Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 11:57:00 (1059)

1998-11-12 11:57:00# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[11:57]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér hafa óvenjumargir hv. þingmenn tekið til máls og þeir eru allir eindregnir stuðningsmenn þessarar tillögu. Ég sakna þeirra hv. þm. sem eru andvígir hvalveiðum. Við höfum þó heyrt rök þeirra og ég ætla að reyna að telja upp nokkur en nokkur þeirra hafa verið talin upp hérna.

Það er ótti við viðskiptabann. Það er ótti við að tapa á ferðamennsku. Það er ótti við ofbeldi eins og síðasti hv. ræðumaður Ólafur Hannibalsson benti á. Þetta er sem sagt ótti. Það sem okkur skortir er hugrekki til að mæta þessum ótta og segja að hann sé ástæðulaus. Ég tel nefnilega að þessi ótti sé að miklu leyti ástæðulaus.

Þessi umræða úti um víðan heim byggir ekki á skynsemi. Hún byggir á áróðri. Þess vegna, herra forseti, legg ég til að við gerum eftirfarandi til þess að mæta áróðursstríðinu: Við skulum stórauka þróunarhjálp sem er skammarlega vesældarleg. Stóraukum þróunarhjálp. Við skulum veiða hval á sjálfbæran hátt. Við skulum sjóða hann í dósir og gefum svo dósirnar sveltandi börnum sem nóg er til af, því miður, um allan heim. Látum svo Keikó-vini stöðva hjálp til sveltandi fólks með vísun til einhverrar firringar.