Þriggja fasa rafmagn

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 10:54:14 (1051)

1998-11-12 10:54:14# 123. lþ. 23.18 fundur 204. mál: #A þriggja fasa rafmagn# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[10:54]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessa þáltill. og þakka fyrir að hún hafi komið fram. Við sem búum úti á landi þekkjum þann mismun sem er á ýmsum sviðum hvað varðar kostnað í þjónustu, svo sem rafmagnskostnað, kostnað við að kynda húsin okkar og halda þeim heitum. Og þetta er einn hluti af mörgum til að styrkja byggð og jafna aðstöðu fólks á milli landshluta. Því þakka ég fyrir að þessi þáltill. skuli hafa komið fram og vona að hún verði samþykkt og unnið verði að því að gera langtímaáætlun um að koma á þriggja fasa rafmagni um allt land og þar með að styrkja byggð þar sem hún er í dag. Undirstaða þess að skapa nýja framleiðslu og fjölbreytni í atvinnulífinu er að hafa þriggja fasa rafmagn. Húshitunarkostnaðurinn er víða mikill og þar sem hann er hvað mestur hefur hann haft áhrif á búsetu. Og við getum talað um flótta af landsbyggðinni, ekki síst vegna þessa. Það þarf að vinna að því átaki að koma á þriggja fasa rafmagni. Það hefur komið fram hversu óhemju dýrt það er. Þetta er langtímaverkefni en við þurfum að sjá þessu langtímaverkefni komið á því að það varðar stöðu landsbyggðarinnar. Það er eitt af mörgu.