Húsnæðissparnaðarreikningar

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 14:54:54 (1019)

1998-11-11 14:54:54# 123. lþ. 22.4 fundur 61. mál: #A húsnæðissparnaðarreikningar# (heildarlög) frv., Flm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[14:54]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tekið hafa þátt í umræðunni um þetta mál fyrir góðar undirtektir og gagnlegar ábendingar. Ég ætla í örstuttu máli að fara yfir nokkrar þessara ábendinga.

Hv. þm. Guðjón Guðmundsson gerði 3. gr. að umtalsefni og sérstaklega það ákvæði að þeir sem orðnir eru 65 ára eða eru 75% öryrkjar geti fengið fé sitt til frjálsrar ráðstöfunar að fimm árum liðnum. Hann velti því fyrir sér hvort ekki væri rétt að hafa þessi ákvæði enn rýmri, ekki síst gagnvart öryrkjunum. Þetta finnst mér gagnleg ábending og sjálfsagt að taka til rækilegrar skoðunar í hv. efh.- og viðskn. Ákvæðin sem þarna eru eru óbreytt frá lögunum 1985 en vel getur verið að full ástæða sé til þess að skoða þau með það fyrir augum að auðvelda t.d. þeim sem verða öryrkjar að nýta þann sparnað sinn til að koma til móts við þær sérstöku aðstæður sem oft geta snögglega skapast. Mér finnst koma sterklega til greina að skoða þetta mál.

Varðandi hugleiðingar hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar um frekar flókið kerfi í ákvæðum 2. gr., um hámarksupphæðir, lágmarksupphæðir og ársfjórðungsgreiðslur, þá kann að vera að þetta líti út fyrir að vera flókið á pappírnum en í raun og veru er þarna verið að búa til ákveðinn sveigjanleika sem nauðsynlegt er að hafa. Jafnvel utan þess ramma sem þarna er settur er hægt að semja um lækkun á framlögum ef sérstakar aðstæður koma upp. Þess ber hins vegar að geta að sjálf grundvallarhugmyndin á bak við þessa reikninga er að búa til samningsbundinn sparnað. Það að sparnaðurinn er samningsbundinn og tekur lengri tíma er hin raunverulega sparnaðaraðgerð og hvetur eigendur húsnæðissparnaðarreikninganna til þess að skipuleggja fjármál sín fram í tímann og taka tillit til þess hver sparnaðargeta þeirra er þegar þeir semja áætlanir sínar til ársins.

Engu að síður eru í 3. mgr. 2. gr. heimildir til þess að bregðast við aðstæðum. Ef tekjur minnka skyndilega, þá er hægt að breyta þessum samningum með tilliti til aðstæðna.

Að vísu alveg hárrétt hjá hv. þm. að stundum virka svona reglur flóknar og svolítið fráhrindandi en yfirleitt hafa innlánastofnanir veitt mjög góða ráðgjöf í sambandi við þetta. Það hefur ekki komið fram, a.m.k. ekki í þeim viðtölum sem ég hef átt við innlánastofnanir út af þessu máli, að þetta hafi verið hindrun í málinu.

Sú gagnrýni sem einna helst kom fram á húsnæðissparnaðarreikningana eins og þeir voru samkvæmt eldri lögum var fyrst og fremst sú að talið var að þeir hefðu verið misnotaðir ef svo má segja sem almennir sparnaðarreikningar en til þess voru þeir ekki ætlaðir. Sumir álíta reyndar að ekki eigi að nota hugtakið misnotkun um slíkt, það sé almennt gott að spara en þá ber að geta þess að í markmiðssetningu laganna var það áskilið að þetta sparnaðarform væri tekið upp til húsnæðiskaupa. Því ber að gera þær breytingar á þessum lögum sem lúta að því að menn noti reikningana fyrst og fremst til húsnæðiskaupa eða til viðhaldsverkefna eins og hér er tekið fram. Það er einmitt í þeim tilgangi sem 3. mgr. 3. gr. hefur verið sett inn. Hún gerir ráð fyrir því að ef menn nýta ekki reikningana eins og til er ætlast þá glati þeir skattafslættinum. Það á hins vegar ekki við um þá sem sérstaklega eru tilgreindir í 3. gr., þ.e. þá sem eru orðnir 67 ára eða eru 75% öryrkjar. Þeir fá féð til frjálsrar ráðstöfunar eins og sjálfsagt er.

