Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 12:00:14 (1062)

1998-11-12 12:00:14# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[12:00]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er ekki vonum seinna að sú tillaga sem hér er til umfjöllunar kemur á dagskrá. Tillaga sama efnis var flutt á síðasta þingi og segja má að allt frá árinu 1994 hafi verið málflutningur á Alþingi í þá veru að hefja bæri hvalveiðar að nýju. Formerkin hafa að vísu verið misjöfn. Árið 1994 þegar ríkisstjórnin stóð að flutningi tillögu var kannski meginefni hennar það að kanna þyrfti ákveðna hluti og síðan skilaði nefnd af sér. Fyrir tveimur árum var síðan aftur skipuð nefnd til að kanna býsna sambærilega hluti. Hún skilaði af sér, en það verður að segjast eins og er, herra forseti, að ríkisstjórnin hefur harla lítið aðhafst hvað sem líður málflutningi á Alþingi eða niðurstöðum nefnda.

Mig minnir að það hafi verið 14. október sem ég var með fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. og spurði hvort hann hygðist leggja það til á grundvelli niðurstaðna vísindanefndar og stjórnunarnefndar NAMMCO að hrefnuveiðar yrðu hafnar á Íslandi þegar á næsta ári. Mér fannst ástæða til að spyrja ráðherrann hvort sú væri fyrirætlan hans vegna þess að komið höfðu tíðindi frá NAMMCO, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gat um í ræðu sinni, tíðindi í þá veru að stjórnunarnefnd NAMMCO hafði staðfest þá niðurstöðu vísindanefndarinnar að veiðar á 292 hrefnum teldust sjálfbærar veiðar. En það verður að segjast eins og er, herra forseti, að svör hæstv. sjútvrh. ollu vonbrigðum vegna þess að hann sagðist ekki hafa í hyggju að flytja þáltill. um að leyfa veiðar á hrefnu eða hvölum í atvinnuskyni og minnti á að til athugunar væri af hálfu ráðuneytisins og á vegum ríkisstjórnarinnar að svara jákvætt ósk Hafrannsóknastofnunar um að hefja rannsóknir, um að hefja rannsóknir, herra forseti, á efnahagslegum áhrifum þess að veiða ekki og nýta ekki hvalastofna og þá einkum hrefnu. Þetta voru svör hæstv. sjútvrh. fyrir einum fjórum vikum. Það kom jafnframt fram í máli hæstv. sjútvrh. að það væri það sama og að loka augum fyrir staðreyndum ef menn gerðu sér ekki grein fyrir því að erfitt væri að vinna þessu máli framgang á erlendum vettvangi. Það kom sem sagt í ljós að mínu mati í svari hæstv. ráðherra hver hin raunverulega ástæða er fyrir því að ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst í málinu. Hún er sú að mönnum finnst erfitt að vinna málinu fylgi á erlendum vettvangi og menn vilja kaupa sér frekari tíma með því að láta rannsaka enn frekar.

Það er mjög slæmt, herra forseti, þegar umræða af þessu tagi sem varðar mál sem þjóðin lætur sig skipta jafnmiklu, og þingheimur einnig, fer fram að sjútvrh. fjarstöddum og sömuleiðis forsrh. Það er slæmt vegna þess að í þeirri skýrslu sem starfshópur um hvalveiðar sá er starfaði síðast skilaði af sér eru ákveðnar tillögur og þessi umræða væri kjörinn vettvangur til að ræða um þær niðurstöður sem sú nefnd komst að, þ.e. hvaða tillögur hún lagði fram og hvernig síðan hefur verið unnið í þeim tillögum. Þar var t.d. tillaga um að náið samráð og samstarf yrði haft við öll ríki sem hlynnt eru hvalveiðum og að teknar yrðu upp viðræður við stjórnvöld ríkja sem lagst hafa gegn hvalveiðum til þess að kynna málstaðinn og leita samkomulags við þau um framkvæmd þeirrar stefnu að hefja á ný hvalveiðar í atvinnuskyni. Það væri fróðlegt að vita hvort þetta hafi verið gert.

Jafnframt var ein tillaga þessa hóps að samráð yrði haft við helstu útflytjendur og aðra sem mikilla viðskiptahagsmuna eiga að gæta. Ég veit ekki hvort það samstarf hefur farið fram.

Önnur tillaga hópsins var að utanrrn. yrði falið að efla samráð ráðuneyta og stofnana um þátttöku í alþjóðasamstarfi sem tengst getur hvalveiðum og að kannað yrði hvort æskilegt væri að Ísland gerðist aðili að fleiri alþjóðasamningum á þessu sviði. Þessu gæti hæstv. utanrrh. svarað ef hann væri í salnum í dag. En eins og ég sagði, herra forseti, er það miður að enginn þeirra ráðamanna sem hafa málið eða ættu að hafa það á sínu borði skuli vera viðstaddir þessa umræðu til að gefa upplýsingar um það hvort og þá hvað er verið að gera í framhaldi af starfi þessa hóps.

Það kom einnig fram, herra forseti að starfshópurinn taldi rétt að kanna hvaða möguleika endurnýjuð aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu kynni að bjóða upp á. Ég flutti tillögu um það fyrir rúmu ári líklega að Ísland gerðist aftur aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu og ég hyggst endurflytja þá tillögu, herra forseti, vegna þess að ég tel að það sé nauðsynlegt að við ræðum markvisst hér í þinginu þá möguleika sem kynnu að gefast með endurnýjaðri aðild, reyndar þá með fyrirvara um hvalveiðibannið sem okkur láðist því miður að vera á móti á sínum tíma árið 1983.

Ég heyrði það á hv. þm. Pétri Blöndal áðan að þó að hann sé heitur hvalveiðisinni og vilji gjarnan taka undir þá tillögu sem hér liggur fyrir þá er hann jafnframt meðvitaður, eins og við væntanlega öll, um að við erum ekki ein í heiminum og við þurfum auðvitað að vita af nágrönnum okkar og viðskiptamönnum og ég óttast að sú tillaga hans um að stórauka þróunarhjálp með því að senda þróunarríkjunum niðursoðinn hval muni ekki mælast vel fyrir. Það marka ég m.a. af því að nýlega las ég í bresku blaði að Japanar væru farnir að gefa hvalkjöt við skólamáltíðir og ég get alveg sagt ykkur að það var enginn viðurkenningartónn í þessari grein yfir þessu framtaki Japana. Það var svo langt því frá. Það var augljóst að blaðamaðurinn sem þessa grein skrifaði var yfir sig hneykslaður á því að skólabörnum skyldi vera færður slíkur málsverður sem hvalur er. Þetta þykir okkur kannski merkilegt sem höfðum, eins og ég, hval gjarnan í sunnudagssteik, en svona er þetta og það er til þessara viðhorfa sem við þurfum líka að taka tillit þegar við ætlum að vera svo góð að senda öðrum niðursoðinn hval í dósum. Það er sem sé ekki víst að alþjóðasamfélagið samþykki það sem góðgerð af neinu tagi.