Vinnumarkaðsaðgerðir

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 15:20:16 (1022)

1998-11-11 15:20:16# 123. lþ. 22.7 fundur 85. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# (kjara- og vinnumarkaðsrannsóknir) frv., Flm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[15:20]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 13/1997, um vinnumarkaðsaðgerðir. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Þetta frv. er nú flutt öðru sinni örlítið breytt. Það fór til hv. félmn. í fyrra og var sent til umsagnar en frv. kom það seint fram að nefndin náði ekki að taka það til afgreiðslu. Skemmst er frá því að segja að þær umsagnir sem bárust voru mjög jákvæðar. Því vona ég að þar sem frv. kemur þetta snemma fram og fer til nefndar nái það að fá þar góða afgreiðslu.

Frv. gengur út á það, hæstv. forseti, að við tiltölulega nýstofnaða Vinnumálastofnun, sem er til húsa í Hafnarhúsinu á hæðinni fyrir neðan félmrn., verði sett á laggir sérstök deild sem annist kjara- og vinnumarkaðsrannsóknir.

Í 2. gr. frv. er skilgreint hvaða verkefni deildin skuli annast. Þau eru m.a. að fylgjast með þróun launa og annarra þátta er hafa áhrif á launakjör, jafnt á almennum vinnumarkaði sem hjá hinu opinbera.

Að safna upplýsingum um þær breytingar er verða á vinnumarkaði, svo sem um fækkun eða fjölgun starfa, atvinnuleysi, nýsköpun í atvinnulífi og þörf vinnumarkaðarins fyrir vinnuafl, faglært sem ófaglært.

Að kanna orsakir þeirra breytinga er verða á vinnumarkaði og benda á líklega þróun hans.

Að gefa út skýrslur um þróun launamála, ástand á vinnumarkaði og þær breytingar sem á honum verða. Tekið er sérstaklega fram allar tölulegar upplýsingar skulu vera kyn- og aldursgreindar.

Þá er þessari deild falið að fylgjast með þróun erlendis í vinnumarkaðsmálum og miðla upplýsingum um hana.

Að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um þörf vinnumarkaðarins fyrir starfsmenntun, endurmenntun og símenntun.

Og loks að efla rannsóknir á stöðu kvenna á vinnumarkaði.

Eins og heyra má á þessu, hæstv. forseti, eru verkefni þessarar fyrirhuguðu deildar nokkuð víðfeðm en það er skoðun flutningsmanna að við Íslendingar þurfum að taka okkur verulega á hvað varðar rannsóknir á vinnumarkaði. Við stöndum frammi fyrir því að það eru að eiga sér stað og hafa átt sér stað miklar breytingar á íslenskum vinnumarkaði. Í rótgrónum starfsgreinum er störfum að fækka og má þar nefna landbúnað, fiskveiðar og fiskvinnslu, meðan störfum fjölgar í ýmsum þjónustugreinum, svo sem á sviði ferðaþjónustu, hátækni og upplýsingaiðnaðar.

Á meðan störfum fjölgar í sumum þjónustugreinum hefur þeim fækkað í öðrum þar sem tæknin er að leysa mannshöndina af hólmi. Þar má kannski nefna sérstaklega banka- og tryggingakerfið þar sem tölvutæknin er að koma sífellt meira inn í störfin og spara mikið vinnuafl. Miklar breytingar eru að verða á vinnumarkaðnum sem er nauðsynlegt að fylgjast með, nauðsynlegt að hafa nákvæmar upplýsingar um og nauðsynlegt að geta spáð um nánustu framtíð til þess að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins geti áttað sig á því til hvaða aðgerða þurfi að grípa ef einhverra aðgerða er þörf.

Þá er annað sem hefur einkennt íslenskan vinnumarkað það sem af er þessum áratug en það er atvinnuleysi. Á þessum áratug hefur atvinnuleysi verið meira en þekkst hefur síðan á kreppuárunum og þó að verulega hafi dregið úr því á allra síðustu árum sem betur fer er samt töluverður hópur fólks atvinnulaus, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Mjög brýnt er að fylgst sé mjög náið með atvinnuleysinu og þróun þess, greint sé hverjar orsakir eru og stöðugt sé í gangi aðgerðir og kannanir á því hvað hægt sé að gera til þess að halda atvinnuleysinu sem allra mest niðri.

