefur málið setið fast í nefnd og þinginu hefur ekki gefist tækifæri til að greiða atkvæði um málið, enda alls ekki sama hvort mál af þessu tagi kemur frá stjórn eða stjórnarandstöðu. Örlög stjórnarandstöðumála eru oftast þau að deyja í nefndum þó að þau geti haft veruleg áhrif á umræðuna í þjóðfélaginu. Ég vil ekki vera óréttlát gagnvart stjórnvöldum heldur líta nánar á þeirra aðgerðir. Í því sambandi vil ég nefna einkum þrennt sem tengist afstöðu þeirra til kynferðislegrar áreitni.

Í fyrsta lagi segir í framkvæmdaáætlun um jafnrétti kynjanna frá árinu 1993 að gera eigi könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og á grundvelli hennar ætti síðan að sporna við ástandinu ef ástæða þætti til. Sú könnun var gerð árið 1996 og niðurstöður hennar birtust nýlega eins og áður sagði og er það vel. Ég kem nánar að því á eftir.

Í öðru lagi segir í núgildandi framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna frá 1998--2001 í lið 3.15:

,,Félagsmálaráðuneytið mun beita sér fyrir því að unnin verði áætlun eða lagt verði fram frumvarp til laga sem hafi það að markmiði að útrýma kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og í skólum.``

[13:45]

Í þriðja lagi að þótt þetta frv. mitt hafi ekki hlotið framgang á Alþingi sl. tvö ár, né heldur tillagan um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum, sá hæstv. ráðherra jafnréttismála, Páll Pétursson, ástæðu til að koma með yfirlýsingu um það í fyrri viku að til standi að setja inn ákvæði um bann við kynferðislegri áreitni í þau jafnréttislög sem eru nú í smíðum, þ.e. stjórnvöld hafa loks viðurkennt að slík lögfesting sé æskileg og í takt við löggjöf nágrannalandanna. Ætlunin er að koma með stjórnarfrv. um málið einhvern tímann á þessu þingi. Fróðlegt verður að sjá hvort þetta frv. kemur fram og hlýtur afgreiðslu á þessu kjörtímabili, ef ekki þá hafa stjórnvöld þann kost að afgreiða það frv. sem er til umræðu og hefur verið síðustu þrjú ár.

Í fjórða lagi varðandi aðkomu íslenskra stjórnvalda tek ég fram að skrifstofa jafnréttismála hefur unnið markvisst og vel að þessum málum, bæði með útgáfu sérstaks bæklings um kynferðislega áreitni, með þátttöku í áðurnefndri könnun og útgáfu á henni. Þá má benda á að í ágætum bæklingi skrifstofu jafnréttismála um jafnréttisáætlanir, sem er nýlega kominn út, er á bls. 14 fjallað skilmerkilega um kynferðislega áreitni á vinnustað.

Herra forseti. Hér er að mínu mati enn eitt dæmið um áhrif stjórnarandstöðu og kannski ekki síst um áhrif okkar kvennalistakvenna á jafnréttismálaumræðuna. Við komum fyrstar með frv. eða hugmyndir sem ná ekki fram að ganga en smám saman hafa þessi mál áhrif á umræðuna af því þau eru oft í takt við það sem er að gerast í þjóðfélaginu og í nágrannalöndunum og smátt og smátt taka stjórnvöld þessi mál upp á sína arma og gera þau að sínum. Er það vel ef þau komast einhvern tímann í gegn. Vissulega þurfa mál af þessu tagi ákveðinn gerjunartíma og líklega er þjóðfélagið almennt mun tilbúnara nú en fyrir þremur árum að taka af festu á þessum málum sem vefjast þó enn fyrir fólki. Mér virðist ekki síst hafa orðið mikil breyting á afstöðu fréttamanna sem voru fullir efasemda um málið í upphafi en það er eins og þeir skilji mun betur nú um hvað málið snýst og séu tilbúnir að ræða það málefnalega en ekki með skætingi.

Herra forseti. Ég ætla þá að snúa mér að þingskjalinu. Það er þskj. 24, 24. mál, frv. til laga um bann við kynferðislegri áreitni. Flm. auk mín eru Sigríður Jóhannesdóttir, Hjálmar Árnason, Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir og Össur Skarphéðinsson.

