Stofnun þjóðbúningaráðs

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:53:37 (1041)

1998-11-11 16:53:37# 123. lþ. 22.12 fundur 203. mál: #A stofnun þjóðbúningaráðs# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:53]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Nú líkar mér lífið þegar við fáum svona góða sögulega yfirferð eins og var að heyra í ræðu hv. þm. Ég vil taka undir þessa tillögu en ég vil jafnframt fagna því að tillaga Halldóru Bjarnadóttur náði ekki fram að ganga á sínum tíma, því að það er nú staðreynd að þótt íslenski þjóðbúningurinn eða hinir ýmsu búningar séu fallegir eru þeir ekki beinlínis þægilegir dags daglega.

Gerð íslenska þjóðbúningsins á sér skýringar. Þegar klæðnaður kvenna, sérstaklega bændakvenna víða í Evrópu á 18. og 19. öld er skoðaður er mikill skyldleiki þar á milli. Konur gengu í þykkum, síðum pilsum m.a. til að halda á sér hita. Þau voru óskaplega þung og óþægileg. Ýmiss konar peysur eða blússur fylgdu og mismunandi hvernig skrautið var eftir því hvaða land við skoðum.

Það er ekki síst íslenska kvensilfrið sem er afar merkilegt og fallegt og hefur sín sérstöku íslensku mynstur. Ég tek svo sannarlega undir það að mikil þörf er á að varðveita þekkingu um þetta allt saman, ekki síst til að auðvelda notkun búningsins og til að koma í veg fyrir að verið sé að blanda hreinlega saman óskyldum hlutum ef þetta á að vera hinn íslenski búningur. En auðvitað er ekki hægt að koma í veg fyrir að einhver þróun verði eða einhverjar breytingar.

Ég tók eftir því að hv. þm. nefndi skráningu á búningum. Það væri fróðlegt að vita hvort eitthvað hefur verið kannað hvað til er af íslenskum búningum eða íslensku kvensilfri t.d. í Kanada, meðal afkomenda landnema í Kanada. Við skulum ekki gleyma því að við erum í rauninni oft að tala um mikil listaverk. Margir þessir búningar, ekki síst þeir sem voru skrautsaumaðir --- nú veit ég ekki hvort ég er að nota rétta orðið því þetta hefur allt sitt heiti, en ég er að tala um þá búninga sem eru með þessar breiðu skreytingar að neðan, blómaskreytingar, margar alveg geysilega fallegar. Ég held að þær hafi tíðkast mikið á 18. öldinni og eitthvað fram á þá 19. Það var auðvitað mikil list að útbúa slík mynstur og sauma þau. Enda hefur þurft að halda námskeið á undanförnum áratugum til að viðhalda þeirri þekkingu sem konur unnu meira og minna upp úr sér fyrr á öldum. Þetta eru mikil listaverk og mikill skaði ef slíkir búningar eru til erlendis og liggja þar kannski í kistum og glatast því enginn veit hvað þetta er.

Ég held ég geti fullyrt það að í mjög mörgum fjölskyldum hér á landi, og vitna ég þá bara til þeirra sem ég þekki, er a.m.k. til kvensilfur. Það er víða til eitthvað af kvensilfri. Ég get nefnt sem dæmi að móðir mín geymir upphlut ömmu minnar og hennar silfur. Ég hygg að þetta sé víða til. Ég veit reyndar ekki hvort sá búningur er nokkuð merkilegur, ég held að hann hafi bara verið mjög dæmigerður íslenskur kvenbúningur. Það er því mikið til. En mynstrið á silfrinu getur verið mismunandi eftir því hvaða silfursmiður átti í hlut og þetta er allt saman partur af menningarsögunni.

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég grein í Nýja sögu um húsfreyjuna á Bessastöðum, Ingibjörgu, móður Gríms Thomsens. Greinin var myndskreytt með myndum af íslenskum konum, m.a. á íslenskum búningi, t.d. fræg mynd af fjallkonunni sem oft hefur verið notuð og fleiri myndir. Ég sá reyndar ekki sjálf um myndatextann en þeir sem sömdu textann kunnu ekki skil á hinum íslensku búningum og fóru þar með vitleysu. Og þá hrökk Elsa Guðjónsson við reyndi að koma á framfæri leiðréttingum.

Ég held því að ég geti fullyrt að þekking fólks á þessum mismunandi búningum sé býsna takmörkuð. Ég á nú oft erfitt með að muna hvað eru peysuföt og hvað er upphlutur þó ég þekki nú kyrtil og skautbúning.

Ég vil bara ítreka það, hæstv. forseti, að ég tek undir þessa tillögu. Ég held að þetta sé hið besta mál. Spurningin er kannski hvar á að finna þjóðbúningaráði stað og undir hvað það á að heyra. Ætti það að vera hluti t.d. af starfsemi Þjóðminjasafnsins eða einhvers konar sjálfstæð starfsemi. Ég held að slíkt ráð ætti t.d. að hafa samvinnu við kvenfélögin í landinu og Heimilisiðnaðarfélagið og aðra þá sem vinna að því að viðhalda íslenska kvenbúningnum. En ég held að það væri ekki vitlaust að reyna svolítið að átta sig á hvar þetta á heima. Á ráðið að vera algjörlega sjálfstætt eða væri betra að tengja það t.d. Þjóðminjasafninu?