Aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 15:34:11 (1025)

1998-11-11 15:34:11# 123. lþ. 22.8 fundur 86. mál: #A aukin hlutdeild almennings í atvinnurekstri# þál., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[15:34]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um eflingu sparnaðar og aukna hlutdeild almennings í atvinnurekstri. Þetta er í þriðja sinn sem þessi tillaga er lögð hér fram. Á síðasta þingi hlaut hún ekki afgreiðslu. Henni var vísað til hv. efh.- og viðskn. Kallað var eftir umsögnum en nefndin afgreiddi málið hins vegar ekki. Þess vegna er hún flutt að nýju. Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lagasetningu er hafi það að markmiði að efla sparnað í þjóðfélaginu, auðvelda almenningi að eignast hlut í atvinnurekstri og tryggja þannig dreifða eignaraðild í atvinnulífinu. Í því skyni verði starfsfólki fyrirtækja sem skráð eru á hlutabréfamarkaði eða hafa verið einkavædd boðið að stofna sérstaka sparnaðarreikninga með hæstu ávöxtun, sem bundnir verði til þriggja til sjö ára, hjá viðskiptabanka viðkomandi fyrirtækis. Reikningarnir verði á nafni starfsmanna og verði föst fjárhæð af launum þeirra lögð inn á þá. Að loknum umsömdum binditíma eigi starfsmaðurinn rétt á að nýta sér það fé sem safnast hefur til þess að kaupa hlutabréf í fyrirtækinu sem hann vinnur hjá á því gengi sem var á hlutabréfum þess þegar sparnaðartímabilið hófst. Kjósi hann hins vegar að verja fénu til annarra nota verði honum það frjálst.``

Flutningsmenn ásamt þeim sem hér stendur eru hv. þm. Tómas Ingi Olrich, Pétur H. Blöndal og Einar Oddur Kristjánsson.

Með tillögu þessari er ætlunin að reyna að vekja athygli á afar athyglisverðu formi sem hvetur til sparnaðar og tryggir aukna hlutdeild almennings í atvinnulífinu. Skiptir þetta einhverju máli? Já, að sjálfsögðu. Fyrir því eru auðvitað margvísleg rök. Þetta getur leitt til aukins sparnaðar en um þessar mundir eru allir sammála því að mikil þörf sé á að auka sparnað í þjóðfélaginu og gefa fólki kost á að leggja til hliðar fjármuni sem það ella mundi verja til annarra hluta. Í annan stað þarf íslenskt atvinnulíf á því að halda að styrkja innviði sína og í þriðja lagi er hægt að benda á að leið sem þessi er aðferð sem í senn dreifir eignum og veitir fólki aukna hlutdeild ef vel gengur í atvinnurekstrinum sjálfum.

Þátttaka almennings í atvinnulífinu hefur breyst mjög hratt á undanförnum árum. Það verður stöðugt algengara að fólk kaupi hlutabréf, eignist hlutdeild í fyrirtækjum og verji til þess hluta af því fjármagni sem það hefur til ráðstöfunar. Þetta hefur m.a. gerst, eins og við þekkjum hér á landi, í tengslum við einkavæðingu fyrirtækja. Hið sama hefur átt sér stað í Bretlandi, en þaðan er þessi hugmynd fengin, með mjög góðum árangri. Við einkavæðingu tiltekinna fyrirtækja var brugðið á það ráð að búa til sparnaðarform fyrir starfsfólk fyrirtækjanna sem gerði því kleift að eignast hlutdeild í fyrirtækinu sem það vann hjá. Meðal fyrirtækja sem beittu þessari aðferð var British Airports Authorities sem er fyrirtæki sem á marga flugvelli, þar á meðal þann fræga flugvöll Heathrow-flugvöll. Þessi aðferð hafði í för með sér að u.þ.b. 93--98% starfsmanna þessa stóra fyrirtækis kusu að verja fjármunum sínum til að eignast hlutabréf með þessum hætti. Skýringin er auðvitað mjög augljós. Í sjálfu sér er ákaflega lítil áhætta því samfara fyrir fólk að leggja fé til hliðar og verja því að því búnu eftir ákveðinn tíma til kaupa á hlutafénu, sé það á annað borð skynsamlegur fjárfestingarkostur. Ef vel hefur gengið í atvinnurekstrinum og hann sýnt góða ávöxtun getur hagnaðarvonin fyrir almenning verið veruleg. Það hefur líka komið á daginn og er reynsla t.d. í því fyrirtæki sem ég nefndi hér áðan, að það eru ekki síst þeir sem hafa lakari kjör, lægri launin sem kosið hafa að beita einmitt þessari aðferð.

