Þriggja fasa rafmagn

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 10:46:18 (1050)

1998-11-12 10:46:18# 123. lþ. 23.18 fundur 204. mál: #A þriggja fasa rafmagn# þál., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[10:46]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þá þáltill. sem hér hefur verið lögð fram. Ég tel afar mikilvægt að snúa sér af alvöru að því stóra verkefni sem er svo brýnt fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni, þ.e. að þrífösunin gangi fram. Hér er því hreyft afar stóru máli og enginn vafi að þessi staða nú háir því mjög að menn geti snúið sér af alvöru að öðrum verkefnum og gerir það að verkum að margir einstaklingar sem þegar hafa snúið sér að orkufrekum búskap, hvort sem það er í iðnaði eða ferðaþjónustu, gjalda fyrir það að þrífösunin hefur ekki átt sér stað.

Ég ætla að nefna dæmi sem rak á fjörur mínar í gærkvöldi og segir í skýru máli þá stöðu sem menn standa frammi fyrir. Athafnasöm hjón hafa breytt búrekstri sínum í stórvirka ferðamannaþjónustu og taka þar á móti þúsundum gesta. Þau standa nú í því að stækka þann rekstur sinn. Þau þurfa m.a. að kaupa stórtækar vélar, sjálfsagt í eldhús o.s.frv. en þau hafa eins fasa rafmagn. Þeim var sagt að þetta rafmagn mundi duga þeim en nú þegar þau ætla að fara að ljúka verkefni sínu í þessari uppbyggingu kemur í ljós að spennirinn er of lítill og heimtaugin of grönn. Það er því ekki bara þetta eins fasa rafmagn sem þau standa frammi fyrir því að til að geta komið fyrirtæki sínu í gang verða þau að ráðast í að leggja 300 þúsund kr. í nýja heimtaug og nýjan spenni á bænum auk þess að breyta þeim tækjum sem þau kaupa í eins fasa rafmagnstæki, sem vart eru framleidd lengur í veröldinni, og það kostar 100 þúsund. Á þennan atvinnurekstur eru þegar komin 400 þúsund kr. til viðbótar, sem aðrir í nokkurra kílómetra fjarlægð þurfa ekki að ráðast í.

Þetta skekkir samkeppnisstöðuna en segir allt um það hversu brýnt er að mótuð verði stefna þar sem þriggja fasa rafmagn verði leitt út í dreifbýlið, þangað sem þörf er á því og menn eru að byggja upp nýjan atvinnuveg. Ég held að Sunnlendingar séu á eftir í þessum efnum, sem er auðvitað sorglegt. Það þarf að leiða þetta heim í miðkjarna í hverri sveit. Og eins og kom fram hjá 1. þm. Suðurl. Drífu Hjartardóttur háir þetta mönnum verulega og eykur kostnað í hefðbundnum búskap. Hér er því um afskaplega brýnt mál að ræða.

Ég nefndi þessar kostnaðartölur, hæstv. forseti, af því að þær rak á fjörur mínar í gærkvöldi og segja svo skýrt við hvað fólk sem er að reyna að treysta byggðina og byggja upp nýjan atvinnurekstur hefur að glíma. Þetta þurfa menn að taka inn í nýjar áætlanir um byggðaþróun, sem kemur sjálfsagt til umræðu undir þáltill. um byggðamál sem rædd verður í næstu viku.

Ég hef um langa hríð verið áhugamaður um þetta mál í þinginu og samkvæmt þeim upplýsingum sem hæstv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, hefur gefið mér er unnið að þessum málum. Iðnrn. er að vinna að átaki í þrífösun sveitanna og Rafmagnsveitur ríkisins vinna að áætlun til langs tíma og munu gera á næstunni samstarfssamning við iðn.- og viðskrn. og fjmrn. um slíkan samning og í framhaldi af því geta unnið markvisst að þrífösun á svæðum Rafmagnsveitna ríkisins.

72% spennistöðva á svæði Rafmagnsveitnanna eru einfasa. Þriðjungur af dreifikerfum eru þriggja fasa eða um 2.300 km af 6.800 km í dreifbýlinu. Liðlega fjórðungur, 27%, af notendum til sveita hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni. Það eru ekki nema 27%. En aðeins rúmlega helmingur þeirra, 15,7%, hefur notfært sér það og fengið þriggja fasa rafmagn til sín á svæði Rafmagnsveitna ríkisins. Á undanförnum fimm árum hafa verið veittar um 790 millj. kr. til styrkingar og endurnýjunar á rafdreifikerfum til sveita.

Ef þrífasa á þá 4.500 km af dreifikerfunum hjá Rafmagnsveitunum, sem eru einfasa, og setja upp þriggja fasa dreifistöðvar hjá öllum notendum sem ekki hafa þriggja fasa rafmagn í dag er um verulega fjármuni að ræða. Rafmagnsveiturnar hafa metið lauslega hvað slíkt kostar og niðurstaðan yfir 8 milljarðar kr. Það er því um afskaplega stórt verkefni að ræða. En mikilvægt er að Rafmagnsveiturnar og þessi tvö ráðuneyti sem ég nefndi vinni að langtímasamningi og þessu verði, eins og í vegagerð, raðað upp hvernig þetta verður unnið á næstu árum til að menn viti hvar þeir standa.

Ég vil að lokum taka undir með hv. flm. að þetta snýr auðvitað að byggðamálum og stöðu landsbyggðarinnar þannig að hér er flutt mikilvægt mál sem þolir enga bið og ég vona að mikið muni gerast í þrífösun sveitanna á næstu árum.