Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 11:16:03 (1054)

1998-11-12 11:16:03# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[11:16]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm., 1. flm. þessarar tillögu, Guðjóni Guðmundssyni, fyrir einarðan dugnað hans og þrautseigju við að koma þessu máli í höfn, og ég tek undir allt það sem hann hefur sagt og jafnframt sá ræðumaður sem talaði hér á undan mér.

Herra forseti. Hver er raunveruleg ástæða þess að hvalveiðar eru bannaðar á Íslandi? Það er firring nútímamannsins. Sunnudagslambalærið, hryggurinn, verður til í Hagkaup. Kjúklingurinn verður til í Bónus. Það er reginmunur á kjúklingi, litlum, sætum, gulum kjúklingi og síðan beinfrosnum kjúklingi í kæliboxinu í Hagkaup, svo maður tali nú ekki um kjúklingalærið sem við kaupum á skyndibitastaðnum. Það er eitthvað allt annað. Menn eru fyrir löngu hættir að gera sér grein fyrir því að þarna er beint samhengi á milli, litli, sæti kjúklingurinn breytist í steikt kjúklingalæri á skyndibitastaðnum. Hann --- steikta kjúklingalærið á skyndibitastaðnum --- var einu sinni lítill, sætur kjúklingur.

Þetta er firringin sem við búum við. Þetta er firringin. Þegar menn tala t.d. um að hvalir séu veiddir á ósæmandi hátt þá ættu þeir sömu aðilar að líta inn í kjúklingasláturhús þar sem greyin, litlu, sætu kjúklingarnir, eru deyfðir með rafmagni, hengdir upp á löppunum og hausinn sagaður af þeim með vélsög. Þetta er raunveruleikinn.

Við höfum boðið gesti hingað til okkar, fyrrverandi kvikmyndastjörnu, sem er Keikó. Það er manngerður hvalur. Hann er gæludýr. Það er enn ein firringin. Það er búið að gefa þessari skepnu, sem er líklega með grimmustu og hættulegustu villidýrum sem til eru, einhverja mannlega eiginleika eins og ást og umhyggju. Hann er kominn heim til mömmu, segja menn. Hann er kominn heim til mömmu og hann er kominn með mannlega eiginleika. Hann er greindur og gáfaður, hann er góður og elskulegur. Ég ætla að vona að hann breytist ekki við þessa nýju vist í köldum, íslenskum sjó eins og menn hafa verið að tala um. Að skapgerðarbreyting hafi orðið á þessum gesti okkar undanfarið. Ég ætla að vona að hann breytist ekki í þetta villidýr sem hann raunverulega er og verði gæslumönnum sínum hættulegur.

Raunveruleikinn í heiminum er allt annar. Raunveruleikinn er sá að helmingur mannkyns lifir á undir 2 dollurum á dag. Það eru 140 kr. sem helmingurinn af mannkyninu verður að komast af með. Og fjórðungur mannkyns, þ.e. helmingurinn af þessum helmingi, verður að komast af með minna en 1 dollara á dag. Þetta er raunveruleikinn. Og það er ekki neinn brandari þegar einhver sagði að breyta mætti Keikó í 60 þúsund kjötbollur og sjá fátækum börnum og sveltandi börnum víða um heim fyrir næringu. Fleiri þúsund börnum í einn eða tvo mánuði. Mjög mikilvæg næring fyrir þau. Hér erum við því komin út í einhverja firringu sem er orðin mjög hættuleg. Teiknimyndir og annað ýta undir þá firringu að dýr hafi mannlega eiginleika.

Herra forseti. Ég tek undir kröfur manna um verndun dýra sem eru í útrýmingarhættu, ég tek undir þær. Ég vil ekki sjá dýrategundum fækka. En það á ekki við um hvali. Vísindamenn, og ég trúi þeim, segja okkur að það megi veiða hvali, þeir séu ekki í útrýmingarhættu. Og það er líka nóg að horfa á hvalavöður sem í síauknum mæli ganga á land víða um heim. Svo er reynt að bjarga þeim, skepnunum er ýtt út aftur en af eðlishvöt synda þær strax upp í næstu vík. Það er eitthvað í gangi í náttúrunni sem segir manni að of mikið sé af hvölum.

Svo eru aðrir þættir. Menn hafa bent á að ferðaþjónustan muni skaðast af veiðunum, sérstaklega hvað varðar ferðamenn sem koma til landsins til að skoða lifandi hvali. En ég vil bara benda mönnum á að þegar hvalstöðin var í gangi var það eitt aðalmál ferðamanna að fá að sjá dauðan hval og fá að sjá hann skorinn. Það var alltaf stoppað í hvalstöðinni, alltaf, á leiðinni norður með ferðamenn þar sem ferðamennirnir skoðuðu dauðan hval. Og ég er alveg sannfærður um að mjög margir ferðamenn hefðu áhuga á því að skoða bæði lifandi og dauða hvali. Þetta gæti því orðið búbót í ferðaþjónustu og mundi kannski bæta það að ferðamenn komi til landsins, a.m.k. einhverjir ferðamenn.

Herra forseti. Það sem við glímum við er í fyrsta lagi ákveðin firring nútímamannsins og líka það að einhverjir hagsmunaaðilar, mjög stór samtök, hafa tekið sér vald sem þau ekki höfðu. Þau taka sér það vald að skipa mönnum fyrir: Ekki veiða hvali, þeir eru litlar, sætar dúllur og næsta sem þau gera er að banna okkur að veiða þorsk. Það gæti vel orðið.

Ég vil benda á að það getur verið mjög hættulegt að gefa mönnum þetta vald, þ.e. að gefa eftir. Það getur verið mjög hættulegt að gefa mönnum sem lifa í einhverri firringu og lifa á henni og jafnvel meðvitað --- þeir vita alveg að þetta er firring en þeir lifa á henni --- að gefa þeim þetta vald sem er sjálftekið, og gefa eftir. Það getur verið mjög hættulegt. Við þurfum að standa við það og segja þessu fólki að við Íslendingar höfum lifað við þetta haf í þúsund ár. Við höfum veitt hér þorsk og fisk í þúsund ár. Við höfum lifað á þessum veiðum og við verðum að lifa á þeim og það er sá raunveruleiki sem við búum við. Við verðum að benda þessu fólki á að það sjálft er raunveruleikafirrt. Og við skulum bara benda því á kjúklinginn sem einu sinni var fallegur, gulur en er nú orðinn að kjúklingalæri á skyndibitastað.