Hæstv. forseti. Þá er mjög nauðsynlegt að til staðar sé góður samanburður á þróun kjara, bæði hvað varðar opinberan vinnumarkað og hinn almenna vinnumarkað og ekki síst að fylgjast með launaþróun milli kynjanna. Rannsóknir á þessu sviði hvað varðar kjör og kjaraþróun hafa verið afskaplega takmarkaðar. Starfandi er kjararannsóknarnefnd sem var sett á laggir á sínum tíma á grundvelli samninga milli aðila vinnumarkaðarins en kjararannsóknarnefnd hefur fyrst og fremst fylgst með mjög ákveðnum hópum á almennum vinnumarkaði, þ.e. verkafólki, verslunarmönnum og iðnaðarmönnum eða þeim sem vinna við verslun, iðnað og verkamanna- og verkakvennastörf.

Lögum samkvæmt er starfandi nefnd sem á að fylgjast með kjörum opinberra starfsmanna en sannleikurinn er sá að upplýsingar berast tiltölulega sjaldan um þróun m.a. launakjara opinberra starfsmanna, þ.e. að okkur sé gert auðvelt að hafa yfirsýn yfir launakjörin og m.a. nú eru launakjör opinberra starfsmanna að ganga í gegnum miklar breytingar og við sem erum að fást við frv. til fjárlaga fyrir næsta ár höfum orðið vör við að mikið er að gerast hjá opinberum stofnunum hvað varðar launakjör. Þar hefur átt sér stað mikil uppstokkun. Samkvæmt tillögunni er þessari deild innan Vinnumálastofnunar falið að hafa yfirsýn yfir alla launaþróun í landinu.

Eins og ég nefndi hefur kjararannsóknarnefnd og nefnd ríkisins fylgst að einhverju leyti með þessum málum en þó mjög takmarkað. Hagstofan heldur saman ákveðnum gögnum um vinnumarkaðinn og Þjóðhagsstofnun gerir kannanir öðru hverju um þörf á vinnuafli en hér er um það að ræða að þessu verði öllu safnað undir einn hatt og jafnframt að vinnumarkaðsrannsóknir verði þar með stórefldar. Ég held að þetta sé ekki síst mikilvægt með tilliti til þess að horft sé til framtíðar, að menn reyni að átta sig á því hvaða störf munu skapast á næstu árum og áratugum og til þess að tengja það þörfinni fyrir menntun og endurmenntun og símenntun starfsfólks því það er almennt orðið viðurkennt að fólk menntar sig ekki einu sinni fyrir lífið heldur kalla þær miklu breytingar sem við erum að ganga í gegnum á að fólk sé stöðugt að mennta sig og jafnvel mennti sig til nýrra starfa. Yfir þetta þurfum við að geta séð allt saman, áttað okkur á breytingum og áttað okkur á nauðsynlegum aðgerðum.

Það er óþarfi, hæstv. forseti, að greina þetta nánar öðru sinni. Þetta er viðamikil tillaga. Hún fékk góð viðbrögð hjá Vinnumálastofnun. Þar er mikill vilji til þess að efla þann þátt sem snýr að rannsóknum á vinnumarkaðnum. Reyndar kom það fram í heimsókn félmn. Alþingis til Vinnumálastofnunar í október að rannsóknir á íslenskum vinnumarkaði eru nánast engar. Að mínum dómi er því um brýnt mál að ræða, mál sem snertir nánast alla landsmenn og getur orðið til þess að bæta mjög skipulag vinnumarkaðar okkar, hjálpa ungu fólki til þess að átta sig betur á náms- og starfsmöguleikum og fyrir skólakerfið til að skipuleggja nám og endurmenntun hvar sem hún fer fram.

Að lokinni umræðunni, hæstv. forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. félmn.