Frv. er stutt. Það er eingöngu þrjár efnisgreinar auk gildistökugreinar og ég ætla því að lesa þær en 1. gr. er um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og þar segir:

Á eftir 5. gr. laganna komi ný grein sem orðist svo: ,,Kynferðisleg áreitni á vinnustað og í skóla er bönnuð. Atvinnurekendur og yfirmenn skulu gera sérstakar ráðstafanir til að sporna við því að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar í trúnaðarsambandi verði fyrir kynferðislegri áreitni eða annarri ósæmilegri framkomu á vinnustað eða í skólum.``

Síðan kemur skilgreining á kynferðislegri áreitni og hún er inni í frumvarpsgreininni og það er mjög mikilvægt:

,,Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu, hvort sem hún er líkamleg, orðbundin eða myndræn, og sem haldið er áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.``

Í athugasemdum með þessari grein segir m.a. að þarna sé ,,lagt til að inn í jafnréttislögin komi skýrt bann við kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og í skólum og að atvinnurekendur og yfirmenn skuli gera sérstakar ráðstafanir til að sporna við því að starfsfólk, nemar eða skjólstæðingar í trúnaðarsambandi verði fyrir kynferðislegri áreitni og annarri ósæmilegri framkomu á vinnustað eða í skólum. Gert er ráð fyrir að vitneskja atvinnurekenda sé forsenda bótaskyldu hans [og með því er ég að vísa í hún kemur skýrt fram í jafnréttislögunum], þ.e. starfsmaður, nemi eða skjólstæðingur þarf að láta atvinnurekanda, yfirmann skóla eða stofnunar vita að hann verði fyrir kynferðislegri áreitni til að viðkomandi fái tækifæri til að beita öllum nauðsynlegum ráðstöfunum til að stöðva athæfið. Einungis ef hann gerir það ekki verði atvinnurekandi eða yfirmaður bótaskyldur þó að athafnir gerandans séu ætíð refsiverðar.`` --- Þess vegna er mjög mikilvægt að atvinnurekendur bregðist skjótt við ef lagaákvæði af þessu tagi er samþykkt. Þeir verða í raun og veru að koma upp ákveðnum farvegi innan fyrirtækja sinna.

,,Hins vegar er hér verið að lögfesta skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Skilgreiningin er byggð á þeim megineinkennum kynferðislegrar áreitni sem reynsla og rannsóknir sýna að skipta meginmáli, þ.e. að um óvelkomna hegðun er að ræða að mati viðkomandi einstaklings, og að hegðunin er endurtekin þrátt fyrir það að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Stuðst er m.a. við skilgreiningar og leiðbeiningarreglur Evrópusambandsins um kynferðislega áreitni. Eitt tilvik getur þó talist kynferðisleg áreitni ef það er nægilega alvarlegt og því þykir rétt að bæta því við skilgreininguna.`` --- Þetta er í samræmi við reglur Evrópusambandsins og fleiri.

,,Með orðalaginu ,,annarri ósæmilegri framkomu`` er m.a. átt við einelti í víðari merkingu en einnig má benda á ákvæði 209. gr. almennra hegningarlaga um brot gegn blygðunarsemi.`` Þetta var um 1. gr. frv.

Í 2. gr. er líka lögð til breyting á jafnréttislögunum og þar segir:

Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:

,,Atvinnurekendum, yfirmönnum, samstarfsmönnum og kennurum er óheimilt að láta kvartanir starfsfólks eða nema um kynferðislega áreitni eða kynjamismunun bitna á starfi þeirra eða námi, starfsöryggi, starfskjörum eða mati á árangri í starfi eða námi.`` Þessi grein er efnislega svipuð 22. gr. sænsku jafnréttislaganna og skýrir sig að mestu leyti sjálf.

3. gr. frv. er um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum frá 1980 og lagt er til að hún hljóði svo:

,,C-liður 65. gr. laganna orðast svo: stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna. Ákvæði þetta á m.a. við bann við kynferðislegri áreitni og annarri ósæmilegri framkomu sem beinist að kynferði einstaklinga.``

