Vinnumarkaðsaðgerðir

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 15:31:13 (1023)

1998-11-11 15:31:13# 123. lþ. 22.7 fundur 85. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# (kjara- og vinnumarkaðsrannsóknir) frv., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Margt í þessu frv. er mjög gagnlegt og þarft. Þær upplýsingar sem hægt er að fá, t.d. úr gögnum um atvinnuleysi og annað, eru það takmarkaðar að ekki er hægt að grípa til aðgerða. Það er ekki hægt að finna réttu lausnirnar þegar á þarf að halda. Við höfum gengið í gegnum þetta núna, gert rannsókn fyrir Verslunarmannafélagið, fyrir starfsmannafélagið Sókn og fleiri félög og þá eru grunnupplýsingar nánast engar. Ef þær eru unnar þá eru þær unnar á vegum þessara aðila. Ítarlegar upplýsingar um þennan málaflokk --- þeir eru náttúrlega fleiri sem þarna voru ræddir --- þurfa að liggja fyrir þegar grípa þarf til ákveðinna aðgerða og snöggra.

Það gengur ekki að stimpla alla atvinnulausa einum stimpli heldur þarf að fá vandann greindan. Í hverju liggur vandinn? Er hann vegna aldurs, vegna örorku eða vegna barna? Í hverju er vandinn fólginn? Er hann vegna þess að viðkomandi féll út af vinnumarkaði og á erfitt með að byrja aftur? Engar slíkar rannsóknir eru til. Ég nefni þetta sem sérstakt dæmi.

Varðandi rannsóknir á stöðu kvenna á vinnumarkaði er mjög brýnt að þær verði efldar. Hvað kjarasviðið og samanburð á launum varðar tek ég eindregið undir það sem þar kemur fram. Ég þakka fyrir frv. og styð framgang málsins.