Hvalveiðar

Fimmtudaginn 12. nóvember 1998, kl. 12:20:35 (1065)

1998-11-12 12:20:35# 123. lþ. 23.19 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál., Flm. GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur, 123. lþ.

[12:20]

Flm. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þær ágætu undirtektir við þessa tillögu og ræður sem hér hafa verið fluttar. Þær undirtektir segja mér að hjarta Alþingis slær í takt við þjóðarsálina í þessu máli. Það eru 80--90% landsmanna sem ítrekað sýna það í skoðanakönnunum að þeir vilji hvalveiðar og mér sýnist á þeim umræðum sem hér hafa farið fram að svo sé einnig á Alþingi. Það er vissulega ánægjulegt.

Það hefur aðeins verið nefnt að það sé slæmt að hæstv. sjútvrh. sé ekki við þessar umræður og það er út af fyrir sig rétt. En þannig er að hann er erlendis og hæstv. forseti þingsins bar það undir mig í fyrradag hvort ég vildi taka málið á dagskrá áður en hann kæmi heim. Mér þótti rétt að gera það vegna þess að nefndavika hefst í Alþingi eftir rúma viku og ég vil að málið sé þá komið í nefnd. Málið lenti í því á síðasta þingi að bíða mjög lengi eftir að komast í umræðu og kom síðan allt of seint til nefndar þannig að mér fannst betra að fá málið til nefndarinnar núna fyrir nefndavikuna þannig að hægt sé að taka það til umfjöllunar og afgreiðslu þótt auðvitað hefði verið betra að ráðherra hefði verið viðstaddur.

Það hefur líka verið nefnt að tillögur hafi komið fram ár eftir ár um hvalveiðar. Það er reyndar ekki alls kostar rétt. Það hafa ekki komið fram beinar tillögur. Málið hefur verið rætt á hverju einasta þingi ýmist í formi utandagskrárumræðna eða fyrirspurna en ég held að ég fari rétt með að beinar tillögur hafi ekki komið síðan 1992 og 1993 að ég flutti slíka tillögu ásamt Matthíasi Bjarnasyni og svo aftur á síðasta þingi og þá tillögu sem núna er til umræðu.

Hv. þm. Gísli Einarsson nefndi það að ríkisstjórnin þyrfti að gefa yfirlýsingu. Ég tel að sú ræða sem hæstv. forsrh. flutti á þingi Norðurlandaráðs á mánudaginn og ég gat um í ræðu minni áðan og fleiri hafa nefnt sé mjög mikilvægt innlegg í þetta mál og þegar hæstv. forsrh. talar á þann veg, þá sé hann að flytja boð frá ríkisstjórninni.

Hv. þm. Gísli Einarsson nefndi einnig að hér gæti verið um mikið atvinnuspursmál að ræða og vissulega væri það svo ef tækist að endurvekja hvalveiðar og hvalvinnslu í því formi sem áður var. Þetta er auðvitað gríðarlega mikið atvinnuspursmál og var mjög mikilvægur þáttur í atvinnulífi landsins. Það urðu einnig miklar útflutningstekjur af veiðunum og þetta var mjög mikilvæg atvinnugrein fyrir einstök héruð svo sem Hvalfjarðarströndina, Barðaströndina, Norðurlandið og víðar. Áður en hvalveiðibannið tók gildi árið 1986 unnu um 250 manns við hvalveiðar og vinnslu á sumrin. Þetta var talið jafngilda 100 ársverkum. Það voru einnig níu bátar sem stunduðu hrefnuveiðar á þessum árum og þetta skapaði heilmikla vinnu fyrir þá sem unnu við alls konar þjónustu í kringum þetta.

