Átak til að draga úr reykingum kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:03:13 (1028)

1998-11-11 16:03:13# 123. lþ. 22.9 fundur 95. mál: #A átak til að draga úr reykingum kvenna# þál., ÞHS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:03]

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari till. til þál. um sérstakt átak til að draga úr reykingum kvenna. Veruleg aukning hefur orðið, sérstaklega hjá ungum konum, og prósentumismunurinn milli karla og kvenna hefur verið að aukast á undanförnum árum.

Ég tel furðulegt að ungt fólk sjái ekki hvað ímynd þess skaðast með notkun tóbaks. Þetta er síðan mjög dýrt fyrir samfélagið. Á ráðstefnu sem landlæknir hélt fyrir nokkru kom fram að yfir 300 manns deyja á ári af völdum tóbaks. Þá eru óbeinar reykingar sem skaða alla hina ekki neitt smámál.

Tóbaksframleiðendur kaupa sig inn í kvikmyndir og það ekki fyrir neina smápeninga. Það var upplýst á ráðstefnu á Írlandi fyrir nokkrum árum að mjög háar fjárfúlgur lægju bæði í auglýsingum og kvikmyndum sem þeir borguðu sérstaklega fyrir. Í stórmynd sem var sýnd hér fyrir nokkrum árum reykti aðeins einn maður. Síðar kom í ljós að það atriði hafði verið keypt inn í myndina.

Svona nokkuð eru dulin skilaboð til unga fólksins um að halda áfram meðan aðrir reyna að berjast á móti. Þetta veit ungt fólk ekki og gerir sér ekki grein fyrir þessum áhrifum.

En það eru fleiri en ungt fólk í þessum málaflokki. Mjög margar fullorðnar konur og karlar vilja hætta að reykja og eru að berjast við það. En öll þau hjálpartæki sem við getum fengið til að hjálpa okkur við að hætta að reykja eru ansi dýr. Ég hef oft velt fyrir mér hvort það þyrfti ekki að niðurgreiða þau að einhverju leyti. Ég hef séð fjöldann allan af eldra fólki dragnast með súrefniskúta vegna þess að það hefur e.t.v. reykt í 30 ár eða lengur. Síðan missir fólk af sínum efri árum og nýtur ekki barnabarna sinna eða lífeyrissjóðs síns fyrir það að hafa eytt einmitt heilsufarsárum sínum í þetta.

Fyrir nokkrum árum vildi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin stefna að reyklausri Evrópu árið 2000. Væntanlega er of stutt til ársins 2000 en það hefði verið göfugt markmið að fylgja því eftir. Kannski hefðum við Íslendingar átt að taka það upp og fara í alvöruherferð fyrir þessu máli vegna þess að þetta er mjög mikið heilbrigðismál í miklu víðari skilningi. Ekki bara fyrir konur, heldur fyrir allt samfélagið. Oftast eru það foreldrarnir sem borga brúsann þegar börnin eru farin að reykja. Þetta er mikið mál, stórt mál. Ég fagna tillögunni.