Ég nefndi áðan að þetta gæti verið hluti af því að styrkja atvinnulífið í sjálfu sér, í því að efla og bæta efnahag atvinnulífsins og fyrir því eru margvísleg rök. Við þekkjum það að atvinnulíf hér á landi er í alþjóðlegum samanburði frekar skuldsett. Þetta á t.d. við um höfuðatvinnugrein okkar, sjávarútveginn, en þetta á einnig við miklu víðar. En þetta er líka svar við öðru. Með þessum hætti erum við að reyna að dreifa eigninni, að auka eignadreifinguna í þjóðfélaginu.

Þróunin undanfarin ár hefur verið sú að fyrirtæki eru að stækka. Í sjávarútvegi eru fyrirtæki af öllu tagi að sameinast milli landshluta. Þetta er líka að gerast í bönkum, í fjármálastarfsemi og víðar og víðar. Þetta er svar við aukinni alþjóðlegri samkeppni og kröfunni um að draga úr tilkostnaði og bæta þannig lífskjörin í landinu. Þetta hefur hins vegar líka í för með sér að eignasamþjöppunin verður meiri. Þess vegna hafa menn velt því fyrir sér hvernig hægt sé að auka valddreifinguna í þjóðfélaginu þar sem þróunin er í átt til stærri fyrirtækja. Menn hafa í því sambandi bent á aðferð af þessu tagi, aukna þátttöku almennings.

Í mjög athyglisverðri úttekt sem sir James Meade, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, gerði fyrir ekki löngu síðan velti hann því einmitt fyrir sér hvernig menn gætu aukið eignadreifinguna í nútímaþjóðfélagi. Með hefðbundnum aðferðum hefur þetta verið gert þannig að reynt hefur verið að auka eignadreifinguna um leið og tekjudreifinguna með hefðbundnum kjarasamningum og auðvitað er hægt að ná þar ákveðnum árangri. Við þekkjum þetta en vitum að þessi leið er takmörkunum háð. Reynslan segir okkur að menn komist aldrei nema að ákveðnu marki í þessum efnum. Viðmiðanirnar eru alltaf þær að menn bera sig saman við eitthvað sem þeir telja vera viðmiðunarstétt sína. Þess vegna er reynslan oft sú að jafnvel þótt menn taki ákvörðun um að reyna að lyfta lægstu laununum þá koma einhverjir aðrir á eftir og segja: Úr því þessi stétt fékk hærra vil ég fá enn þá hærra. Þannig komumst við aldrei nema að ákveðnum endamörkum til að dreifa eignum og tekjum með hinni hefðbundnu leið.

Nákvæmlega sama hefur auðvitað komið á daginn varðandi velferðarríkið og þær aðferðir sem við höfum reynt að beita með því að dreifa eignum og tekjum í gegnum skatta, í gegnum tryggingakerfið o.s.frv. Þar rekum við okkur fljótlega upp í þetta þak sem er tekjutengingin og þetta höfum við séð okkur í margvíslegum myndum. Tekjutengingin er liður í að reyna að dreifa tekjum en veldur því að lokum að við sjáum oft mjög afkáraleg dæmi. Aldraðir hafa t.d. bent á slík dæmi í sambandi við réttindabaráttu sína.

Niðurstaða þessa ágæta nóbelsverðlaunahafa í þessum efnum er því að skynsamlegast kunni að vera að auka hlutdeild almennings í atvinnulífinu, gera fólki auðveldara að eignast hlut í fyrirtækjunum og dreifa þannig eignunum. Þetta er ekki einfalt mál eins og margir vita. Þess vegna hafa menn reynt að finna leiðir sem gera það að verkum að fólki sé auðveldara en ella að eignast hlut í fyrirtækjum og hafa af því hag þegar vel gengur í atvinnulífinu og færa góðærið til fólksins með arðgreiðslum og eignarhlut.

Við vitum að hér á landi hefur sparnaður lengst af verið allt of lítill. Í fylgiskjölum með þáltill. eru upplýsingar, sem unnar hafa verið af hagfræðideild Seðlabanka Íslands sérstaklega vegna þessarar tillögu. Þar er borinn saman þjóðhagslegur sparnaður á árunum 1990 til 1996 í einstökum ríkjum og í ljós kemur að hlutfall sparnaðar á Íslandi af landsframleiðslu er með því lægsta. Við erum svipuð og Bandaríkin og Nýja-Sjáland en langt fyrir neðan ríki eins og Þýskaland, Austurríki, Noreg, Sviss eða Japan. Í því efnahagsumhverfi sem við búum við í dag eru allir sammála um að þetta sé eitt af því sem við þurfum að bæta úr. Ein aðferðin, eitt sparnaðarformið getur auðvitað verið það sem hér er lagt til.