Þetta eru helstu athugasemdirnar sem hér hafa komið fram. Ég vil taka það fram að þegar þessir reikningar voru í gildi fóru þeir hægt af stað, eftir því sem mér er tjáð, en undir lok gildistíma þeirra var þetta orðið vinsælt sparnaðarform. Vera kann að það að þessir reikningar voru notaðir sem almennt sparnaðarform hafi haft á þá einhver áhrif. Ég held hins vegar að ef gerð væri sérstök tilraun til að markaðssetja þessa reikninga og tilgang þeirra, þá ekki síst gagnvart ungu fólki, þá mundi það verða til þess að þeir yrðu nýttir eins og til er ætlast. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það er hárrétt sem komi hefur fram að þetta getur haft mjög mikil áhrif á sparnaðinn.

[15:00]

Ef til vill er helsta brotalöm á húsnæðiskerfi okkar sú að skattaívilnanirnar sem nú eru til í landinu og mikið notaðar eru eyðsluhvetjandi ívilnanir. Vaxtabæturnar eru eyðsluhvetjandi því að þær taka ekki tillit til þess hversu háir vextirnir eru, þær eru hlutlausar gagnvart vaxtastiginu. Þetta hefur m.a. orðið til þess að nú er komið mikið framboð á fé til húsnæðiskaupa. Að sjálfsögðu eru vextirnir hærri en mönnum er boðið upp á í húsnæðiskerfinu en vextirnir skipta ekki öllu máli fyrir kaupandann vegna þess að ívilnanirnar eru þannig að þær hvetja hann beinlínis til eyðslu.

Sá sem ber kostnaðinn af eyðslunni er hins vegar ríkið af því að það veitir ívilnanirnar í gegnum vaxtabætur. Af þeim sökum er eiginlega nauðsynlegt að reyna að skapa meira jafnvægi þarna með því að búa til sérstakar ívilnanir fyrir þá sem spara. Það er ekki síst nauðsynlegt fyrir Íslendinga sem þjóð að ýta undir ráðdeildarhugsun. Eftir að samdráttur hófst hér upp úr 1988 og ýmiss konar erfiðleikar dundu yfir fundu menn mjög til þess að þjóðin hafði ekki verið alin upp á undanförnum áratugum við ráðdeild og sparnað. Þeir erfiðleikar sem þjóðin gekk í gegnum leiddu til þess að menn öguðu sig talsvert í fjármálum miðað við það sem áður var, og það jafnvægi sem hefur skapast í efnahagsmálum og lítil verðbólga hefur einnig ýtt undir að ráðdeild og skipulagning í fjármálum hefur frekar styrkst hér á landi.

Engu að síður er ástandið þannig að við erum ekki sterkir á svellinu í sparnaðinum borið saman við aðrar þjóðir. Þegar kaupmátturinn hefur aukist hefur sá veikleiki okkar aftur komið í ljós, að eyðslan hefur farið á mikla ferð. Þótt viðskiptahalli þjóðarinnar sé að mestu leyti rakinn til mikillar fjárfestingar, sem er til allrar hamingju aftur komin í gang --- var nánast engin um tíma --- þá er ekki hægt að neita því að hluti af þessum viðskiptahalla á rætur að rekja til eyðslu og til þess að það hefur sýnt sig að við höfum ekki náð að skapa langvarandi ráðdeildarsparsemi þó að okkur hafi tekist að búa til tiltölulega mikið jafnvægisástand í efnahagsmálum þjóðarinnar og var kominn tími til þess.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessar ágætu umræður og gagnlegu ábendingar sem fram hafa komið.