Átak til að draga úr reykingum kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 15:58:32 (1027)

1998-11-11 15:58:32# 123. lþ. 22.9 fundur 95. mál: #A átak til að draga úr reykingum kvenna# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[15:58]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka flutningsmönnum fyrir að flytja svo mikilvæga tillögu. Þó að við beitum okkur í forvörnum af ýmsu tagi, tóbaksvörnum sem og forvörnum í sterkari efnum, þá er kvenfólk og einkum ungar konur sá markhópur tóbaksframleiðenda sem við þurfum að beina sjónum okkar sérstaklega að því að þær hafa verið markhópur tóbaksframleiðenda um langan tíma.

Með ítarlegum rannsóknum og stöðugum könnunum á væntingum, ímynd og lífsstíl ungra stúlkna og kvenna hafa tóbaksframleiðendur ætíð forskot í markaðssetningu tóbaks. Forvarnastarf væri markvissara ef þær upplýsingar sem tóbaksiðnaðurinn býr yfir væri þeim aðilum sem vinna að tóbaksvörnum aðgengilegar, en það er langt frá því að svo sé því að tóbaksiðnaðurinn heldur þessum dýrmætu upplýsingum hjá sér, enda hafa þeir fjármagn til að gera svo viðamiklar rannsóknir og markaðssetja samkvæmt þeim.

Með rannsóknum sínum var þeim t.d. löngu ljós skaðsemi reykinga áður en fyrstu skýrslur lækna komu fram um samband reykinga og lungnakrabbameins. Tóbaksframleiðendur hafa þar til fyrir fáum árum neitað þessari staðreynd.

Sama á við um markaðssetningu tóbaks eða sígarettna fyrir ungar stúlkur. Tóbaksiðnaðurinn markaðssetur ekki sínar vörur fyrir börn og unglinga. Þeir auglýsa eingöngu til að fá fullorðið fólk til að skipta um sígarettutegund eða vörutegund. Þetta eru þeirra orð.

[16:00]

Við vitum betur, því að konur, börn, unglingar og íbúar þróunarlandanna eru markhópar tóbaksiðnaðarins í dag. Þeim hefur orðið mjög vel ágengt með alla þessa markhópa. Sorglegasta er að fylgjast með auknum reykingum ungra stúlkna og það er staðreynd að þrjár af hverjum fjórum ungum stúlkum sem byrja að reykja munu reykja á fullorðinsaldri. Tvær af þessum fjórum munu deyja af reykingatengdum sjúkdómum og ein af þessum fjórum mun látast af reykingatengdum sjúkdómi langt um aldur fram. Þetta eru staðreyndir.

Sú kvenímynd sem hefur verið í tísku, þ.e. mjög grannur kvenlíkami, er mörgum stúlkum svo eftirsóknarverður að þær sem byrja að reykja, þora ekki að hætta af ótta við að fitna. Margar þeirra fá aðra sjúkdóma tengda átröskun, eingöngu vegna þessarar fölsku kvenímyndar.

Því ber að þakka að fram komi till. til þál. um að gera sérstakt átak til að draga úr reykingum kvenna. Þetta er alþjóðlegt vandamál. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er þess meðvitandi eins og fleiri hvað þetta er alvarlegt mál og helgar baráttu næsta árs baráttu gegn reykingum kvenna. Við eigum að taka málið alvarlega og gera allt sem í okkar valdi stendur til að snúa þróuninni við og vonandi getum við veitt öðrum fordæmi sem hægt verður að taka upp hjá öðrum þjóðum.

Þegar við settum tóbaksvarnalögin 1984 og samþykktum þau voru þau lög mjög framsækin og voru öðrum þjóðum veganesti. Við gáfum öðrum Norðurlandaþjóðunum von um að hægt væri að ná lengra en þau höfðu þá náð. Enn höfum við svolítið forskot þó það hafi því miður minnkað. Við, í okkar litla landi, viljum geta haft þá yfirsýn og verið þess megnug að gera það sem a.m.k. lagalegi þátturinn á að geta haldið utan um. Ég þakka fyrir.