Nú segja kannski einhverjir: Er þetta ekki fyrst og fremst leið til að gera þá ríku ríkari og auðvelda því fólki sem hefur mikið milli handanna að eignast hlutafé? Þetta er ekki þannig. Það hefur auðvitað orðið grundvallarbreyting í þeim efnum. Stöðugt fleiri einstaklingar fara af mörgum ástæðum þá leið að reyna að eignast hlutafé, m.a. vegna ágóðavonar, vegna þess að fólk er að búa sér til skattaívilnun og fleira í þeim dúr.

[15:45]

Eftir árið 1990 hefur orðið veruleg breyting og veruleg aukning á kaupum almennings á hlutabréfum. Á árinu 1990 keyptu um 16 þús. manns hlutabréf til þess bókstaflega að nýta sér skattalegt hagræði og það hafði þá þrefaldast frá árinu á undan. Síðan var þetta næstu ár á eftir, fram til ársins 1994, svona á bilinu rúmlega 10--12 þús. manns, fór upp í 16 þús. manns aftur árið 1995, 29.500 árið 1996 og 18.200 árið 1997. Þetta er býsna stór hópur ef við höfum það í huga að talið er að um 150 þúsund manns í landinu séu framtalsskyldir. Af þeim greiðir um það bil 1/3 tekjuskatt þegar búið er að draga frá frádráttarliði eins og vaxtabætur, barnabætur o.s.frv. Miðað við þær upplýsingar sem hérna er stuðst við lætur nærri að um það bil 60% af þeim sem greiddu tekjuskatt á árinu 1996 hafi keypt hlutabréf í skráðum félögum og í fyrra var samsvarandi tala um 36%. Það er því augljóst að almenningur er farinn að taka þátt í því að auka sparnað sinn og reyna að bæta hag sinn með því að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum.

Sú leið sem hér er verið að leggja til er einmitt til þess fallin að gera fólki þetta enn þá auðveldara. Kosturinn við þessa leið umfram hefðbundnar skattaívilnunarleiðir er auðvitað sá að hér er ekki gert ráð fyrir því að ríkið þurfi að láta neitt af sinni hálfu í formi skattaívilnana. Þvert á móti er hér fyrst og fremst verið að gera fólki kleift með tiltekinni lagasetningu sem væntanlega þyrfti að útfæra, að eignast hlut í fyrirtækjum án þess að ríkið legði fram skattaívilnanir á móti. Það er eingöngu verið að leggja til hugmynd þar sem fólk hefði möguleika á því að leggja til hliðar fjármuni í hlutfalli við greiðslumöguleika sína sem eru ávaxtaðir með hæstu hugsanlegum vöxtum í tiltekinn tíma. Síðan hefur fólk það val að loknu þessu sparnaðartímabili annaðhvort að nýta þessa fjármuni að eigin vild eða kaupa hlutabréf í tilteknu fyrirtæki sem það vinnur hjá á því gengi sem á bréfunum var þegar sparnaðartímabilið hófst. Áhættan er því fyrst og fremst annarra en þeirra sem eru að leggja peningana til hliðar og möguleikarnir á því að fá góða ávöxtun, ef vel gengur, eru þarna vissulega til staðar og síðan möguleikarnir á því að fá aukna hlutdeild í eignamyndun og aukna hlutdeild í ágóða- og arðgreiðslum ef vel tekst til. Þetta hefur stundum verið kallað eins konar alþýðukapítalismi og ég held að það sé ekki lakara orð en hvað annað til þess að lýsa leiðum eins og þessum sem menn hafa verið að fara í vaxandi mæli í nágrannalöndum okkar til þess að styrkja stöðu almennings og til þess að dreifa eigninni, má segja, sem annars er að færast á færri hendur, í það form að fyrirtækin eru að stækka af ástæðum sem ég held að séu á margan hátt óhjákvæmilegar. Að vísu er það svo að hægt er að benda á það með réttu að um leið og fyrirtækin stækka eru líka að verða til lítil fyrirtæki. Það er af hinu góða og mikilvægt að þannig sé búið um hnútana að fólk geti tekið þátt í atvinnulífinu. Og auðvitað getur þetta verið upphafið að því að auðvelda fólki slíka vinnu.

Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að það sé mikilvægt fyrir okkur við þessar aðstæður að reyna að velta upp öllum hugsanlegum leiðum sem geta aukið sparnað í þjóðfélaginu og stuðlað að aukinni eigna- og tekjudreifingu vegna þessara aðstæðna sem ég hef verið að rekja. Við þurfum að vera tilbúin til að hugsa dálítið óhefðbundið í þessum efnum og horfa á leiðir af þessu taginu til að bæta hag almennings.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og hv. efh.- og viðskn.