1998-11-11 16:31:53# 123. lþ. 22.11 fundur 193. mál: #A jafnræði kynja við fjárveitingar til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:31]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efni þessarar tillögu. Eins og fram kom í máli 1. flm. hafa tillögur um íþróttir kvenna ítrekað verið samþykktar en því miður virðist lítt miða í málunum. Að vísu var gerð könnun í framhaldi af síðustu tillögu sem var samþykkt um þetta efni, það var tillaga sem Bryndís Hlöðversdóttir og fleiri fluttu. Lagðar hafa verið fram tillögur til að auka íþróttaiðkun stúlkna og til þess að auðvelda þeim að stunda íþróttir en maður sér litlar efndir.

Hv. þm. nefndi nýlegt dæmi um skákina. Það var mjög sláandi og var reyndar ánægjulegt að sjá hvernig fólk brást við. Þetta vakti mikla reiði, enda þvílíkt dæmi um mismunun að langt er síðan annað eins hefur sést hér á landi. Þegar íþróttafélögin standa frammi fyrir því að velja, þá er eins og strákarnir hafi alltaf forgang.

Ég held að athyglisvert væri að skoða íþróttastarf hér á landi miðað við önnur lönd. Mér er sagt að stúlkur hætti hér fyrr í íþróttum en annars staðar, sérstaklega á Norðurlöndunum. Það kann að tengjast því að m.a. Danir og Norðmenn hafa gripið til sérstakra aðgerða til að auka íþróttaþátttöku stúlkna. Þeir lögðu verulega fjármuni í að efla handboltann. Það tók þó nokkur ár en Danir hafa verið með eitt besta handboltalið kvenna í heimi og stúlkurnar sem þar leika í landsliðinu eru miklar fyrirmyndir. Ég fletti oft dönskum blöðum og hef oft séð viðtöl við þær. Það er mjög brýnt að gripið sé til aðgerða og að reynt sé að ýta undir þátttöku stúlkna í íþróttum.

Í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór áðan spyr ég: Hvaða þátt á kvenímyndin í því að þátttaka stúlkna er svona lítil? Þá rifjast upp fyrir mér að í Bandaríkjunum eru mjög strangar reglur um fjárveitingar til íþrótta, bæði í háskólum og hjá hinu opinbera. Menn eru strax settir á svartan lista ef þeir ekki fylgja þessum reglum. Í Bandaríkjunum hefur verið gert verulegt átak til að auka íþróttaþátttöku kvenna og þar hefur verið lögð mikil áhersla á íþróttir sem þátt í að efla sjálfsímyndina, efla trú kvenna á sig sjálfar og til að efla félags- og keppnisanda og frumkvæði. Íþróttaiðkun og ekki síst að taka þátt í hópíþróttum ýtir mjög undir þessa þætti, eflir sjálfstraust kvenna. Það er ljóst að íþróttir geta haft mjög mikið að segja.

Mér er sagt að bæði sé mjög takmarkaður skilningur á þessum málum hjá íþróttaforustunni eins og dæmin sanna en jafnframt takmarkað framboð á íþróttum fyrir stúlkur. Einn faðir sem ég þekki á börn sem eru hvort á sínu árinu. Hann býr á Seltjarnarnesi og hefur bent á það hve aðstaða dótturinnar sé miklu miklu verri en sonarins. Það er ekki einu sinni boðið upp á fótbolta fyrir stelpur. Það eina sem boðið er upp á fyrir stelpurnar eru fimleikar. Þannig var það a.m.k. þegar hann sagði mér frá þessu en síðan eru liðin um tvö ár og vonandi hefur þetta eitthvað batnað. Framboðið skiptir máli líka.

Hér er þó ekki aðeins vikið að íþróttastarfi þó sjónir okkar beinist kannski að því. Það er eitthvað sem við heyrum um og sjáum á hverjum einasta degi og sláandi hversu sjaldan stúlkur og konur eru þar í fréttum. Þetta er nánast algjör karlaheimur. Hér er líka vikið að æskulýðs- og tómstundamálum og væri fróðlegt að skoða hvað gert er á þeim vettvangi. Upp á hvað er boðið? Nú verð ég að viðurkenna vanþekkingu mína á þessum sviðum en það væri fróðlegt að skoða nánar að hverju æskulýðsstarfsemi og tómstundastarfsemi í landinu beinist. Út á hvað gengur starfið, um hvað snýst það og hvað er boðið upp á þar?

Hæstv. forseti. Ég tek undir efni þessarar tillögu. Ég tel mjög brýnt að við höldum þessu máli vakandi og krefjum hæstv. menntmrh. svara varðandi það að fylgja eftir tillögum nefndarinnar um íþróttaiðkun stúlkna og kvenna. Ég tel nauðsynlegt að við tökum okkur hreinlega saman um að halda þessu vakandi. Það verður kannski fyrst og fremst með umræðunni sem við getum knúið fram breytingar en mér finnst alveg sjálfsagt að hið opinbera setji reglur eins og hér er verið að tala um þannig að opinberir aðilar eða þeir sem fá opinberar styrkveitingar komist ekki upp með að haga málum eins og þeir gera, þegar megnið af peningunum rennur til karlaíþrótta en stúlkurnar þurfa sjálfar að berjast fyrir því að afla fjár til þess að geta stundað íþróttir.