Hér er lagt til að breyting verði gerð á c-lið 65. gr. þessara laga. Þetta ákvæði á sér samsvörun í norsku vinnuverndarlöggjöfinni en þar segir að starfsmenn skuli ekki verða fyrir kynferðislegri áreitni eða annarri ósæmilegri hegðun. Í greinargerð með norska frumvarpinu er vísað í það megineinkenni kynferðislegrar áreitni að það sé óvelkomin hegðun að mati þess sem fyrir henni verður. Þetta kemur líka fram í skilgreiningu Evrópusambandsins, þ.e. sá sem verður fyrir áreitinu verður sjálfur að meta hvað er áreitni og hvað ekki. Það sem einn þolir, t.d. eitthvert káf eða klámplaköt á veggjum á vinnustöðum, þolir ekki annar og það er því hvers og eins að segja: Þetta finnst mér niðurlægjandi, þetta finnst mér óþægilegt. Ég óska eftir að þetta verði tekið niður. Allir eru sammála því að þessar skilgreiningar verði að byggjast á mati hvers og eins. Enda er ekkert saknæmt ef fólk segir bara: Heyrðu, viltu gjöra svo vel að hætta að snerta mig eða viltu gjöra svo vel að taka þetta niður. Það er ekki fyrr en það er orðið endurtekið atferli að þarna fer að eiga sér stað einelti eða kynferðisleg áreitni.

Í 4. gr. segir: ,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Það er lagt til að frv. verði þegar að lögum því um mjög brýnt mál er að ræða sem hefur væntanlega fyrirbyggjandi áhrif fyrir ýmsa aðila úti í atvinnulífinu, m.a. vegna þess að löggjöfin mun hvetja til þess að atvinnurekendur og stofnanir úti í þjóðfélaginu taki markvisst á þessum málum.

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að tipla á meginatriðum úr grg. með frv. áður en ég kem síðan að niðurstöðum úr íslensku könnuninni sem eru mjög athyglisverðar en þessi könnun var einmitt birt í vikunni. Eins og segir í greinargerðinni, þar er minnt á að þetta frv. er lagt fram þriðja árið í röð og umsagnir hafa borist frá mjög mörgum aðilum og ég vil telja upp: Jafnréttisráð, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa, Alþýðusamband Íslands, jafnréttisráðgjafann í Reykjavík, jafnréttisfulltrúa Akureyrar, biskup Íslands, Vinnueftirlit ríkisins, Kvennaathvarfið, Kvenfélagasamband Íslands, Læknafélag Íslands, Stígamót, Kvennaráðgjöfina, félagsmálaráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og laganefnd Lögmannafélags Íslands. Ef frá er talinn síðastnefndi aðilinn telja allir sem umsagnir sendu að löggjöf af þessu tagi sé þörf og langflestir mæla með að frv. verði lögfest óbreytt. Efnislegar athugasemdir komu einnig fram og tekið hefur verið mið af þeim þegar ástæða þykir til. Kynferðisleg áreitni hefur mikið verið til umfjöllunar, bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, og ég ætla nú ekki að minnast á Bandaríkin í þessu sambandi. Ein ástæðan fyrir því að fólk er opnara fyrir umræðu um þessi mál núna en oft áður er örugglega það stórmál sem átt hefur sér stað hjá Clinton Bandaríkjaforseta. Ég vil af því tilefni vekja athygli á því að það sem gerðist væntanlega milli hans og Monicu Lewinsky var ekki kynferðisleg áreitni, og hvers vegna ekki? Jú, vegna þess að þarna var um að ræða aðila sem virtust báðir sáttir við það sem gerðist. Þá er ekki um kynferðislega áreitni að ræða. Hins vegar hafði Paula nokkur Jones sakað forseta Bandaríkjanna um kynferðislega áreitni og mér vitanlega er það mál ekki endanlega útkljáð fyrir dómstólum. En það er mjög mikilvægt að gera greinarmun á því að það er ekki áreitni ef báðir aðilar vilja. (Gripið fram í: Það liggur í hlutarins eðli.) Já, er það ekki? Gott.

[14:00]

Flest aðildarríki Evrópusambandsins hafa gripið til ráðstafana á þessu sviði, svo sem lagasetninga, fræðsluherferða eða leiðbeinandi reglna fyrir vinnustaði og menntastofnanir. Í Belgíu, Hollandi og Frakklandi hafa verið sett sérstök lög um kynferðislega áreitni og slík löggjöf er nú í undirbúningi í Austurríki og Hollandi. Í Svíþjóð og nokkrum öðrum Evrópuríkjum eru ákvæði um kynferðislega áreitni í jafnréttislögum og/eða í lögum um vinnuvernd, eins og t.d. í Noregi. Innan Evrópusambandsins er nú unnið að sérstakri tilskipun um kynferðislega áreitni sem væntanlega mun einnig taka til Evrópska efnahagssvæðisins. Það er því vissulega tímabært að við tökum með festu á þessum málum hér.