Ég er sammála því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði að firring nútímamannsins er vissulega íhugunarefni. Það er auðvitað íhugunarefni þegar fólk í stórum stíl lætur sig hafa það að ættleiða hvali eða lætur sig hafa það að skólabörn gefi sparifé sitt til að flytja gamlan háhyrning milli heimshorna. Það er full ástæða fyrir okkur að hafa áhyggjur af þessu og að íbúar stórþjóðanna virðast vera sambandslausir við náttúruna og trúa því eins og hv. þm. nefndi að kjötið verði til í kjörbúðunum. Og hann nefndi Keikó. Ég verð að segja að ég hef varla þrek til að tala um allt ruglið í kringum það mál. Ég hef sagt það áður að þetta er eitthvert mesta dellumál sem rekið hefur á fjörur okkar lengi og ég held að ég endurtaki það hér.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi að ekki væri rétt að leyfa hvalastofnunum að vaxa óhindrað meðan aðrir nytjastofnar sjávar séu nýttir og það er auðvitað alveg hárrétt. Við erum að reyna að nýta aðra nytjastofna sjávar á skynsamlegan hátt og stjórna þeim veiðum en það er alveg úr takt við þá nýtingarstefnu að síðan geti þessi stóru sjávarspendýr fjölgað sér óhindrað. Það skapar auðvitað mikið ójafnvægi í lífríkinu og leiðir til þess, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni og komið hefur fram hjá Gísla Víkingssyni, hvalasérfræðingi hjá Hafró, að þetta mun verða til þess að við verðum að skera niður veiðar á helstu nytjastofnum okkar.

Hv. þm. Magnús Stefánsson nefndi það að ríkisstjórnin hefði ekkert gert og vissulega hefði hún kannski mátt gera meira. En ég held samt að að undanförnu hafi menn bæði á vegum sjútvrn. og utanrrn. verið að kynna fyrir helstu viðskiptaþjóðum okkar hvernig þessi mál horfa við okkur og hvað við ætlum okkur. En ég get alveg tekið undir það með hv. þm. að menn hafi mátt fara hraðar á þeim bæ.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi sölu hvalafurða. Það gerði hv. þm. Ólafur Hannibalsson einnig og nefndi stöðuna varðandi CITES og innflutning á rengi frá Noregi. Ég held að það mál hafi ekki strandað á þeirri ágætu stofnun heldur sé það ákveðið kjarkleysi hjá Norðmönnum sem oft eru nú að saka okkur um kjarkleysi í þessu máli. Ég veit ekki betur en það mál sé á leið fyrir dómstóla í Noregi og talið að sá sem mun sækja það mál muni vinna það auðveldlega. En ég held að það snúi ekki að okkur að láta væntanlega sölu á hvalafurðum ráða ferðinni í þessu máli. Ég held í fyrsta lagi að það reyni ekkert á söluna meðan veiðarnar eru bannaðar. Það reynir ekkert á hana fyrr en búið er að leyfa veiðarnar. Það sem snýr að Alþingi er að leyfa veiðarnar. Síðan er það þeirra sem ætla að stunda þær að selja afurðirnar og ef þeir ekki getað selt þá veiða þeir sjálfsagt ekki mikið. Þeir telja sig reyndar ekki vera í nokkrum vafa um að geta selt þessar afurðir. Ég er ekki í neinni stöðu til að rengja þær fullyrðingar. Á þetta reynir ekki fyrr en Alþingi hefur tekið þá afstöðu að leyfa megi veiðarnar og ég minni á að þessi tillaga gengur ekki út á að hefja hvalveiðar. Hún gengur út að leyfa hvalveiðar. Það er það eina sem snýr að okkur á Alþingi.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með svör hæstv. sjútvrh. og mér fannst hún tala þannig að þar með væri settur ákveðinn punktur aftan við þetta mál. Ég er alveg sammála hv. þm. að ég hefði viljað að hæstv. sjútvrh. svaraði öðruvísi. En ég held að það sé ekki endilega neinn endapunktur þó einhver ráðherra hafi þessa skoðun. Það er auðvitað Alþingis að taka afstöðu til málsins. Það hefur komið fram, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gat réttilega um í seinni ræðu sinni, að það er yfirburðastuðningur við þetta mál á Alþingi og Alþingi á auðvitað ekki að hopa fyrir því þótt einhver tiltekinn ráðherra sé annarrar skoðunar. Hann er væntanlega í miklum minnihlutahópi. Þess vegna er ég sammála því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði að við eigum að sýna kjark í þessu máli, ljúka því og samþykkja þessa tillögu.

