Húsnæðissparnaðarreikningar

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 14:52:48 (1018)

1998-11-11 14:52:48# 123. lþ. 22.4 fundur 61. mál: #A húsnæðissparnaðarreikningar# (heildarlög) frv., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[14:52]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að taka undir það sem lagt er til í frv. Lögum um félagslegt húsnæði hefur verið breytt og það mun skapa ýmis vandkvæði á vinnumarkaði, þ.e. gagnvart þeim hópi sem hefur átt þar aðgengi. Þeim hópi er nú frekar beint inn í húsbréfakerfið og annað þó það fólk eigi mjög erfitt með þessa lágmarksútborgun þannig að með því að geta safnað þessu held ég að ný leið skapist fyrir það fólk sem lenda mun í vanda vegna breytinga á félagslega húsnæðiskerfinu.

Ljóst er að sparnaður í samfélaginu er allt of lítill og frá því að þessi lög voru afnumin hafa engar nýjar leiðir verið farnar. Þar á undan var skyldusparnaður felldur út en hann var oft sú leið sem ungt fólk átti til að hefja búskap með einhverri útborgun. Ég þekki mýmörg dæmi þess að sú leið og húsnæðissparnaðarreikningarnir hafi verið höfuðstóllinn sem gerði það að verkum að fólk gat keypt sér íbúð. Ég held að þetta sé mjög gott mál og hvet til að þetta verði samþykkt. Ég held einnig að viðhald húsnæðis sé hið besta mál.

Mér finnst hugsanlegt að endurskoða regluna um 67 ára aldurinn miðað við að nú eru sveigjanleg starfslok töluvert í umræðunni út frá breytingu á reglugerð um lífeyrissjóði. Þar væri mögulegt að ganga fremur út frá 65 ára aldri en þessir reikningar, sem á sínum tíma voru kallaðir húsnæðissparnaðarreikningar, nýttust einnig sem lífeyrissparnaður hjá fólki. Það gat komið sem innlegg þegar fólk hætti störfum og ég held að það sé einmitt mjög góð leið til að auðvelda fólki að flýta starfslokum sínum.