Ég er á því að ekki sé nauðsynlegt, a.m.k. ekki að svo stöddu, að við setjum sérstaka löggjöf um kynferðislega áreitni heldur sé eðlilegt að þetta fari inn í jafnréttislögin og vinnuverndarlöggjöfina eins og hér er lagt til. Í Svíþjóð og Noregi hefur það verið gert og haft það í för með sér að stofnanir hafa komið sér upp markvissum farvegi til að taka á þessum málum, hvort sem um er að ræða fyrirtæki, verkalýðsfélög, háskóla eða aðrar menntastofnanir.

Kynferðisleg áreitni var gerð refsiverð með lögum nr. 40/1992, um breyting á almennum hegningarlögum. Ákvæði þar að lútandi er að finna í 198. gr., 200. gr., 201. gr. og 202. gr. hegningarlaganna.

Ekki er að finna í lögum nr. 40/1992 skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Í grg. með frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, frá 1992 er hins vegar að finna skilgreiningu sem að mati okkar flutningsmanna þessa frumvarps er ekki nægjanlega skýr miðað við reynslu og rannsóknir á þessu fyrirbæri. Skilgreiningin í þeirri grg. er eftirfarandi:

,,Um er að ræða háttsemi sem ekki telst slík misnotkun á líkama að hún komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt. Átt er við ýmiss konar káf, þukl og annars konar líkamlega snertingu og ljósmyndun af kynferðislegum toga.`` Þá segir í greinargerðinni að rétt þyki að veita slíkri háttsemi meiri athygli en áður og taka harðara á brotum. Ekki er gerð tillaga um að breyta fyrrnefndum ákvæðum almennra hegningarlaga þar sem rétt þykir að fá meiri reynslu af hvernig þau nýtast. Hér er lagt til að skilgreining á kynferðislegri áreitni verði lögbundin og að sú skilgreining, ef lögfest verður, verði lögð til grundvallar skýringu og túlkun þessara ákvæða almennra hegningarlaga til viðbótar við þá skilgreiningu sem er í greinargerðinni með lögum nr. 40/1992. Frá árinu 1992 hefur lítið reynt á fyrrnefnd ákvæði almennra hegningarlaga. Nýlega hafa þó fallið tveir dómar um kynferðislega áreitni. Athyglisvert er að í báðum dómunum er um karlmenn að ræða, þ.e. karlmenn að áreita karlmenn. Það er athyglisvert vegna þess að allar tiltækar kannanir benda til að konur verði mun oftar fyrir kynferðislegri áreitni en karlar. Hins vegar er greinilega erfiðara að sjá hvar mörkin liggja og konur virðast frekar veigra sér við að kæra þetta en karlar.

Það er eindregin skoðun flutningsmanna að mikilvægt sé að lögfesta skilgreiningu á kynferðislegri áreitni. Í skilgreiningunni sem sett er fram í 1. gr. frumvarpsins er áhersla lögð á það megineinkenni kynferðislegrar áreitni að hegðunin er óvelkomin. Það er því mat einstaklingsins sem ræður því hvaða hegðun er viðurkennd og hvaða hegðun er óvelkomin. Kynferðisleg hegðun verður áreitni ef henni er haldið áfram þrátt fyrir að það hafi verið gefið skýrt í skyn að hún sé óvelkomin. Þó getur eitt tilvik talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt. Hér er m.a. stuðst við eftirfarandi skilgreiningu og útlistun Evrópusambandsins á kynferðislegri áreitni í starfsreglum frá 1992 (Code of practice: On measures to combat sexual harassment). Ítarleg grein er gerð fyrir þeim í grg. með frv. og ætla ég ekki að lesa það hér.

Ef við víkjum að rannsóknum þá hafa rannsóknir í háskólum á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum bent til að 10--20% kvenna verði fyrir kynferðislegri árreitni í skólum en allt upp í 40% þegar um æðri námsgráður er að ræða. Meðal karla eru tölurnar töluvert lægri. Samkvæmt könnun jafnréttisnefndar Helsinkiháskóla árið 1995 töldu 10,8% starfsfólks og 5,5% stúdenta sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég mun ljúka máli mínu í annarri ræðu minni um málið.