Ég er einnig sammála því sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði að ekki þyrfti að senda þetta mál aftur til umsagnar. Sjútvn. sendi málið mjög víða til umsagnar í vor og fékk margar ágætar umsagnir sem flestar voru mjög ákvæðar og það er engin ástæða til að endurtaka þann leik eftir örfáa mánuði. Væntanlega fá menn sömu svörin frá sömu aðilum.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir spurði: Hvað næst? Verða það fiskveiðarnar ef við hopum alltaf í hvalveiðimálinu? Það er einmitt það sem ég tel að komi næst, eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, og sú barátta er raunar þegar hafin. Ef við flettum víðlesnum bandarískum blöðum og tímaritum sjáum við heilsíðu auglýsingar, jafnvel heilar opnur með miklum áróðri þar sem menn leggjast gegn fiskveiðum. Það er auðvitað það sem kemur næst og ég held að full ástæða sé til að taka þetta alvarlega vegna þess að þessi herferð minnir óneitanlega á þau vinnubrögð sem voru viðhöfð í aðdraganda hvalveiðibannsins og leiddu til þess. Ef menn ætla endalaust að hopa þá verða fiskveiðarnar næst fyrir barðinu á þessu öfgaliði.

[12:30]

Það hefur stundum verið nefnt, þó að það hafi kannski ekki verið nefnt við umræðuna nú, að þetta geti truflað hvalaskoðunarstarfsemina. Einstöku forsvarmenn hvalaskoðunarfyrirtækja hafa talað gegn því að við hefjum hvalveiðar að nýju og telja að það muni bitna á starfsemi sinni. Ég tel að þessi starfsemi sé öll hin ágætasta, skapi nokkur störf og sé ágæt afþreying fyrir ferðamenn. Hins vegar er það alls ekki reynsla Norðmanna, eins og ég nefndi áðan, að veiðarnar bitni á hvalaskoðun. Síðasta sumar fóru 20 þúsund ferðamenn í hvalaskoðunarferðir frá Noregi á móti 15 þúsund í fyrra. Á sama tíma voru Norðmenn að auka hvalveiðar sínar verulega því að þeir veiddu 642 hrefnur í sumar en 503 í fyrra.

Stærsta hvalaskoðunarfyrirtæki Noregs er í Andenes og árið 1991, áður en Norðmenn hófu hvalveiðar að nýju, fóru hálft fimmta þúsund ferðamanna í hvalaskoðun á vegum þessa fyrirtækis. Árið 1997 voru þeir komnir í 11 þúsund og síðasta sumar voru þeir orðnir 15 þúsund. Sú stefna Norðmanna og nýta og njóta reynist því vel. Noregur er eina landið í heiminum þar sem samtímis eru stundaðar á sömu svæðum hvalveiðar og hvalaskoðun.

Við eigum að nýta þessa auðlind okkar, hvalina í hafinu, á þrjá vegu. Fyrst og fremst með því að veiða hval og vinna afurðirnar. Í öðru lagi með hvalaskoðunarferðum og í þriðja lagi með því að sýna ferðamönnum hvalvinnslu. Eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi réttilega áðan komu þúsundir ferðamanna á hverju einasta sumri í hvalstöðina í Hvalfirði á meðan hún var starfrækt, bæði til að sjá þessar risaskepnur dregnar á land og eins til að fylgjast með hvalvinnslunni. Þetta voru með vinsælustu ferðum sem hótel og ferðaskrifstofur í Reykjavík buðu upp á, gjarnan dagsferðir þar sem farið var um sveitir Borgarfjarðar í leiðinni, komið við í Reykholti, Borgarnesi, Akranesi og víðar.

