Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 12:17:43 (1064)

1998-11-12 12:17:43# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., LRM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[12:17]

Lilja Rafney Magnúsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þessa till. til þál. og ánægju með hve flutningsmenn hennar og hv. þm. Guðjón Guðmundsson hafa verið ötulir í baráttu sinni að halda þessu máli á lofti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Einars Guðfinnssonar hafa hvalveiðar ekki verið leyfðar í 15 ár og það er með ólíkindum hve þessu máli hefur verið þvælt lengi fram og til baka og hve hræðsla stjórnvalda hefur verið við það að vinna málinu fylgi á erlendum vettvangi.

Ég spyr: Hvað verður næst á friðunarlista ýmissa samtaka? Verður það þorskurinn og aðrar þær auðlindir sem við Íslendingar lifum á? Þetta mál snýst fyrst og fremst um fullvalda þjóð og rétt hennar til að nýta eigin auðlindir skynsamlega. Það er líka með ólíkindum hver firring margra er í svona málum, hve firringin er mikil meðal nútímamannsins, að menn hafa meiri áhyggjur af einhverjum hval en örbirgð og styrjöldum úti um heim. Það mæla öll rök í raun og veru með því að við hefjum hvalveiðar að nýju eins og komið hefur fram í máli hv. þm. Þetta snýst um rétt og skyldu fullvalda þjóðar að nýta lögsögu sína. Náttúruverndarsjónarmið og sjálfbær nýting auðlinda hafsins geta vel farið saman og efnahagsleg rök mæla með því að nýting hvalastofnanna svo sem annarra stofna sé eðlileg svo ekki sé um ofnýtingu að ræða því hvalastofninn er á góðri leið með að setja þorskstofninn í hættu.

Eins og fram kom áðan ber atvinnugreinin sjálf ábyrgð á sölu afurða sinna og viðskiptalegir hagsmunir eru sagðir vera í húfi. En verður ekki að fara að láta reyna á hvort það sé í raun og veru hræðsluáróður eða hvort við getum staðið uppi sem fullvalda þjóð og selt afurðir okkar með eðlilegu móti?