Minnst hefur verið á afstöðu erlendra ríkja til hvalveiða og hótanir þeirra í garð þjóða sem hyggjast hefja þessar veiðar. Í því samhengi er ástæða til að minna á samþykktir ýmissa alþjóðastofnana sem þessi ríki eru aðilar að. Þar má minna á viðauka við sáttmála Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem segir, með leyfi forseta, að hvalveiðar í atvinnuskyni skuli leyfðar á hvalastofnum sem eru í jafnvægi og skuli stundaðar í samræmi við tillögu vísindanefndarinnar.

Einnig mætti minna á hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, samþykkt Ríó-ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun og samþykkt 44. þings Evrópuráðsins. Það verður að gera þá kröfu að þær þjóðir sem standa að þessum alþjóðastofnunum standi við samþykktir sem þær hafa gert á þessum vettvangi en vinni ekki gegn þeim, eins og reyndin hefur því miður orðið hjá nokkrum þeirra. Þar má auðvitað nefna þjóðir eins og Bandaríkin, Bretland og Þýskaland. Stjórnvöld í þessum ríkjum hafa lagst mjög gegn hvalveiðum og Bandaríkjamenn gengið hvað lengst, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni. Þeir hafa haft uppi hótanir og afskiptasemi sem er þeim ekki sæmandi.

Ágætt dæmi um afskiptasemi Bandaríkjamanna er að þegar kaupmaður nokkur hér í Reykjavík ætlaði að flytja inn rengi frá Noregi í fyrra þá fékk hann upphringingu frá bandaríska sendiráðinu. Hann var tekinn í yfirheyrslu um hvað vekti fyrir honum og hvað hann ætlaði sér. Hann var spurður í þaula. Hvað kom bandaríska sendiráðinu eða Bandaríkjamönnum þetta yfirleitt við? Þetta er óþolandi afskiptasemi af okkar innanríkismálum. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni má vænta breytinga á afstöðu Bandaríkjamanna þar sem alþjóðastofnanir líða þeim ekki lengur þessa framkomu.

Hv. sjútvn. fékk þessa tillögu til umfjöllunar síðasta vor og sendi hana til umsagnar fjölmargra aðila. Hún fékk mörg svör sem flest voru mjög jákvæð. Aðeins þrjú svör voru ekki jákvæð, frá Ferðamálaráði, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa og Hvalamiðstöðinni á Húsavík. Mér finnst andstaða þessara aðila nokkuð undarleg í ljósi þess að þegar úrsögn Íslands úr Alþjóðahvalveiðiráðinu var undirbúin þá skoðaði nefnd, sem um það mál fjallaði, mjög ítarlega hugsanleg áhrif á útflutningsgreinar og m.a. ferðaþjónustu. Í skýrslu þeirrar nefndar kom fram að fulltrúi Ferðamálaráðs hefði tjáð nefndinni að umtal í kjölfar úrsagnar úr þessu ráði gæti jafnvel eflt ferðaþjónustuna hérlendis og fjölgun ferðamanna hingað til lands á undanförnum árum benti til að umræða fyrri ára um hvalveiðimál hefði ekki skaðað Ísland sem ferðamannaland.

Allar aðrar umsagnir voru mjög jákvæðar. Ég hef ekki tíma til að geta um þær nú því að tími minn er á þrotum. Í umræðunum í dag hefur verið sýnt fram á að öll rök hnígi að því að hefja hvalveiðar innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til og reyndar sé hreint ábyrgðarleysi að gera það ekki.

Nú verður Alþingi að taka af skarið. Alþingi hefur ekki tekið afstöðu til hvalveiða í tæp 16 ár eða síðan það var samþykkt með eins atkvæðis mun, illu heilli, í febrúar 1983 að mótmæla ekki banni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Alþingi getur ekki lengur verið stikkfrí í þessu máli. Alþingi verður að taka afstöðu og Alþingi hefði sóma af því að samþykkja þessa tillögu og leyfa hvalveiðar næsta sumar.